Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Föstudaginn 09. maí 1997, kl. 16:50:24 (6048)

1997-05-09 16:50:24# 121. lþ. 120.13 fundur 28. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur

[16:50]

Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að ég furða mig nokkuð á ræðu hv. þm. og bendi á að enn þá gildir þrígreining ríkisvaldsins þannig að löggjafarþingið vinnur að frumvörpum og samþykkir lög í landinu. En ég man ekki til þess að á það hafi verið bent í allshn. að einhvern tímann hafi reynt á ásetningsbrot í þessu sambandi. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að þetta gáleysishugtak sem er í frv. nái líka til stórfellds gáleysis þannig að sú vátryggingavernd á að duga fyrir neytendur.

Ég er að sjálfsögðu alveg sammála hv. þm. að huga þarf að hagsmunum neytenda í þessu máli. En ég ítreka það líka að verið er að skoða þessi mál í heild sinni og tillögur koma væntanlega fram hér í haust.

Það er verið að tala um mikilvæga hagsmuni hjá þessari stétt manna sem engin ástæða er til að tortryggja svo mjög sem mér finnst hv. þm. gera í sínum orðum. Það eru að sjálfsögðu mjög mikilvægir hagsmunir sem t.d. lögmenn hafa í sínum höndum. Nú er komin reglugerð þar sem starfsábyrgðartrygging þeirra nær bara til gáleysis. Það eru líka afskaplega mikilvægir hagsmunir væntanlega sem löggiltir endurskoðendur fjalla um og þar er þingið nýbúið að samþykkja lög þar sem einungis er talað um tryggingu sem nær til gáleysis. Ég held því að rétt sé að menn reyni að samræma hluti á milli stétta, a.m.k. meðan ekki er komin heildstæð löggjöf eða rammalöggjöf um slík mál.

Ég vil aðeins fá að benda á þær athugasemdir sem koma fram í þessu máli að auki frá ýmsum aðilum, m.a. frá Félagi löggiltra fasteignasala og fleiri aðilum, að krafa um vátryggingu fyrir ásetningi þýddi í raun að fasteignasalar gætu ekki keypt þessa vátryggingu í öðrum aðildarlöndum EES, þar sem slíkar vátryggingar standist ekki skilgreiningu um vátryggingar. Það var líka bent á að tryggingafélögin mundu ekki geta keypt endurtryggingu vegna slíkra trygginga þannig að það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir hið háa Alþingi að horfast í augu við það hvað er framkvæmanlegt í þessu sambandi.