Tóbaksverð og vísitala

Fimmtudaginn 17. október 1996, kl. 17:17:44 (474)

1996-10-17 17:17:44# 121. lþ. 10.11 fundur 82. mál: #A tóbaksverð og vísitala# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur

[17:17]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég ætla að leggja orð í belg sem einn af flm. þessarar þáltill. og ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að hafa frumkvæðið að því að flytja á Alþingi.

Ég tel að sú umræða sem hefur farið fram í kjölfar þessarar þáltill. hafi verið mjög gagnleg og nauðsynleg og ákaflega upplýsandi. Ég tek undir þau sjónarmið sem hafa komið fram að nauðsynlegt er að heilbr.- og trn. komi að þessu máli og taki til umræðu bæði það sem lagt er til í þessari tillögu og einnig þær upplýsingar sem komu fram hjá hæstv. fjmrh.

Ég get ekki heyrt annað en þeir heilbrigðis- og trygginganefndarmenn sem hafa tekið til máls séu sammála um hversu mikilvægt sé að tóbaksverð fari út úr vísitölunni enda kom það til umræðu þegar við ræddum lög um tóbaksvarnir að nauðsyn væri á því að geta hækkað tóbakverð til að koma í veg fyrir aukningu reykinga. Eins og fram kemur í grg. með tillögunni hafa kannanir sýnt að tóbaksverð hefur áhrif á tóbaksneyslu í öllum hópum þjóðfélagsins og er því mikilvægt að hægt sé að taka á þessu máli.

Þær skoðanir hafa reyndar heyrst hjá hagfræðingum og einnig hjá fjmrh. að menn hafi efasemdir um að þetta sé hægt en eins og komið hefur fram hefur þetta verið gert. Þrjú Evrópulönd, Belgía, Frakkland og Lúxemborg hafa farið þessa leið og því hlýtur hún að vera fær hér. Bendi ég í því sambandi á tilmælin frá Evrópusambandinu og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni þess efnis að menn eru hvattir til að fara þessa leið.

Ég tel mjög mikilvægt nú þegar ljóst virðist að reykingar eru að aukast, sérstaklega hjá ungu fólki, að auka forvarnir og skoða þær leiðir sem við höfum lagt til og stöndum vörð um að þær reglur sem við höfum sett séu haldnar. Það hvarflaði að mér þegar ég hlustaði á umræðuna, því mikil samstaða var milli manna um mikilvægi málsins, hvort heilbr.- og trn. gæti ef til vill í samvinnu við heilbrrh., sem hefur lagt mikla áherslu á forvarnir í sínu starfi, flýtt fyrir þessum málum með því að leggja fram frv. í þá veru sem lagt er til í þáltill. Þetta er mál sem við þurfum að ræða í hv. heilbr.- og trn. og ég hlakka til að takast á við það þegar málið kemur til nefndarinnar. Ég velti því fyrir mér hvort málið þyrfti ekki einnig að fara til efh.- og viðskn. vegna eðli málsins og við fengjum í heilbr.- og trn. umsögn um málið frá efh.- og viðskn. En ég vil aftur þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að hafa frumkvæðið að þessu máli og ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar.