Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 18:00:36 (5482)

1997-04-18 18:00:36# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[18:00]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í ræðu sinni fyrr í dag mæltist hæstv. fjmrh. til þess að það ríkti nú friður og eining um þetta mál. Ég hygg að sú umræða sem hér hefur átt sér stað í dag og sú umræða sem þegar er hafin úti í samfélaginu sýni að það verði ekki mjög friðsamlegt í kringum þetta mikilvæga málefni. Því nefni ég þetta að mér þykir afar mikilvægt að hér náist samstaða um afgreiðslu þessa máls sem allra fyrst og að því verði lokið nú á vordögum. En það er svo sem engin furða að menn rjúki upp til handa og fóta því að eins og fram hefur komið hér í dag, þá fara auðvitað gríðarlegir fjármunir um hendur lífeyrissjóðanna og þeirra sem þar vinna. Það hefur komið skýrt í ljós á undanförnum mánuðum að ýmsa fýsir að komast í það fjármagn og þarf ekki annað en minnast þess sem komið hefur fram hjá Landsbankanum við kaup þeirra á VÍS og yfirlýsingar formanns bankaráðsins sem hefur látið í ljós áhuga á því að bankinn færi sig inn á svið líftrygginga sem er reyndar nokkuð sem er í miklum vexti erlendis, að líftryggingar verða æ öflugri.

Það vill nú svo til að hér á landi búum við við allt öðruvísi kerfi sem eins og kemur fram í greinargerð þessa frv. er talið með því besta sem finnst í heiminum og aðrar þjóðir eru farnar að líta til sem fyrirmyndar. En víða erlendis eins og t.d. í Bandaríkjunum hefur það tíðkast mjög lengi að einstaklingar kaupa sér eða fyrirtækin sem þeir vinna hjá kaupa slíkar tryggingar.

Þau deilumál sem hér eru uppi snúast fyrst og fremst um skylduaðildina og um þá samtryggingu sem hún felur í sér. En það má vera nokkuð ljóst að þeir sem ekki eru aðilar að lífeyrissjóðum taka ekki þátt í samtryggingu samfélagsins. Maður spyr sig að því hvort að þeir sem eru nú að mótmæla og stofna samtök til þess að ná fram breytingum á þessu frv. líti þannig á að þeir eigi ekki og jafnvel vilji ekki taka hlut í samtryggingunni. Þegar menn eru að tala um valfrelsi og það að einstaklingarnir, hverjir sem þeir eru, hafi rétt til þess að velja um það í hvaða sjóði þeir eru, þá gefur það auga leið að slíkt valfrelsi hleypir öllu þessu kerfi upp. Það þýðir að þá fara menn í keppni um einstaklingana, fara að keppast um að ná þeim til sín og auðvitað sækjast menn þá eftir þeim sem mestar hafa tekjurnar og borga þar af leiðandi mest í sjóðina, en það kallar á ákveðna hættu á að þeir sem lægst hafa launin sitji eftir og þeirra sjóðir verði ekki eins öflugir.

Það sem ég hef einna helst velt fyrir mér í þessu samhengi og tengist þessari skylduaðild er staða þeirra sem standa utan stéttarfélaga. Mér finnst vera ákveðið vandamál í þessu dæmi hvernig eðlilegt er að ná til þeirra. Ég vil vísa m.a. til þess sem fram kemur í athugasemdum frá Alþýðusambandinu þar sem bent er á að eins og kerfið er núna þá kemst ákveðinn hópur einyrkja og atvinnurekenda á einn eða annan hátt undan tryggingarskyldu og það er enginn aðili sem fylgist með því hvort þeir greiða í lífeyrissjóði. Ég spyr mig, þó að þessi lagalega skylda komist á, þ.e. að öllum beri að vera aðilar að lífeyrissjóði, hvort því sé nægilega fylgt hér eftir að fylgjast með því að svo sé. Hvernig á að fylgjast með því að menn séu í lífeyrissjóðum og greiði í þá? Hvernig verður eftirlitinu með því háttað? Þeir sem ekki eru í stéttarfélögum og eru ekki bundnir af kjarasamningum velja þá um ákveðna sjóði. Sú regla hefur verið gildandi að menn hafa verið í sjóðum á sínu atvinnusviði. Sjálfstæðir iðnaðarmenn hafa verið í sjóðum iðnaðarmanna o.s.frv. En nú eiga menn að velja. Og fyrst hæstv. fjmrh. er nú genginn í salinn, þá vil ég gjarnan endurtaka þessa spurningu til hans sem ég var að velta upp. Hæstv. fjmrh., hvernig á að tryggja, hvernig á að fylgjast með því að þeir sem ekki eru aðilar að stéttarfélögum og kjarasamningum séu í lífeyrissjóðum og greiði til þeirra? Þetta er mjög óljóst í mínum huga. Við vitum að nú er nokkur hópur sem er utan slíkra sjóða.

