1997-05-17 03:17:22# 121. lþ. 129.15 fundur 260. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., Frsm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[27:17]

Frsm. heilbr.- og trn. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu mjög lengi. Ég hef fyrr í kvöld reifað sérstaklega sameiginlegt álit heilbr.- og trn. Mig langar í örstuttu máli að reifa lítillega stuðning minn við ýmsar þeirra brtt. sem við þrír fulltrúar stjórnarandstöðunnar, ég og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, höfum flutt. Áður en ég kem að því vil ég taka fram út af ummælum hv. þm. Katrínar Fjeldsted að mér finnst merkilegt það viðhorf hennar sem kemur fram varðandi komugjöld á heilsugæslustöðvar. Ég held að nauðsynlegt sé í ljósi þess sem hún segir, og byggir hún á sinni reynslu sem heilsugæslulæknir, er reyndar formaður í því félagi, og út frá þeim upplýsingum sem komu fram í nefndinni frá aðstoðarlandlækni um möguleg áhrif komugjalda á tíðni koma fólks, sem býr við slakan fjárhag, að heilbr.- og trn. leyfi sér á næsta ári að taka þetta til sérstakrar rannsóknar. Mér heyrist á þessu að hér liggi vísir að samkomulagi um að kanna þetta mál og ef til vill falla frá því. Það getur vel verið að það sé rétt að gera það. Ég fagna því að þetta skuli koma frá Sjálfstfl. Það bendir til þess að ef til vill sé hægt að ná nýrri hugsun í þetta mál. Ég var hluti af ríkisstjórn sem innleiddi þetta ásamt Sjálfstfl. og ég er ekki viss um að það hafi verið farsæl þróun þegar maður horfir til baka og mér þykir merkilegt að heyra þessa reynslu hennar.

Ég segi hins vegar, herra forseti, þó að við tölum fyrir hálftómum sölum, að hér er um mjög merkilegt mál að ræða. Nokkrir þingmenn, bæði hv. þm. Katrín Fjeldsted og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hafa talað um að æskilegra væri að hafa þetta mál á dagskrá á öðrum tíma til að geta rætt það betur. Þetta er auðvitað alveg hárrétt en það er ekki við okkur þingmenn að sakast í þessum efnum heldur stjórn þingsins og þar af leiðandi við stjórnarliðið. Ég verð að segja að hv. þm. Katrín Fjeldsted sýnir málinu þann sóma að koma og ekki bara hlusta heldur taka til máls um það. En það er ekki hægt að segja til að mynda um flokk hæstv. heilbrrh. Hér hefur ekki sést nokkur einasti fulltrúi þess flokks í salnum nema ef vera skyldi ráðherrann, sem er hér, og ég kvarta ekki undan því. En málið er ekki lengur á forræði ráðherrans heldur á forræði þingsins, fagnefnda. Það hefði kannski verið ágætt ef einhver fulltrúi Framsfl. mælti einhver orð en það skiptir mig engu máli.

Það sem skiptir mig máli er það að nauðsynlegt er að reyna að efla rétt sjúklinga eins og hægt er. Og það verður að segjast um þetta frv. að þó að það sé að mörgu leyti orðið miklu betur úr garði gert en þegar það kom til kasta nefndarinnar, þá eykur það ekki umtalsvert rétt sjúklinga. Það eykur hann varðandi hluti eins og sjúkraskrár og lífsýni og að því leyti til er um nýmæli að ræða í frv. en að öðru leyti verður auðvitað að segjast að í frv. er fyrst og fremst að finna safn réttinda sem eru við lýði annars staðar annaðhvort skráð í reglur eða lög. Hver er því réttur sjúklinga, réttarbótin við það að þessi lög eru samþykkt? Hún er afskaplega lítil, því miður. Það er þess vegna sem lagðar eru fram ákveðnar brtt. af hálfu nefndarinnar. Það væri auðvitað gaman að fá einhvern tímann viðbrögð stjórnarliðsins við þeim. Hvað segja t.d. fulltrúar Framsfl. við þeim tillögum sem koma fram hjá okkur um að ráðherra verði skylt að setja reglur sem takmarka bið við þrjá til sex mánuði. Það virðist sem um sé að ræða mjög einfalda og sjálfsagða réttarbót. Það heyrist hvorki hósti né stuna frá stjórnarliðinu. Framsfl. og reyndar Sjálfstfl. virðast ekki einu sinni hafa áhuga á þessu máli. Þó verð ég að segja, eftir að hafa komið að heilbrigðismálum um tveggja ára skeið, að það sem er verst við stöðu heilbrigðismála á Íslandi í dag eru biðlistarnir. Ég tel að þeir séu smánarlegur skammarblettur á siðuðu þjóðfélagi eins og okkar. Það er hægt að nefna dæmi sem sýna að beinlínis er verið að sóa peningum, beinhörðum peningum, í krónum talið, í útlögðum kostnaði fyrir lyf með þessum biðlistum. Það er hægt að benda á dæmi af fólki sem þarfnast einfaldra aðgerða, eins og t.d. aðgerðar á vélinda, sem kostar 150.000 kr. Þeir einstaklingar þurfa að bíða í heilt ár eftir aðgerðum. Þegar kemur að aðgerðinni þá hafa lyfin kostað fast að 150.000 kr. Með öðrum orðum gerir biðin það að verkum að beinn útlagður kostnaður þjóðfélagsins við slíka sjúklinga tvöfaldast. Þetta er auðvitað ekkert annað en óráðsía og verið er að sólunda peningum skattborgaranna.

