Íslensk stafsetning

Miðvikudaginn 14. maí 1997, kl. 16:35:39 (6525)

1997-05-14 16:35:39# 121. lþ. 125.8 fundur 602. mál: #A íslensk stafsetning# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur

[16:35]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Að því er fyrstu spurninguna varðar: ,,Hver er stjórnskipulegur grundvöllur auglýsingar menntamálaráðuneytis um íslenska stafsetningu, nr. 132/1974, sbr. breytingu á henni nr. 261/1977?`` er þetta að segja:

Eins og kunnugt er hefur ekki verið sett löggjöf um íslenska stafsetningu. Hins vegar er löng hefð fyrir því að stjórnvöld setji fyrirmæli í formi auglýsingar um hvaða reglur skuli gilda um stafsetningu þá sem kennd er í skólum og notuð á ýmsum gögnum sem út eru gefin á vegum ríkisins eða með atbeina þess.

Að því er kennslugögn varðar má segja að lagaskylda í þessu efni felist í skólalöggjöf sem ætlar stjórnvöldum menntamála eftirlitsábyrgð á námsefni og kennslu. Auglýsingar af þessu tagi hafa verið birtar sex sinnum á þessari öld, en hin fyrsta var auglýsing nr. 15/1918, um eina og sömu stafsetningu í skólum og á skólabókum. Gildissvið þeirrar auglýsingar sem um ræðir í 1. tölul. fyrirspurnarinnar, þ.e. auglýsingar nr. 132/1974, sbr. breytingu samkvæmt auglýsingu nr. 261/1977, er markað þannig, með beinni tilvísun í reglugerðina en þar segir að: ,,Eftirfarandi reglur skulu gilda um stafsetningarkennslu í skólum, um kennslubækur útgefnar eða styrktar af ríkisfé, svo og um embættisgögn sem út eru gefin.``

Í öðru lagi er spurt: ,,Telur ráðherra koma til greina að setja lög um íslenska stafsetningu?`` Svarið er þetta: Ég tel ekki eðlilegt að binda það í lög hvernig stafsetning íslenskrar tungu skuli vera. Slík löggjöf væri að mínum dómi bæði hæpin út frá almennum sjónarmiðum um tjáningarfrelsi og afar torveld í framkvæmd. Hins vegar tel ég koma til álita að hugað verði að lagasetningum hvernig standa skuli að undirbúniningi og útgáfu reglna um stafsetningu í skólakennslu og á öðrum þeim sviðum sem eðlilegt er að opinberar stafsetningarreglur taki til.

Þess má geta að samkvæmt gildandi lögum um íslenska málnefnd frá 1990 er nefndinni m.a. ætlað að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um íslenskt mál. Skal leitað umsagnar hennar áður en settar eru reglugerðir eða annars konar fyrirmæli um íslenska tungu að svo miklu leyti sem einstök atriði heyra ekki undir aðra samkvæmt öðrum lögum.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Er bókstafurinn z ekki lengur hluti af íslenska stafrófinu?`` Svarið er þetta: Eins og áður segir eru ákvæði núgildandi auglýsingar um íslenska stafsetningu bundin við afmarkað gildissvið, þ.e. skólakennslu, kennslubækur og embættisgögn. Ekkert bann liggur við notkun bókstafsins zetu utan þessa sviðs ef mönnum býður svo við að horfa. Auk þess er í yfirlýsingunni tekið fram að rita megi zetu í sérnöfnum erlendum að uppruna og í tilteknum ættarnöfnum. Af þessu leiðir að bókstafurinn zeta er a.m.k. hluti af því stafrófi sem notað er á Íslandi.

Í fjórða lagi er spurt: ,,Telur ráðherra koma til greina að jafnrétt verði að beita eldri reglum um z og núverandi stafsetningu?`` Svarið er þetta: Ljóst er að um sum atriði stafsetningar er örðugt að setja afdráttarlausar og einhlítar reglur. Þetta á þó tæpast við um notkun zetu. Ég tel að það væri fallið til að valda óþörfum glundroða í stafsetningarkennslu ef horfið yrði að því ráði að endurreisa aflagðar reglur um þetta efni og gera þeim jafnhátt undir höfði og því, sem við höfum nú búið við um hríð.