Lánasjóður íslenskra námsmanna

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 15:04:00 (440)

1996-10-17 15:04:00# 121. lþ. 10.3 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[15:04]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka það sem ég sagði að ég tel endurgreiðslurnar vera alvarlegasta atriðið í málinu en fleiru þarf að breyta og þar er ekki síst um að ræða kröfurnar vegna námsframvindu.

Hvað varðar áhrifin af breytingunum tel ég að það ætti að gera könnun á þessu. Eitt af því sem námsmenn gætu jafnvel staðið fyrir sjálfir er að kanna rækilega hvaða áhrif breytingarnar hafa haft, bæði varðandi ásókn í nám í öðrum löndum og þær tölur liggja fyrir frá lánasjóðnum hvernig námskeið dreifast á önnur lönd. Það hefur verið sláandi að sjá tölur frá Bandaríkjunum, Englandi og Þýskalandi svo að ég nefni dæmi þar sem námsmönnum hefur greinilega fækkað og í Englandi og Bandaríkjunum eru það ekki síst skólagjöldin sem þar spila inn í. Önnur áhrif þarf líka að kanna og í framhaldi af því að móta stefnu.

Á undanförnum dögum hefur verið talað um hvað er í raun og veru lítið um stefnumótun á Alþingi og að Alþingi samþykki stefnumótun. Stefnumótun getur auðvitað falist í lögum og við eigum að nota stefnu varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna þannig að hann stuðli að sem mestu jafnrétti til náms og ýti undir það að ungt fólk sæki sér menntun og ekki bara endilega ungt fólk heldur þeir sem vilja mennta sig betur og meira því að það er þróunin. Fólk er að mennta sig alla ævina og það á að stuðla að því að það sé hægt. Enn og aftur, menntun er sú besta fjárfesting sem við getum lagt í.