Við komum með frv. sem miðar ekki bara að því að draga úr kostnaði ríkisins vegna biðlistanna heldur til að bæta hag þeirra einstaklinga sem á þeim sitja. Það er hörmulegt til þess að vita þegar einstaklingur lendir í því að þurfa að bíða mjög lengi eftir aðgerð. Hverjar eru afleiðingar þess? Ja, hann tapar lífsgleði sinni, lífsgæði hans versna til muna, allt hans umhverfi er undir áhrifum af þessari bið. Fjölskylda hans líður fyrir þetta og hann getur í mjög mörgum tilvikum ekki stundað vinnu þannig að þjóðfélagið tapar af vinnuframlagi hans. Það sem hefur líka komið fram í skýrslu sem hæstv. heilbrrh. hefur lagt fyrir þetta þing er að margir þeirra sem eru á biðlistum verða háðir ávanabindandi lyfjum. Hér ryðst hver ráðherra fram á völlinn um annan þveran og vill grípa til sérstakra aðgerða til að stemma stigu við notkun fíknilyfja og notkun alls konar ávanabindandi lyfja en ríkið er á sama tíma að framleiða fólk sem er háð lyfjum. Þetta er auðvitað undarleg þverstæða, þverstæða sem menn reyna að sópa undir teppið og vilja helst ekki ræða. En þetta mál er auðvitað óhjákvæmilegt að þingið taki til umræðu fyrr en síðar. Þarna er um að ræða mál sem eru tengd og það er ekki hægt að verja það í siðuðu þjóðfélagi að niðurskurður og skammsýni sé beinlínis að framleiða fólk sem er háð ávanabindandi lyfjum. Það er ekki hægt að forsvara það. Ég get ekki forsvarað það. Þar fyrir utan er ég þeirrar skoðunar, herra forseti, að ekki þurfi gríðarlegt átak til að vinna upp á tiltölulega skömmum tíma mjög stóran hluta a.m.k. verstu biðlistanna. Það hefur komið fram að t.d. á handlækningadeild Landspítalans eru gerðar um það bil 4.500 aðgerðir á hverju ári. Það er dálítið drjúgt. Þar hefur verið bætt við skurðstofum og tækjum. Miðað við aðstöðu og mannafla væri hægt að framkvæma þarna 6.000 aðgerðir á hverju ári. Þetta eru merkilegar tölur þegar maður horfir til þess að biðlistarnir eru ekkert svo margir, þeir eru ekkert svo stórir í sjálfu sér. Það eru kannski 1.000--1.500 manns sem eru í alvarlegum vanda. Mig minnir að talan sem hæstv. heilbrrh. setti fram í umræðum fyrr í vetur hafi verið 1.357 manns. Með öðrum orðum, það er minna en þriðjungur af ársverkum þessarar deildar. Það er u.þ.b. sá fjöldi aðgerða sem deildin gæti bætt við sig á aðeins einu ári ef hún fengi peninga til þess. Hvað kostar þetta? Auðvitað kostar þetta mikið fé, sennilega í kringum hálfan milljarð, ég veit það ekki. En það er hálfur milljarður sem yrði vel varið og mundi sennilega skila sér að einhverju leyti til baka þegar allt væri metið og kannski væri hægt að komast að þeirri niðurstöðu að beinn kostnaður við að útrýma biðlistum, þeim biðlistum sem ég er að tala um hér, væri snöggtum minni en þessi hálfur milljarður. Það gæti jafnvel verið að þegar allt væri uppreiknað hagnaðist þjóðfélagið af þessu í beinum krónum talið og þá er ótalinn sá ávinningur sem viðkomandi einstaklingar hefðu af þessu. Þess vegna segi ég það að hér er lögð fram tillaga sem er siðferðilega mjög erfitt að hafna, en hún fær ekki einu sinni umræðu í þessum sölum. Ég er svo sem ekki á þessari nóttu að fara fram á að slík umræða fari fram núna. En þetta er auðvitað það stórt mál að það verðskuldaði nokkurra sólarhringa umræðu. Væntanlega verður þetta tekið upp af stjórnarandstöðunni á næsta þingi. En það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að þarna er um að ræða vissar þverstæður í starfi ríkisstjórnarinnar.

