1997-05-14 04:09:59# 121. lþ. 123.50 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[28:09]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að ekki sé verið að veðsetja aflahlutdeildarrétt með frv. Aflahlutdeild eða fiskveiðiréttindi geta aldrei orðið sjálfstætt andlag veðréttar eins og margoft hefur komið fram í þessari umræðu. Hins vegar er það rétt að aflahlutdeild er bundin skipi alveg eins og margs konar réttindi eru bundin öðrum eignum sem gera þær verðmætari og auka veðþol þeirra. Það er staðreynd og hefur komið fram í þessari umræðu. En það er ekki þar með sagt að leyfilegt sé að veðsetja þessi réttindi. Það kemur skýrt fram (KPál: Með skipum.) að þau geta aldrei orðið sjálfstætt andlag veðréttar, en þau eru bundin skipi. Með þessu frv. er verið að eyða réttaróvissu. Það er verið að styrkja grundvöll sjávarútvegsins í viðskiptum. Þetta mál snýst um viðskipti eins og áður hefur komið fram, snýst um siðferði í viðskiptum og það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því fyrst af öllu.