Fjáraukalög 1996

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 11:26:11 (398)

1996-10-17 11:26:11# 121. lþ. 10.2 fundur 48. mál: #A fjáraukalög 1996# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[11:26]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það athyglisverðasta við reikningskúnstir hæstv. fjmrh. eru ekki þær flóknu upplýsingar sem hann gefur heldur niðurstaðan sem er einn stór mínus. Það er meginatriði málsins. En mig langaði til þess að leggja fyrir hann eina spurningu.

Eins og hann veit manna best eru fjárlög í dag nokkurs konar rammafjárlög, þ.e. í upphafi er ákveðið útgjaldaumfang að óbreyttri starfsemi og síðan er ráðuneytum falið og ríkisstjórninni í heild að reyna að draga frá útgjöldum þar frá. Ég tek eftir því að í upplýsingum í frv. um útgjöld heilbrrn. er sótt um 1.347 millj. kr. viðbótarfjárveitingu að mig minnir og nú spyr ég: Hvaða tala var það þar sem gert var ráð fyrir að útgjöld þessa ráðuneytis mundu lækka frá rammafjárlagagerð hæstv. ríkisstjórnar? Mig minnir að það hafi verið kynnt Alþingi á sínum tíma að sparnaðurinn sem ætti að nást væri nokkuð lægri tala en þessi viðbótarútgjöld sem nú er beðið um. (Gripið fram í.) Þetta eru fjárlög fyrir 1996. Mér sýnist því að árangurinn sé neikvæður. Ég tek líka eftir því að í skýringunum er ekki nefnt eins og í skýringum fyrir síðasta fjárlagaár þar sem var farið verulega fram úr fjárlagaheimildum að meginástæðurnar séu áhrif kjarasamninga á viðbótarútgjöld vegna almannatrygginga og sjúkratrygginga og ellilífeyristrygginga. Það er ekki orsakavaldur í þessu sambandi eða sérstakir samningar sem gerðir voru þá t.d. við Reykjavíkurborg út af Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Því langar mig, virðulegi forseti, til að enda þetta á þeirri stuttu spurningu: Hvaða árangur hefur náðst í lækkun útgjalda miðað við forsendur sem gefnar voru við fjárlagaafgreiðslu síðast?