Lífskjör og undirbúningur kjarasamninga

Mánudaginn 07. október 1996, kl. 17:38:57 (81)

1996-10-07 17:38:57# 121. lþ. 3.95 fundur 26#B lífskjör og undirbúningur kjarasamninga# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur

[17:38]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Heldur var lítið um svör hjá hæstv. forsrh. við þeim spurningum sem ég beindi til hans í upphafi máls míns. Ég spurði að því hvort ríkisstjórnin ætlaði að grípa til einhverra sérstakra ráðstafana til þess að jafna kjör í landinu og jafna þau á við það sem gerist hjá þeim þjóðum sem við erum gjarnan að bera okkur saman við og hvort það yrði gripið til einhverra sértakra ráðstafana vegna þeirra sem búa við lökust kjör í landinu eins og t.d. lífeyrisþega. Það kom ekki fram í stefnuræðu forsrh. Það kemur ekki fram í frv. til fjárlaga. Ég óskaði eftir því að forsrh. gerði okkur grein fyrir því hvort ríkisstjórnin ætlaði að koma með tillögur til úrbóta.

Ég er sammála því sem hæstv. félmrh. sagði. Það á að ræða þetta æsingalaust. Eini maðurinn sem hefur verulega æst sig í ræðustól er hæstv. utanrrh. og það er auðvitað gott að okkur tókst að hræra aðeins upp í þeim hv. framsóknarmönnum því að ekki mun af veita, önnur eins lognmolla og ríkir þar á bæ.

Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason sagðist eiga sér draum, m.a. um að hægt væri að fella niður skráningargjöld í háskólanum eða skólagjöldin í framhaldsskólanum. Það var innifalið í draumnum og framtíðarsýn þingmannsins en þó því aðeins að þessir nemar hættu að fara í bíó, til útlanda eða á skrall um verslunarmannahelgina. Það gleymdist að geta þess í auglýsingum Framsfl. fyrir síðustu kosningar þegar menn voru spurðir: ,,Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?`` Og ungt fólk var látið lýsa því yfir hvert það stefndi, nemar í háskólanum. Auðvitað er það rétt hjá hv. þm. að geta þess hvernig meðaltalið segir að að meðaltali við höfum það fjári gott. Ef við tökum á sama hátt hæð þingmanna í þingsalnum þá er hv. þm. að meðaltali 1.80 á hæð. Það sýnir fáránleika þessara samlíkinga að taka meðaltöl með þessum hætti.

Hæstv. forsrh. nefndi það áðan að það hefði verið gert um árabil, að tala um lægstu launin og hvort við gætum og treystum okkur til að lifa af lægstu laununum. Ég nefndi 80 þús. kr. mánaðarlaun. Verkamannafélagið Hlíf sem hæstv. forsrh. nefndi áðan að færi fram á --- ég býst við að það hafi verið átt við það félag þegar var talað um 50--100% launahækkun --- hefur farið fram á 43,7% launahækkun á tveimur árum. Hvað þýðir það? Hvað þýða þessar prósentutölur? Þær eru háar. En þær þýða að eftir tvö ár verður núverandi kauptaxti fyrir almenn verkamannastörf, sem er 49.538 kr., kominn upp í 71.138 og að tíu ára kauptaxti fiskvinnslufólks sem nú er 56.972 á mánuði verður orðinn 78.572 á mánuði. Þetta eru öll ósköpin. Og ef þetta er það sem efnahagsstjórn, þessi góða efnahagsstjórn núv. ríkisstjórnar þolir ekki þá er hún ekki beysin. Reyndar finnst mér það koma fram í riti frá Seðlabanka Íslands að þeir segi að efnahagsstjórn núv. ríkisstjórnar sé í raun og veru ekki nein. Þessi árangur sem alltaf er verið að guma af er ekkert annað en það að 10 milljarða tekjuaukning næst á teimur árum en útgjöldin aukast, umsvifin aukast. Og í fjárlagafrv. er engin stefnubreyting, ekki nokkur. Það er ekki hæstv. ríkisstjórn að þakka að hér hefur aukist hagvöxtur. Hún er heppin að ytri aðstæður eru hagstæðar. En verk ríkisstjórnarinnar hafa engu skilað.