Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 31. október 1996, kl. 14:54:22 (716)

1996-10-31 14:54:22# 121. lþ. 15.1 fundur 56#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur

[14:54]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir þau orð hv. þm. að hann hafi áhyggjur út af norrænu samstarfi. Maður getur haft áhyggjur af því en mér finnst hann þó gera heldur mikið úr því að það sé eitthvað á sérstöku undanhaldi. Hins vegar er alveg ljóst og var alltaf ljóst að það yrðu erfiðir tímar í þessu samstarfi fyrst eftir að tvær nýjar þjóðir af norrænu þjóðunum gengu inn í Evróusambandið og maður verður óneitanlega var við það að þær þjóðir eru nokkuð uppteknar af framvindu mála í Brussel. Ég held hins vegar að þjóðirnar muni ekki láta stjórnvöld þeirra landa komast upp með það að segja skilið við norrænt samstarf. Það var þannig með Danmörku sem hefur verið í Evrópusambandinu í yfir 20 ár að þeir voru fyrst dálítið uppteknir af því og sinntu norrænu samstarfi minna um sinn en síðan rættist úr og það er aðdáunarvert hversu vel Danir hafa staðið að norrænu samstarfi þau ár sem þeir hafa verið í Evrópusambandinu. Það er rétt að það var skorið niður. Það voru skorin niður framlög til norræns samstarfs á næsta ári sem nemur um 20 millj. danskra kr. og það er að kröfu Svía. Kannski þarf að virða þeim það svolítið til vorkunnar að þeir eru í mjög hörðum aðhaldsaðgerðum í fjárlagagerð sinni og þess vegna gátu þeir ekki að eigin mati komist hjá því að norrænt samstarf yrði fyrir niðurskurði eins og aðrir þættir ríkisrekstrar. En það að niðurstaðan var 20 milljónir er náttúrlega vegna þess að aðrar þjóðir gerðu kröfur um að ekki yrði skorið niður.