Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 16:42:21 (70)

1996-10-07 16:42:21# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[16:42]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er mikill misskilningur hjá hv. málshefjanda að við framsóknarmenn séum búnir að gleyma kjörorði okkar um ,,fólk í fyrirrúmi`` og við höfum reynt að vinna í þeim anda sem í kjörorðinu felst. Það hefur ýmislegt verið fært til betri vegar á fjölmörgum sviðum á tíma núv. ríkisstjórnar.

Í húsnæðismálum t.d. hefur lánshlutfall þeirra sem kaupa sína fyrstu íbúð verið hækkað úr 65 í 70%. Þetta minnkaði stórlega ásókn í félagslega kerfið. Lánstími húsbréfa hefur verið gerður sveigjanlegur þannig að nú eiga lántakendur fleiri kosta völ við endurgreiðslu. Lögfest var heimild til skuldbreytinga eða frestun greiðslna á lánum Byggingarsjóðs ríkisins og fasteignaveðbréfum húsbréfadeildar. Gefin var út reglugerð í framhaldi af því og nú er heimilt að veita lán úr Byggingarsjóði ríkisins til allt að 15 ára til þess að leysa úr tímabundnum greiðsluerfiðleikum hjá lánþegum fasteignaveðbréfa húsbréfadeildar og lánþegum Byggingarsjóðs ríkisins. Einnig er heimilt að fresta greiðslum í allt að þrjú ár hjá lánþegum og leggjast þær greiðslur við höfuðstól. Veitt hefur verið heimild til að breyta vaxtakjörum á hlutaverðtryggðum lánum úr 9,75% í 6%. Lán til endurbóta á eldra húsnæði voru bundin því að endurbæturnar kostuðu meira en 1 millj. og 80 þús. Þessu hefur verið breytt og nú er heimilt að lána út á endurbætur sem kosta 770 þúsund eða meira.

Reynt hefur verið að endurskoða félagslega kerfið og sú endurskoðun stendur yfir. Í fyrravor var lagað til fyrir sveitarfélög sem eiga í miklum vanda með félagslegar íbúðir sem þau hafa orðið að innleysa vegna kaupskyldunnar.

Skuldir heimilanna eru náttúrlega mikið áhyggjuefni og þó ýmislegt hafi verið gert á þeim vettvangi er vandinn geigvænlegur og vaxandi. Við síðustu vaxtahækkun hækkuðu skuldir heimilanna um 260 millj. Þær eru að talsverðum hluta tengdar húsnæðismálum en þó ekki nærri því alfarið. Lagaúrræði hafa verið sköpuð til að hjálpa mönnum að komast í skil við Innheimtustofnun sveitarfélaga og skattskuldir, aðrar en vörsluskattar, eru orðnar umsemjanlegar.

Komið hefur verið á fót Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Þetta var merkilegt verkefni og hefur orðið mörgum að gagni. Það er að vísu augljóst að ekki er unnt að bjarga öllum. Lög hafa verið sett um réttaraðstoð við einstaklinga til að leita nauðasamninga og heimilt er að verja allt að 250 þús. úr ríkissjóði til lögfræðiaðstoðar til hvers einstaklings við gerð nauðasamninga.

[16:45]

Ráðgjafarstofan hefur nú starfað í nokkra mánuði. Mikilvæg vitneskja hefur fengist og væntanleg er áfangaskýrsla frá Ráðgjafarstofunni. Hún er í vinnslu. Það liggur ljóst fyrir að vandinn er mjög mikill. Sem dæmi get ég nefnt að rúmir 300 þeir fyrstu sem leituðu aðstoðar Ráðgjafarstofu skulduðu samtals tvo milljarða og það er ekki bundið við láglaunafólk. Það sem kemur manni eiginlega mest á óvart er að það er ekki fyrst og fremst láglaunafólkið sem er illa sett varðandi skuldirnar. Meðaltekjur þeirra sem voru í þessu úrtaki, sem voru eitthvað á fjórða hundrað manns, voru 146 þúsund á mánuði. Aldurshópurinn sem er fæddur á áratugnum 1940--1950 sker sig úr, hvað hann er verst settur, þ.e. fólk sem hefur verið að safna skuldum á talsvert langri ævi og farið í gegnum skuldbreytingu eftir skuldbreytingu. Hún er ekki lækning því miður, ekki vænleg lausn nema í fáum tilfellum. Greiðsluerfiðleikalán Húsnæðisstofnunar voru náttúrlega hreinustu ólán og skaðvænleg fyrir þá sem tóku þar sem menn skrifuðu sig fyrir 4 milljörðum en fengu bara 3. Einn rauk út um gluggann í afföll. Og fjórðungur þeirra sem hafa fengið leiðbeiningar á Ráðgjafarstofu býr í félagslegum eignaríbúðum.

Herra forseti. Tími minn er búinn en ég mun kveðja mér hljóðs síðar í umræðunni.