Vandinn í þessu dæmi finnst mér vera hvernig eigi að fara með þá sem standa utan sjóða og eru ekki í stéttarfélögum og hver réttur samfélagsins sé til að knýja þá til skylduaðildar þar sem það er svo greinilegt að ekki eru sömu hagsmunir á ferð. Við skiljum öll að það eru hagsmunir og í raun og veru skylda og fagleg tilfinning, við skulum segja t.d. hjúkrunarfræðinga, kennara eða hverra sem er, að styðja sína stétt og halda utan um hagsmuni sinnar stéttar. En málið horfir svolítið öðruvísi við sjálfstæðum einstaklingum sem reka sín fyrirtæki og um gilda aðrar reglur en auðvitað ber þeim skylda til að taka þátt í samtryggingu samfélagsins. Og ef það er komin á skylduaðild með lögum, þá verður hún auðvitað að ná til allra. Það er grundvallaratriði að hún nái til allra.

Þessi umræða sem hér er hafin og það frv. sem liggur fyrir tengist því sem menn eru sem betur fer að gera sér æ betur grein fyrir, þ.e. að aldurssamsetning íslensku þjóðarinnar er að breytast og að öldruðum mun fjölga hér jafnt og þétt á næstu árum og áratugum svo framarlega að ekki gerist eitthvað sem breytir þeirri þróun. Ég hef í umræðum, m.a. um heilbrigðiskerfið og framtíðina, margoft komið að þeirri spurningu hvernig við ætlum að standa undir allri þeirri miklu félagslegu þjónustu sem augljóst er að við þurfum að sinna. Þetta er mikil og stór grundvallarspurning sem önnur samfélög eru farin að glíma við vegna þess að þau eru einfaldlega lengra komin í þessari þróun en við. Ég nefni þar t.d. Svía, Frakka, Þjóðverja og fleiri. Því er það auðvitað hárrétt pólitík sem hér hefur komið fram og það hefur alltaf verið markmið lífeyrissjóðanna að tryggja vinnandi fólki ákveðinn lífeyri á elliárum og að létta þar með á almannatryggingakerfinu sem fyrst og fremst hefur það hlutverk að aðstoða þá sem verst standa að vígi sem eiga við sjúkdóma eða örorku eða önnur alvarleg vandamál að stríða og hafa ekki lagt fyrir og hafa ekki getað lagt fyrir. En við vitum að býsna stór hópur fólks sem nú er að komast á efri ár hefur ekki verið í lífeyrissjóðum eða hefur verið í þeim tiltölulega skamman tíma og þar af leiðandi er augljóst að um allnokkurt skeið verður töluvert álag á almannatryggingakerfinu. En eftir því sem lífeyrissjóðirnir verða öflugri og fleiri og fleiri komast á efri aldur sem hafa greitt í lífeyrissjóði mestallan sinn starfsaldur, því meira mun létta á kerfinu og ég undirstrika nauðsyn þess að við eigum hér gott og öflugt heilbrigðis- og almannatryggingakerfi.

