1997-05-17 04:14:07# 121. lþ. 129.19 fundur 234. mál: #A samningsveð# frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[28:14]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að segja nokkur orð undir lok umræðunnar um þetta viðamikla mál um samningsveð sem hefur fengið svo mikla umfjöllun. Ég geri það til að halda til haga nokkrum atriðum í forsögu málsins sem hafa fallið nokkuð í skuggann í umræðunni á líðandi stund.

Ég vil fyrst rifja upp að mál þetta um samningsveð hefur verið nokkuð lengi á döfinni í þingsölum og hefur verið lagt fram allnokkrum sinnum. Eins og það var lagt fram á sínum tíma á síðasta kjörtímabili varðandi það umdeilda atriði sem nær einvörðungu hefur verið til umfjöllunar þrátt fyrir að frv. hafi að geyma heildstæðan lagabálk um samningsveð, þ.e. veðsetningu á aflaheimildum fiskiskipa, var greinin þannig í frv. á síðasta kjörtímabili, með leyfi forseta:

,,Þegar skip er sett að veði er heimilt að semja í veðbréfi að veðrétturinn nái einnig til veiðiheimilda skips.``

Með öðrum orðum eins og frv. var lagt fyrir þingið þrisvar á síðasta kjörtímabili var það þannig útbúið að tekið var fram að það væri heimilt að veðsetja veiðiheimildir skips. Þetta verða menn að skoða í ljósi þess að engin löggjöf hefur fram til þessa verið um þetta atriði þannig að ekki hefur verið heimilað að veðsetja og heldur ekki verið bannað að veðsetja veiðiheimildir skips. En þarna var ákveðið að setja fram í löggjöf á síðasta kjörtímabili sérstakt lagaákvæði sem heimilaði veðsetningu aflaheimilda. Þetta ákvæði mætti andstöðu af minni hálfu. Ég kom nokkuð nálægt því máli af því ég sat í allshn. sem fékk málið til meðferðar. Ég lagðist gegn þessu ákvæði frv. af því að ég hafði það sjónarmið að ekki ætti að heimila veðsetningu á veiðiheimildum skips og ég var svo sem ekki einn um þá skoðun. Þó voru ekki svo margir sem voru á þeirri skoðun. Við skulum rifja upp að frv. þetta var lagt fram af þáverandi stjórnarflokkum. Sjálfstfl. og Alþfl. Ég vil rifja upp að 19. des. 1994 stóð til að afgreiða út úr allshn. þetta frv. með þessu ákvæði eins og ég kynnti það, að heimilt væri að veðsetja veiðiheimildir. Hverjir skyldu hafa verið búnir að gefa grænt ljós af sinni hálfu fyrir því að samþykkja frv. í allshn.? Það voru fulltrúar Sjálfstfl., það voru fulltrúar Framsfl., það var fulltrúi Alþfl. og það var fulltrúi Kvennalista. Aðeins einn fulltrúi allshn. var ekki tilbúinn til að samþykkja frv. á þessum degi á fundi í allshn. þannig að það mætti afgreiða málið út og það var fulltrúi Alþb. Hann fór fram á að fá umsagnir frá nokkrum aðilum sem málið varðaði sérstaklega og auðvitað var orðið við þeirri beiðni. Í framhaldi af því varð nokkur fjölmiðlaumræða um málið 20. og 21. des. 1994. Þá kom skyndilega fram að menn virtust átta sig á því hvers eðlis málið væri og Alþfl. tók þá ákvörðun eftir þá umfjöllun í fjölmiðlum að snúast gegn málinu og það náði ekki fram að ganga á því þingi né síðar á því kjörtímabili.

Herra forseti. Þessu vil ég halda til haga úr forsögu málsins til að hún gleymist ekki. Það er nauðsynlegt að hún sé kunn þó svo að það þurfi ekkert sérstaklega að vera að draga meiri lærdóm af henni en efni standa til.

Nú hefur málinu hins vegar verið breytt á nýju kjörtímabili. Það er komin ný útgáfa. Í stað þess að taka fram að heimilt væri að veðsetja aflaheimildirnar er hið gagnstæða tekið fram, það er bannað að veðsetja aflahlutdeild skips. Að sjálfsögðu hef ég í þessu máli talað fyrir því að styðja það ákvæði og greitt því atkvæði af því að ég er enn sömu skoðunar og ég var að ekki sé skynsamlegt að heimila veðsetningu aflahlutdeilda. Ég tel að það muni styrkja í sessi aflamarkskerfið sem við búum við í stjórn fiskveiða og hef ekki þá sannfæringu að það sé skynsamlegt fyrir íslenska þjóð að styrkja það kerfi frekar en orðið er. Þess vegna er ég á þeirri skoðun að ekki eigi að heimila veðsetningu á aflahlutdeild.

Í þessu máli er nauðsynlegt að draga fram ákveðin atriði þannig að ekki ríki neinn misskilningur um þau. Þau eru í fyrsta lagi:

Það er ekki verið að heimila veðsetningu á aflahlutdeild.

Í öðru lagi eins og fram kemur í lögfræðiálitum er ekki verið að veikja svokallað sameignarákvæði í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða.

Með þessu lagaákvæði er ekki verið að ýta undir að íslenska ríkið verði bótaskylt ef Alþingi ákveður að breyta um stjórnkerfi.

Þetta eru þrjú helstu atriði sem ég tel að menn verði að hafa alveg á hreinu í frekari umræðu um málið. Þetta eru staðreyndir sem standa í málinu.

Hins vegar þrengir frv. framsalið og gerir eigendum fiskiskipa kleift að veðsetja skip sín fyrir miklu hærri fjárhæðir en skipin standa undir og tryggja þá umframveðsetningu með því verðmæti sem aflahlutdeildin hefur fengið á almennum markaði. (Gripið fram í.) Hann kallar það að veðsetja skipið í skjóli aflahlutdeildar. Sem þýðir að lánardrottinn, sá sem á veðið, telur sig nokkuð öruggan um að geta fengið það greitt með því að selja bæði skip og veiðiheimild en hann býr við þá óvissu að ef Alþingi afnemur kerfið hefur hann ekkert veð fyrir sinni kröfu annað en skipið sjálft. Það er grundvallaratriði að ekki er verið að draga úr möguleikum Alþingis að ráða leikreglunum í þessu kerfi. Ekki verið að draga úr möguleikum Alþingis að breyta þeim, það vil ég að mönnum sé ljóst sem niðurstaða úr þessari umræðu.

Ég hef ekki verið stuðningsmaður þess að veita bönkunum eða lánastofnunum þennan aukna rétt frá því sem nú er af því að ég tel að þeir geti vel búið við óbreytt kerfi, það kerfi sem þeir hafa búið við á undanförnum árum, að veðsetja skipin og hafa ekki tryggingar fyrir því að aflahlutdeild sé föst við skipið. Mér finnst það kerfi sem er fullboðlegt fyrir bankakerfið. Ekki hafa komið upp nein þau vandamál í framkvæmdinni að þau réttlæti þá breytingu sem lögð er til í frv. með að þrengja að framsalinu á þennan hátt. Því hef ég ekki stutt það ákvæði frv. að þrengja framsalsheimildina. En það er ekki með þeim rökum að ég telji að verið sé að veðsetja aflahlutdeildina. Það vil ég taka skýrt fram og leggja áherslu á það í lokin að staðreyndir liggi nokkuð ljósar að hér er verið að setja leikreglur í kerfinu sem á engan hátt skerða möguleika Alþingis eða rétt þjóðarinnar til þessarar sameignar.