Síðasti þátturinn sem ég vildi ræða, herra forseti, af þessum tillögum sem eru fjölmargar er annars vegar biðlistahugmyndin og hins vegar tillaga stjórnarandstöðunnar um áfallahjálp. Þar er afskaplega sparlega með farið af okkar hálfu. Við leggjum ekki til að komið verði upp áfallahjálp fyrir alla sem lenda í að greinast með alvarlega sjúkdóma. Við viljum af stakri nærgætni við fjárhag ríkisins, og vegna þess að málið er nýtt, leggja til að áfallahjálpin nái til barna. Getur einhver maður ímyndað sér hvernig það er að eiga lítið barn á sjúkrahúsi sem skyndilega greinist með alvarlegan sjúkdóm? Það er kannski ekki svo mikið áfall fyrir barnið, sem ef til vill hefur ekki skilning og þroska til að gera sér grein fyrir þeim örlögum sem skyndilega hafa dunið yfir en foreldrarnir finna það. Þegar slíkt gerist þá lenda menn eðlilega í svipuðu andlegu áfalli og ef þeir lenda í stórslysi. Hvernig bregst kerfið við þessu? Það bregst á engan hátt við því. Við höfum jafnvel heyrt af nýlegu dæmi í fjölmiðlum þar sem ungri manneskju er tilkynnt um að hún sé með banvænt krabbamein og það er gert í rúmi úti á gangi. Hún fær engan stuðning, engan andlegan stuðning frá kerfinu. Er þetta það kerfi sem við viljum byggja upp? Er það þetta sem við viljum sjálf sæta ef við lendum í þessum ógöngum? Er þetta kerfið sem við vildum t.d. að tæki við okkar eigin börnum? Að sjálfsögðu ekki. Við leggjum fram tillögu sem gerir ráð fyrir að í kjölfar þess að barn greinist með alvarlegan sjúkdóm þá eigi barnið, aðstandendur þess, foreldrar og nánir vandamenn, kost á félagslegum og andlegum stuðningi. Við leggjum raunar til að sérstaklega þjálfað áfallateymi sinni þessu starfi á barnadeildum sjúkrahúsanna. Og hvar er sá stjórnarliði sem vill koma hér og mæla þessu í gegn? Eða ætla þeir að koma og benda á að ekki séu til peningar til að kosta þessa þjónustu á tímum þegar það liggur fyrir að ríkið er að fá hundruð milljóna í tekjur, og jafnvel milljarða, umfram það sem áætlað var? Er ekki kominn tími til þess að taka eitthvað af þessum nýfengnu og óvæntu tekjum ríkisins einmitt til mála á borð við þetta?

Herra forseti. Ég gæti haldið lengri ræðu um þetta vegna þess að mér er heitt í hamsi. Þetta er mál sem ég ber mikla umhyggju fyrir en eins og nú er háttað að langt er liðið nóttu og nánast enginn nema hv. þm. Katrín Fjeldsted til að hlýða á mál mitt, þá held ég að það tjói lítt að ræða þetta þó oft finnist mér reyndar að alveg sé jafngott að tala út í tómið eins og tala við hv. stjórnarliða.