Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Föstudaginn 18. apríl 1997, kl. 20:12:11 (5502)

1997-04-18 20:12:11# 121. lþ. 106.8 fundur 530. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[20:12]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það var eitt sinn sagt á nær öllu Íslandi um eitt ágætt kvæði að allir vildu Lilju kveðið hafa. Svo ólíkar eru raddir um þetta mál sem við ræðum að varla verður sagt um þetta frv. að allir vildu það hafa fram lagt. Það er hins vegar rétt að á málinu sem það fjallar um, viðfangsefninu lífeyristryggingum, eru svo margar hliðar að það verður ekki kallað annað en mjög flókið. Aðgerðir sem á að framkvæma og lögleiða með þessu frv. eru þess efnis að ætlunin mun vera að gera stöðu allra sem eiga að tryggja sinn lífeyri nánast jafna og verður nú að viðurkennast að um svipað leyti og það tímabil sem fjallað er um á fyrstu síðum greinargerðar með frv., þar sem fjallað er um slæmt ástand skyldulífeyrissjóðanna fyrir fáeinum árum, var sungið í vinsælum söng hér á landi að allir skyldu fara í kassa, allir eins. Skyldi það nú eiga við um markmiðin með þessari frumvarpssmíð?

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að lýsa þeim markmiðum sem hér eru rædd í greinargerð með frv. Í fyrsta lagi markmiðum með starfi þeirrar nefndar sem sagt er frá á bls. 17, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Í erindisbréfi nefndarinnar kom fram að meginverkefni hennar væri að útfæra það markmið ríkisstjórnarinnar að treysta starfsgrundvöll lífeyrissjóðakerfisins þannig að allir landsmenn nytu sambærilegra lífeyrisréttinda. Sérstök áhersla skyldi lögð á að finna leiðir til að auka valfrelsi í lífeyrissparnaði, innleiða samkeppni milli lífeyrissjóða og tryggja bein áhrif sjóðfélaga á stefnumörkun og stjórn sjóðanna.``

Litlu neðar á blaðsíðunni segir um frv. sjálft að það miði ,,að því að setja almenna umgjörð um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.`` Í þessari málsgrein er ekki fjallað um hin fyrri markmið, þ.e. að auka valfrelsi í lífeyrismarkaði eða innleiða samkeppni milli lífeyrissjóða og tryggja bein áhrif sjóðfélaga á stjórn þeirra og stefnumótun. Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég er öllu hlynntari hinum fyrri markmiðum og þá helst þeim sem mér sýnist að ekki hafi verið haldið til haga við lok þessarar vinnu, þ.e. þegar kom að frumvarpsgerðinni sjálfri, enda segir ofar á þessari sömu blaðsíðu að nefndin hafi verið leyst upp án þess að hún lyki störfum og frv. byggi aðeins að hluta á þeim niðurstöðum sem urðu af nefndarstarfinu.

[20:15]

Herra forseti. Vandanum sem við hefur verið að etja í lífeyrissjóðakerfi landsmanna er lýst með fáum orðum á bls. 18 í greinargerðinni. Ég vil leyfa mér að víkja örlítið að þeim vanda sem þar er lýst þar sem talað er um neikvæða raunávöxtun á fyrstu árum almennu sjóðfélaganna og sagt að ekki séu nema um 15 ár, þ.e. núna séu ekki nema um 15 ár síðan flest benti til þess að markmið þessa kerfis og tilætlaður árangur mundi ekki nást, kerfið mundi sigla í strand og liðast í sundur.

Hin rétta lýsing, herra forseti, er auðvitað sú að kerfið eins og það var þá statt virtist alls ekki hafa burði til þess að tryggja sjóðfélögunum lífeyrisréttindin sem þeir höfðu verið að greiða. Ástæðan er okkur öllum ljós. Hún liggur í því efnahagsástandi sem hér ríkti á þeim tíma sem sjóðirnir fóru af stað, um 1970 og á árunum þar á eftir, og allt fram undir þann tíma sem hér er verið að tala um, langt fram á síðasta áratug og raunar fram undir síðustu áratugaskiptin. Og ég held líka að sá mikli fjöldi sem síðasti hv. ræðumaður nefndi að hefði komið til liðs við sjóðina eftir að hann var með lögum skyldaður til þess, sé lýsandi dæmi um að almenningur hafði ekki trú á þessum skyldusparnaði vegna þess að það var reynsla alls almennings á þessum tíma að á Íslandi, við þær efnahagsaðstæður sem þá ríktu, borgaði sig ekki að spara. Meira að segja borgaði sig að skulda. Það gekk svo langt að það var almenn skoðun fjölskyldna, fjölskyldufeðra og sérhvers ábyrgs manns að það væri nánast happdrættisvinningur að skulda meira en næsti maður.

Á þessum tíma, herra forseti, var það viðtekin venja að þessir sjóðir lánuðu út fé sitt jafnharðan á lægri vöxtum en raunávöxtun og það var ástæðan fyrir þessari slæmu stöðu þeirra sem þarna er lýst. Það er ekki fyrr en síðar, eftir þetta tímabil, að stjórnendur sjóðanna taka upp aðra stefnu og það verður líka að viðurkennast, herra forseti, að á því tímabili voru þessir sjóðir og auðvitað stjórnendur þeirra í hópi þeirra stjórnenda fjármála á Íslandi sem héldu uppi háum vöxtum með ákvörðunum sínum.

