1997-05-14 03:48:48# 121. lþ. 123.50 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., Frsm. 1. minni hluta KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[27:48]

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Kristján Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni R. Árnason, sagði í ræðu sinni að lögmennirnir þrír sem gáfu álit á spurningunni um það hvort veðsetning aflaheimilda væri heimil með þessu frv. hefðu svarað því neitandi. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessu vegna þess að ef hann er að meina neitandi um fyrri liðinn, það að veðsetja aflaheimildir einar og sér, þá get ég verið sammála honum. En þegar við erum að tala um að aflaheimildir megi veðsetja með skipi þá eru svörin ekki svona skýr. Sigurður Líndal sagði, og það veit ég að hv. þm. man, að fyrri liðurinn um veðsetningu kvótans eins og sér væri almenn regla, seinni liðurinn, um að veðsetja kvóta með skipi, væri sérregla og þessi sérregla heimilaði veðsetningu aflaheimilda með skipi. Ég ræddi þetta einnig við hann í síma og skrifaði það niður eftir honum þannig að ég hef þetta skrifað eftir honum í tvígang. Arnmundur Backman segir einnig að það sé engin spurning um að verið sé að banna veðsetningu kvótans eins og sér. En þegar talað er um að veðsetja hann með skipi þá sé um allt annað að ræða. Það er álit Arnmundar Backmans. Einnig kemur það fram í áliti Þórunnar Guðmundsdóttur, en á bls. 1 stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Fjárverðmætin, sem réttindin eru skráð á, er hins vegar hægt að veðsetja og þar sem veðhæfni jarðarinnar og skipsins fer nú á dögum eftir þeim kvóta sem skráður er á viðkomandi skip/jörð má segja að það sé orðhengilsháttur að telja að réttindin verði ekki veðsett.``

Ég verð því að biðja hv. þm. um að endurskoða þessa fullyrðingu sína. Ég vil einnig minna á að fulltrúar Fiskveiðasjóðs og Fiskistofu viðurkenndu að samkvæmt þeirra dómi væri verið að heimila veðsetningu með skipi. En það er mikill munur á veðsetningu með skipi eða veðsetningu kvótans einar og sér.