Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 17:49:06 (5476)

1997-04-18 17:49:06# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[17:49]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú svona þegar menn ganga út og inn undir ræðum þingmanna og koma síðan og vita allt um þær eins og gerðist núna hjá hv. þm. Ég fór mjög glöggt yfir það í upphafi máls míns að þegar ég byrjaði að gagnrýna lífeyrissjóðina fyrir 8--9 árum og gagnrýndi þá hart, þá var talið að þeir ættu ekki fyrir skuldbindingum sínum. Ég sagði í ræðu minni áðan að sem betur fer væri það liðin tíð og flestir sjóðirnir ættu nú fyrir sínum skuldbindingum. Ég hef reyndar oft rakið það af öðrum ástæðum. Lífeyrissjóðirnir hafa verið þeir sem hafa ráðið því okurvaxtastigi sem hefur ríkt á Íslandi í 10 ár. Þeir hafa farið í broddi þeirrar kröfugerðarmanna sem hafa krafið ríkið um hærri vexti á spariskírteinum, meiri afföll af húsbréfum o.s.frv. Það góða sem við getum þó fagnað er að þeir eiga flestir nú fyrir skuldbindingum sínum. Þeir hafa hagrætt í rekstri sínum og þeim hefur fækkað um helming á þessum tíma og reksturinn er með allt öðrum hætti. Þannig að þetta var skoðun mín í þessu efni, hv. þm.

Ég vil enn fremur segja um valfrelsið og hv. þm. talar um að menn mundu hrekjast inn í veika sjóði o.s.frv. Nú er sjóðunum dálítið skipt. Einn sterkasti sjóðurinn er þó Lífeyrissjóður verslunarmanna í Reykjavík. Verslunarmenn í Reykjavík hafa ekki verið hingað til taldir hátekjumenn en það er mjög sterkur sjóður sem þeir hafa byggt upp og svo er auðvitað með fleiri sjóði, ekki síður þá sjóði sem láglaunafólkið hefur komið að. Ég hygg að SAL-sjóðirnir séu mjög sterkir.