Fjárlög 1997

Þriðjudaginn 08. október 1996, kl. 14:26:41 (90)

1996-10-08 14:26:41# 121. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1997# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur

[14:26]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég byrja á að taka undir með hv. þm. Gísla S. Einarssyni um þá réttmætu gagnrýni að lífeyrisþegar séu látnir bera byrðar af fjármagnstekjuskatti öðrum fremur. Ég vil taka undir þá réttmætu gagnrýni sem hann kom með og þá ábendingu að stjórnarandstaðan þegar á heildina er litið var mjög andvíg þessari skattlagningu.

En það var fróðlegt að heyra hæstv. fjmrh. leggja að jöfnu í ræðu sinni niðurskurð til velferðarmála á Íslandi annars vegar og í Svíþjóð hins vegar. Staðreyndin er að sjálfsögðu sú að hér er ekki um sambærilegar stærðir að ræða, ekki sambærilegar efnahagsstærðir, ekki sambærilegar þjóðhagsstærðir, og félagslega eru áhrifin engan veginn sambærileg. Það sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um --- og ég tel að það sé mjög mikilvægt að það komi fram strax í upphafi umræðunnar --- er hvort ég hafi heyrt það rétt að ekki verði gengið frá reglum sem skuli gilda um viðbótarlaun í launakerfi hjá starfsmönnum ríkisins fyrr en að loknum kjarasamningum. Ég minni hæstv. fjmrh. á að þessar reglur hafa hingað til gengið undir ákveðnu vinnuheiti. Það vinnuheiti er kjarasamningar. Það er undarlegt ef það á ekki að ganga frá kjarasamningum fyrr en að loknum kjarasamningum. Ég held að það sé nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. skýri mál sitt betur.

Að lokum, hæstv. forseti. Það var fróðlegt að heyra hæstv. fjmrh. Íslands tala um nauðsyn þess að stofna til þjóðarsáttar á Íslandi. Hann vitnaði til Danmerkur og Írlands um hversu vel hefði tekist til þar. Hér talaði einn af oddvitum ríkisstjórnar sem keyrði hvert lagafrv. á fætur öðru í gegnum þingið gegn vilja verkalýðshreyfingarinnar. Í því fjárlagafrv. sem hér hefur verið lagt fram er opnað á frekari valdstjórn. Hér segir t.d., með leyfi forseta, á bls. 227 í fjárlagafrv. að fjmrh. er gefin heimild til að leggja niður tímabundið eða til lengri tíma starfsemi ríkisstofnana. Honum er heimilt að leggja niður starfsemi ríkisstofnana. Er ekki nauðsynlegt við upphaf umræðunnar að fá nánari skýringar á því hvað hér er átt við? Hvers konar valdstjórn er hér verið að opna á, hæstv. forseti?