Opinber fjölskyldustefna

Mánudaginn 12. maí 1997, kl. 23:35:45 (6192)

1997-05-12 23:35:45# 121. lþ. 122.25 fundur 72. mál: #A opinber fjölskyldustefna# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur

[23:35]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég sé mig knúinn til að lengja þessa umræðu örlítið þó ekki væri nema vegna þess að nú hefur sá sögulegi atburður gerst að hér eru allt í einu komnir stjórnarliðar í salinn. Í allt kvöld hafa bekkir verið fjölskipaðir af liðum stjórnarandstöðunnar en tæpast hefur nokkur stjórnarliði sést. Nú ber svo vel í veiði að það er ekki bara einn og ekki tveir heldur jafnvel þrír sem sjást hér vera á vafri um þingsalina. Það er að vísu eftirtektarvert að ekki einn einasti þingmaður Sjálfstfl. sér sér fært að vera viðstaddur þessa umræðu um opinbera fjölskyldustefnu og þeir sem fylgjast með umræðunni hljóta auðvitað að draga þá ályktun að Sjálfstfl. hafi einfaldlega engan áhuga á fjölskyldustefnu og engan áhuga á að láta samþykkja neina sérstaka opinbera fjölskyldustefnu.

Hér er m.a. staddur í salnum hæstv. starfandi félmrh. Finnur Ingólfsson. Mér líkar að vísu prýðilega við hæstv. ráðherra í því hlutverki sem hann sinnir að öllu jöfnu daglega, en mér heyrist á öllu að hann sé mjög efnilegur félmrh. líka.

Það hefur komið fram í máli hæstv. ráðherra að þegar hann var fyrr á öldinni ungur og tiltölulega léttari en í dag var hann aðstoðarmaður þáv. heilbrrh. og skildi eftir nokkra texta. Við í Alþfl. erum ekki alls kostar ókunnugir þeim textum. Það vildi svo til að þegar Alþfl. tók við heilbrrn. árið 1991 tók hann í arf texta núv. hæstv. starfandi félmrh., þáv. aðstoðarmanns heilbrrh., og þeir textar voru eiginlega leiðarhnoða sem réð stefnu Alþfl. í heilbrigðismálum á þeim árum. Það var að vísu svo að þá vildi hv. þáv. þm., Finnur Ingólfsson, ekkert við þá kannast og ætti náttúrlega í dag að vera þakklátur fyrir að Alþfl. hrinti þó í framkvæmd mjög mörgu af því sem hæstv. ráðherra lét þá eftir sig í ráðuneytinu. Það má auðvitað velta því fyrir sér af því að hæstv. ráðherra hefur hér reifað tillögur sínar um umönnunarbætur, sem bersýnilega ganga miklu lengra en vilji ríkisstjórnarinnar núna, hvort í öðrum efnum sé einnig hægt að finna aldraða texta eftir hæstv. ráðherra sem enn liggja á víð og dreif í heilbrrn. Það væri kannski gott ef hæstv. ráðherra gerði reka að því að kynna hæstv. núv. heilbrrh. hugmyndir sínar um ýmislegt sem mikilvægt er og er einmitt undir í þessari umræðu.

Nú vill svo til að hæstv. starfandi félmrh. er líka fjölskyldufaðir. Hann er í yngri kantinum á Framsfl. vegna þess að þegar liðið er svo langt á kvöld eins og núna, þá eru hinir flestir gengnir til rekkju, en þeir eru þó hérna þrír ungir hv. þm. Framsfl. og allir karlmenn, einungis karlmenn úr Framsfl. Eitt af því sem við höfum verið að ræða í kvöld er einmitt fæðingarorlof feðra.

Ég hef fyrr í umræðunni varpað því fram hvort nokkuð sé að marka þann stuðning sem er að finna í þeirri tillögu sem hin háa félmn. hefur lagt fyrir þetta þing, en þar er m.a. gert ráð fyrir því að feður fái sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Er eitthvað að marka þetta? Ég spyr hæstv. starfandi félmrh.: Má búast við að hann láti dáð fylgja orðum og Framsfl. reyni að uppfylla þá stefnu sem hann hafði fyrir síðustu kosningar og varðaði einmitt sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs? Ég spyr að gefnu tilefni.

Ég hef rifjað það upp í þessari umræðu að nú er framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar að ganga til enda, sem þessi ríkisstjórn er líka bundin af þó að hún hafi verið samþykkt af fyrri ríkisstjórn. Þar segir að lögfesta eigi rétt feðra til fæðingrorlofs --- en það á ekki að gera það. Sú framkvæmdaáætlun á að fá að ganga til viðar án þess að þau ákvæði verði efnd. Þess vegna spyr ég: Er eitthvað frekar að marka það sem stendur í þessari opinberu fjölskyldustefnu sem við erum að ræða? Og ég spyr hæstv. starfandi félmrh.: Er hann reiðubúinn til að lýsa því yfir að áður en þetta kjörtímabil er úti muni núverandi ríkisstjórn fallast á að réttur feðra til sjálfstæðs fæðingarorlofs verði lögfestur?