Þjóðminjalög

Þriðjudaginn 13. maí 1997, kl. 14:12:09 (6308)

1997-05-13 14:12:09# 121. lþ. 123.43 fundur 502. mál: #A þjóðminjalög# (stjórnskipulag o.fl.) frv., Frsm. SAÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[14:12]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum frá menntmn. við frv. til laga um breytingu á þjóðminjalögum, nr. 88/1989, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar á þjóðminjalögum. Annars vegar er um að ræða breytingar á stjórnskipulagi Þjóðminjasafns Íslands sem miða að því að auka svigrúm þjóðminjaráðs til að móta starfsskipulag safnsins á þann hátt sem best er talið samrýmast verkefnum þjóðminjavörslunnar og skilvirkum starfsháttum. Hins vegar er um að ræða breytingu er lýtur að húsafriðunarákvæðum laganna. Felst í tillögunni að eigendum húsa sem reist eru fyrir 1918 verði gert skylt að gera minjavörðum og húsafriðunarnefnd ríkisins viðvart ef þeir hyggjast breyta húsi sínu, flytja það eða rífa.

Nú er unnið að endurskoðun á reglugerð sem sett er á grundvelli þjóðminjalaga. Menntamálanefnd telur mikilvægt að við þá endurskoðun verði sérstaklega fjallað um stöðu fornleifarannsókna og starfsskilyrði minjasafna.

Mælir nefndin með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Felast þær annars vegar í því að lagt er til að fellt verði brott ákvæðið um að samþykki þjóðminjaráðs þurfi þegar þjóðminjavörður ræður yfirmenn stjórnunareininga. Er breytingartillagan í samræmi við þá stefnu sem mótuð var í starfsmannamálum ríkisins með samþykkt laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins á 120. löggjafarþingi.

Hin breytingin snýr að því að felld eru brott orðin ,,safnstjóri Þjóðminjasafns`` í 2. mgr. 2. gr. laganna eins og annars staðar í þjóðminjalögum, en gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að slíkt heiti verði ekki til í lögum. Í stað þess er lagt til að orðin ,,staðgengill þjóðminjavarðar`` verði notuð.

Menntmn. var einróma í afstöðu sinni til afgreiðslu málsins.