Það eru nokkur atriði varðandi þetta frv. sem ég hef mikinn áhuga á og eitt af því er m.a. lýðræðið í sjóðunum. Það má segja að það sé mál sem snýr að verkalýðshreyfingunni annars vegar eða félögum launafólks annars vegar og vinnuveitendum hins vegar, þar sem þeir koma að borðinu, hvernig þeim málum er háttað. Ég vildi sjá meira lýðræði í sjóðunum, að fólk væri virkara í að fylgjast með og hafa áhrif á stefnuna og að betur væri staðið að upplýsingum til félaga. En í þessu frv. er gert ráð fyrir því að áfram verði það fyrirkomulag við lýði að stéttarfélög annars vegar og vinnuveitendur hins vegar eigi jafna aðild að stjórnum sjóðanna en síðan verði haldnir ársfundir þar sem sjóðfélögum gefst kostur á að koma og fylgjast með, með umræðu- tillögurétt, eins og segir í 30. gr. Þetta gefur fólki ekki beinlínis kost á því að hafa áhrif en það er þó til bóta að skylda alla sjóði til þess að halda ársfundi því ég hygg að nokkur misbrestur sé á því að það sé gert. En þetta er ákveðið samningsatriði. Lífeyrissjóðirnir flestir eða þeir sem talist hafa til lífeyrissjóða eru fyrst og fremst eign þeirra sem eru aðilar að þeim.

Ég ætla þá að koma að einstökum atriðum frv., hæstv. forseti, þó að ég gæti tekið hér ýmislegt til umræðu og rætt um málið almennt. En það hafa aðrir gert á undan mér og ég get tekið undir það flest. Í fyrsta lagi vil ég taka undir þá spurningu sem hér hefur komið fram varðandi 2. gr. þar sem ráðningarsamningar eru tíundaðir. Menn hafa velt því nokkuð fyrir sér hvað þetta þýðir í raun og veru, ekki síst vegna þess sem stendur í greinargerðinni á bls. 22 um 2. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Sé ekki kveðið á um aðildina í sérlögum eða kjarasamningi getur vinnuveitandi gert þá kröfu í ráðningarsamningi að starfsmaður hans greiði í tiltekinn lífeyrissjóð.``

Það er sem sagt á valdi vinnuveitenda að ákveða í hvaða sjóði starfsmaður hans verður. Það er auðvitað spurning hvort þetta sé eðlilegt og hversu víðtæk þessi heimild getur orðið og hver sé eiginlega meiningin með þessu.

Ég las í viðtali við hæstv. fjmrh. að hann teldi gagnrýni bæði Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins á þetta atriði vera á misskilningi byggða, en það er sannast að segja afar óljóst hvað þetta þýðir.

Það sama gildir um 5. gr. Hún er nokkuð óskýr í orðalagi. Ég skil hana þannig að skyldutrygging skuli ávallt og ævinlega vera að lágmarki 10%. Hún getur verið hærri. Skyldutrygging getur verið hærri og þar með tel ég að greinin nái utan um lögin um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna og síðan þetta að allt sem er fyrir ofan 10% geti skipst í lágmarksiðgjald og viðbótariðgjald, fyrir utan lágmarksiðgjaldið sem opinberir starfsmenn greiða. En það þarf að vera algjörlega skýrt hvað við er átt í þessu þannig að ekki sé hægt að draga það á nokkurn hátt í efa.

Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á 8. gr. og það atriði að lífeyrissjóðirnir skuli ekki hafa heimild til þess að ávaxta viðbótariðgjöld sinna félagsmanna. Ég kaupi nú ekki þau rök sem hér hafa komið fram hjá hæstv. fjmrh. Mér finnst í sjálfu sér engin lausn að lífeyrissjóðirnir fari að stofna líftryggingafélög. Mér finnst það bara ekki vera á þeirra starfssviði að fara að stofna sérstök líftryggingafélög til þess að ná utan um viðbótarsparnað síns fólks. Ef einhvers staðar á að vera valfrelsi, þá er það í þessu, hvort einstakir sjóðfélagar vilja að þeirra viðbótarsparnaður sé hjá lífeyrissjóðnum eða einhvers staðar annars staðar. Eins og hér hefur komið fram, þá hafa lífeyrissjóðirnir tekið verulega og rækilega til í sínum ranni og alla vega lífeyrissjóðirnir sem eru á almennum markaði, SAL-sjóðirnir, standa flestir nokkuð vel að vígi og þeim hefur tekist að ávaxta sitt fé mjög rækilega, enda fýsir marga að komast í þann mikla sjóð og út á það gengur auðvitað allt þetta mál eins og hér hefur komið fram í dag. Ég hygg því að þetta sé atriði sem hv. efh.- og viðskn. þurfi að athuga mjög rækilega.

Þá vil ég aðeins víkja að atriði í 15. gr. Það er atriði sem lýtur að því að takmarka rétt fólks til örorkulífeyris. Hér efst á bls. 5, og ég vil vekja sérstaka athygli á þessu, er vikið að því að það má skerða hjá þeim, eða ég skil það þannig, sem hafa orðið fyrir orkutapi sem rekja má til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna. Mér finnst þetta atriði orka mjög tvímælis. Ég lít svo á að fólk sem orðið hefur fórnarlömb ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna sé ekki sjálfrátt gerða sinna og eigi oft og tíðum í raun og veru við sjúkdóm að stríða og það er almennt orðið nokkuð viðurkennt í okkar samfélagi að áfengissýki sé sjúkdómur þó að um það megi reyndar deila. Mér finnst ekki að það eigi að kveða á um það í lögum að fólk sem verður öryrkjar vegna ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna verði fyrir skerðingu af þeim sökum. Ég vil beina því til nefndarinnar að athuga þetta atriði sérstaklega. Mér finnst þetta ekki mannúðlegt, ég verð að segja það alveg eins og er.

Þá langar mig að beina spurningu til hæstv. fjmrh. vegna 21. gr. þar sem kveður á um að að jafnaði skuli minnst 800 sjóðfélagar greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs, þ.e. ekki er heimilt að starfrækja lífeyrissjóð nema í honum séu minnst 800 sjóðfélagar. Mig langar hreinlega til að forvitnast um það hvað þetta þýðir. Er falin í þessu hvatning til lífeyrissjóða til þess að sameinast? Eru enn þá starfandi margir sjóðir sem hafa félagatölu sem er undir 800? Það kemur ekki fram í skýringum við greinina. Hvernig er þessi viðmiðun tilkomin? Ég spyr hvort ekki væri ástæða til þess að hafa þessa tölu einfaldlega hærri til þess að hvetja til frekari sameiningar og hagræðingar því að það hlýtur öllum að vera ljóst að því stærri sem sjóðirnir eru, því öflugri eru þeir og því betur geta þeir tryggt hag sinna félaga.

Ég hafði líka skrifað hjá mér 29. gr. en ég var reyndar búin að koma inn á það atriði, það lýtur að stjórn lífeyrissjóðanna sem skal tilnefnd af samningsaðilum þegar það á við. En það segir þó hér, með leyfi forseta:

,,Þó er heimilt að kveða á um annað í samþykktum sjóðsins.``

Ég vildi nú gjarnan heyra hvernig hæstv. fjmrh. túlkar þetta atriði. Hversu langt væri hugsanlegt að ganga í annarri samsetningu stjórnar eða aðkomu félaga að stjórn sjóðsins? Er þarna um opnun að ræða hvað þetta varðar?

Hæstv. forseti. Tíma mínum er alveg að ljúka og ég held að ég hafi komið að flestu því sem mér finnst skipta mestu í þessu. Ég tek mjög sterklega undir það að samtrygging er afar mikilvæg í okkar samfélagi, en ef menn koma á þeirri skyldu að allir eigi að taka þátt í samtryggingunni þá verður auðvitað að vera hægt að tryggja að allir geri það. Og það eru mín lokaorð að ítreka þá spurningu: Hvernig á að tryggja að svo verði?