Búnaðargjald

Fimmtudaginn 15. maí 1997, kl. 12:13:43 (6585)

1997-05-15 12:13:43# 121. lþ. 127.5 fundur 478. mál: #A búnaðargjald# (heildarlög) frv., ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[12:13]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér hafa átt sér stað orðaskipti milli manna sem gefa tilefni til að staldra aðeins við. Í umræðu í gær um lánasjóðinn kom fram ágreiningur innan stjórnarliða um það mál. Nú er annað stjfrv. sem tengist þessu að hluta, þ.e. búnaðargjaldið, til umræðu. Hv. þm. Egill Jónsson hefur gert skilmerkilega grein fyrir sínu máli og er andvígur því að það sé sett í þennan farveg. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur spurst fyrir um hvernig málið stæði og fengið upplýsingar sem ég skildi svo að hefðu komið honum á óvart.

Ég teldi rétt, herra forseti, sérstaklega af því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson upplýsti að fyrirhugaður væri þingflokksfundur hjá sjálfstæðismönnum þar sem þessi mál, eins og ég skildi það, mundu þá væntanlega verða rædd. Ég held að það sé mjög brýnt og ég ætla ekki að strá salti í nein sár eða þess háttar. Mér finnst hins vegar brýnt að mönnum gefist þá tækifæri til að skoða stöðu málsins í góðu tómi og sjá betur til. Ég fer því þess á leit, herra forseti, að umræðu um þetta dagskrármál verði frestað um stund þannig að mönnum gefist tækifæri að bera saman bækur sínar. Það eru hér önnur mál sem eru tengd landbúnaði sem gætu a.m.k. að hluta til runnið létt og þægilega áfram svo að þessi málaleitan þyrfti ekki að koma neitt niður á störfum þingsins. En mér finnst rétt, herra forseti, að þessi málsmeðferð verði viðhöfð með tilliti til þeirra orðaskipta og upplýsinga sem komu fram í umræðunni.