Skýrsla um innheimtu vanskilaskulda

Mánudaginn 05. maí 1997, kl. 15:10:36 (5766)

1997-05-05 15:10:36# 121. lþ. 116.92 fundur 311#B skýrsla um innheimtu vanskilaskulda# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:10]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þetta er nú orðið nokkuð vandasamt. Hv. þm. og fleiri biðja um skýrslu um lögfræðikostnað á Íslandi og samanburð á honum við það sem gerist í grannlöndum okkar. Þingmaðurinn og fleiri þingmenn spyrja dómsmrh. um þetta mál og biðja hann um skýrslu. Svar hans er það að hann geti ekki aflað upplýsinganna. Með þessu er hæstv. dómsmrh. að segja við hæstv. forseta að forsetinn hefði aldrei átt að samþykkja þessa skýrslubeiðni með þeim hætti sem hér var gert vegna þess að skýrslubeiðnin sé vitleysa. En það er hún ekki, herra forseti, vegna þess að samkvæmt lögum er það þannig að t.d. stofnun eins og Þjóðhagsstofnun mundi afla þessara upplýsinga eða Seðlabankinn ef beðið væri um það með bréfi frá ráðuneyti. Það er alveg augljóst mál. Það er því greinilega niðurstaða í málinu að hæstv. dómsmrh. eða ráðuneytið hafði engan áhuga á að afla þessara upplýsinga. Og þetta er í 10. eða 100. sinn hér í vetur sem það kemur fyrir að hingað koma svör frá ráðherrum við skriflegum fyrirspurnum eða skýrslur samkvæmt skýrslubeiðnum sem fluttar hafa verið fyrir löngu og beðið langt umfram alla fresti sem eru algerlega ófullnægjandi. Núverandi ráðherrar eru að eyðileggja þetta form upplýsingakröfu frá alþingismönnum og ég tel að það sé stóralvarlegt mál ef forseti líður ráðherrunum það lengur að koma svona fram við þingið.

(Forseti (ÓE): Forseti vill benda á það vegna þessara orða að það er þingið sem samþykkti skýrslubeiðnina en ekki forseti.)