Ég er sammála því sem kemur fram í málsgreininni neðst á bls. 18, að til þessa tíma hafi lög verið sett um rekstur, þ.e. almenna starfsemi, allra annarra fjármálastofnana en lífeyrissjóða og meira að segja allra annarra en skyldulífeyrissjóðanna. Og ég verð að viðurkenna að í mín eyru hefur alloft verið sagt undanfarin ár að einmitt þeir væru sennilega einu fjármálastofnanir landsins sem hefðu með sér samráð um vaxtaákvarðanir, samráð um kaup á verðbréfum til þess að hafa áhrif á vexti. Skyldi það nú hafa verið til þess að lækka þá? Ég hygg að ætlunin hafi verið að halda vöxtum uppi.

Auðvitað var það með þessum aðferðum sem sjóðirnir náðu á því tímabili að bæta úr hinu fyrra ófremdarástandi. Ég er sannfærður um það að á meðan hið fyrra ástand ríkti, þá hafði það engan mann hvatt til þess að leggja í lífeyrissjóðina sparifé umfram það sem þeir voru skyldaðir til og alls ekki þá sem framan af fengu ekki aðgang að þessu lífeyrissjóðakerfi. Það var svo að lengi vel fengu ekki allir aðgang að því sem hefðu viljað. Nú hins vegar virðast þeir lífeyrissjóðir vilja fá þá til liðs við sig sem vildu ekki sjá þá áður. Herra forseti. Ég álykta sem svo að það hlýtur að vera vegna þess að þessir hópar þjóðfélagsins hafa sýnt hin síðustu ár meiri áhuga á að spara en hinir sem voru skyldaðir. Þeir hafa sparað meira. Einmitt í hópum þeirra manna og einstaklinga finnast fjölskyldur sem hafa tryggt sig betur en lágmarksákvæðin í þessu frv. gera kröfu um, ekki í hópum hinna nema því aðeins að lífeyrissjóðirnir sjálfir hafi bætt sína ávöxtun, ekki vegna þess að sjóðfélagarnir hafi lagt í þá umfram skyldu sína.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég get tekið undir margt af því sem sagt er um þörf á almennri löggjöf um starfsemi lífeyrissjóða eða þeirra sem taka að sér að ávaxta lífeyrissparnað. Ég er hins vegar ekki sammála því að leiðin sé að draga úr valfrelsi, gera þá alla eins, setja þá alla í sömu kassana og minnka þannig fjölbreytni sparnaðarforma sem fólki býðst. Ég er sannfærður um að þegar við herðum að þessum sparnaðarformum þannig að þau neyðast til að fara öll nánast sömu ávöxtunarleiðirnar --- gerðar eru kröfur til þess í þessu frv. að lífeyrissjóðir ávaxti sig nánast allir með sömu aðferðum --- þá muni það leiða til þess að fjölbreytnin hverfur. Það fólk sem af eigin hvötum hefur sparað síðustu ár meira en það var skyldað til, meira en aðrir voru skyldaðir til, mun draga úr sínum sparnaði.

Ég held raunar að við stöndum frammi fyrir þeirri spurningu hvort við ætlum að knýja fólk til sparnaðar sem ég tel að muni ekki gefast vel eða að reyna að skapa leiðir til þess að það spari af eigin hvötum til þess að ábyrgjast sjálft og tryggja sjálft, sjálfum sér og sínum, áhyggjulaust ævikvöld því auðvitað er það sá tónn sem leikur undir í þessu máli. Ég held að við séum öll sammála um það.

Hér hefur verið sagt og talað um ábyrgð húsbænda og eflaust er það réttmætt. Ég held að hinn sæmilegi og vel menntaði Íslendingur nútímans vilji sjálfur vera ábyrgur. Og ég verð að viðurkenna að það sem ég hef heyrt sagt um það að einhverjir af þeim sem hafi sparað um lífsleiðina njóti ævikvöldsins með því að liggja uppi á sameiginlegu tryggingakerfi, hafi góðan sparnað en fái samt sem áður tekjutryggingu úr Tryggingastofnun ríkisins sem er haldið uppi af sköttunum, hygg ég vera tilviljanir en ekki af því að þeir einstaklingar hafi haft það að markmiði að tryggja sér lífeyri á þann hátt að það sniðgengi almenna kerfið. En nú er ætlunin að skylda alla til samtryggingar þó svo þeir hafi lagt sitt fram í sköttum til þess öryggisnets vegna hugsanlegra lágra tekna sem Tryggingastofnun ríkisins hefur verið falið að gæta og verið fjármagnað af almennum sköttum.

Ég er sannfærður um að flest þau mótmæli sem ég hef heyrt og eflaust aðrir þingmenn og hæstv. ráðherra hefur heyrt byggjast á því að þetta fólk telur sig hafa lagt fram hvort tveggja, nokkuð drjúgan sparnað sem hafi reynst þeim sjálfum vel, þjóðfélaginu og efnahagslífinu því að það gengur fyrir sparnaði og það hafi lagt sitt fram til sameiginlegra sjóða, m.a. til þess að greiða tekjutryggingu eða aðrar slíkar tryggingar sem eru hluti af þessu öryggisneti til annarra þjóðfélagsþegna. Ég skil þetta fólk sem svo, sem ég tek undir með því, að það ætti að fá leið til þess að sýna sjálft fram á lágmarkstryggingar sem það tæki sjálft ábyrgð á og haldi áfram að búa við fjölbreytni í sparnaði og þá samkeppni verðbréfasjóða, lífeyrissjóða eða annarra sem við stundum teljum mikilvæga fyrir efnahagslífið.

Ég er sannfærður um að þegar sambærilegar tiltölulega strangar kröfur um ávöxtunarleiðir gilda um stærstan hluta af þessu kerfi, um stærstan hluta af þeim sjóðum og stofnunum sem fara með sparifé landsmanna, þá mun samkeppni þeirra á milli fara minnkandi því að þeim mun minna geta þeir sem stjórna sjóðunum eða stofnunum ákveðið sjálfir. Ég er sem sé mótfallinn því, herra forseti, að færa það öryggisnet sem við höfum fjármagnað með sameiginlegum sköttum í sameiginlega sjóði yfir á eigin sparnað. Ég er sammála því sem menn hafa spáð að eftir því sem sá sparnaður verður öflugri og almennari og þegar um hann gilda almennar reglur, þá munum við nálgast það að minni byrði mun hvíla á sköttunum vegna þessa og þar tel ég frumkvæði þeirra sem hófu lífeyrissparnað á Íslandi vera hvað best, ekki best í því hvernig reglunum er hagað í dag heldur best með því að hafa haft það frumkvæði, því það mun alltaf skína í gegn.

Herra forseti. Ég tel mig ekki í hópi þeirra manna sem munu vera sérfræðingar í lífeyrismálum. Ég geri mér grein fyrir því að ýmsir hafa talið mig misskilja þetta frv. eða einhver ákvæði þess. Það má auðvitað vera en mér er hins vegar ljóst hver stefnan er með því. Hún er sú að allir sem vilja spara lífeyri skulu gera það á sambærilegan hátt og allir skulu þeir leggja til samtryggingarinnar hvort sem hún vildi þá í upphafi eða ekki. Ég er sannfærður um að við munum ekki með þessu ná að tryggja lífeyri þeirra sem hafa litlar sem engar tekjur lungann úr ævinni, það mun ekki breytast. Þá munum við enn þurfa öryggisnetið sem er hjá Tryggingastofnun og félagsmálastofnunum sveitarfélaga. En þó að hér séu uppi hugmyndir til þess að færa verkefnið yfir á þennan sparnað landsmanna af skattbyrðinni, þá eru í frv. engar tillögur um að lækka skattheimtuna á móti, ekki einu sinni einhvern tíma síðar í framtíðinni þegar árangur kynni að hafa náðst og ætti að hafa náðst og ég er ósammála því. (EOK: Ég líka.) Ef við ætlum að flytja byrðar af þessu tagi yfir á frjálsan sparnað eða sparnað þó hann sé skyldaður, þá verðum við að lækka gjöldin sem við heimtum með hinni hendinni. En mér finnst vera meira virði, herra forseti, að ráðdeild og eigin ábyrgð fólks verði virt og það fái að njóta ávaxtanna af ráðdeild sinni og sparnaði sjálft og að því verði ekki blandað saman við þá sameiginlegu sjóði sem það hefur á sama tíma ævinnar lagt til sinn fulla skerf.

Ég er þess fullviss, herra forseti, að þetta mál, svo margir fletir sem á þessu viðfangsefni eru, muni þurfa mikla umræðu ekki aðeins hér á þingi, í hv. efh.- og viðskn., sem ég er viss um að mun grandskoða það, heldur muni það líka þurfa umfjöllun úti í þjóðfélaginu og það verð ég að viðurkenna að mér virðist að þar eigi umræðan eftir að fara fram og málið eftir að fá nokkurn þroska. Ég hvet til þess að almenningi í landinu verði gefið tækifæri, ráðrúm, til þess að kynnast efni þessa frv. og ræða það án þess að vera í tímaþröng. Ég verð að viðurkenna að mér finnst að umræðan sem þegar hefur farið fram hafi borið þess merki að hún er í tímaþröng og hafi gefið takmarkaða kynningu á viðfangsefni frv. svo stórt og margbreytilegt sem það er. Ég mundi gjarnan vilja sjá að ríkisstjórn sem ég styð geti lagt fram mál um þetta mikilvæga efni í sæmilegum friði við landsmenn, ekki síst við þá landsmenn sem hafa sjálfir lagt fram verulegan sparnað til þess að tryggja sjálfum sér og sínum áhyggjulaust ævikvöld. Þeir telja sig hafa lagt fram annan skref til þess að sjá fyrir öðrum.