Framkvæmd GATT-samningsins

Miðvikudaginn 06. nóvember 1996, kl. 15:59:42 (884)

1996-11-06 15:59:42# 121. lþ. 19.91 fundur 74#B framkvæmd GATT-samningsins# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur

[15:59]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Mér finnast þetta slæm svör frá hæstv. ráðherrum sem fagna því að ekki hafa komið athugasemdir erlendis frá. Það er alveg rétt. Ég hef aldrei haldið því fram að GATT-samningurinn væri ólöglegur, að löggjöfin væri ólögleg. En það stendur sem ég sagði: Hún brýtur í bága við anda GATT-samkomulagsins vegna þess að lagt var upp með Úrúgvæ-lotuna út frá allt annarri hugmyndafræði en ríkisstjórn Íslands lögfesti. Það liggur fyrir að nær ekkert hefur verið flutt inn. Ekki vegna þess að stjórnvöld hafi ekki skapað skilyrði fyrir innflutning, það er ekki þeirra hlutverk, sagði ráðherra. Þau beinlínis hindruðu það, komu í veg fyrir það með tollaútfærslunni og nýttu sér allar smugur í GATT-samningnum til að hafa tollana það háa að það yrði enginn innflutningur. Meira að segja ekki þessi 3%--5% innflutningur en meiri hluti efh.- og viðskn. reyndi þó á síðustu stigum málsins í fyrra að breyta löggjöfinni þannig að sá innflutningur myndi verða. Það hefur ekki einu sinni náðst fram að ganga. Og síðan einu og hálfu ári seinna að viðurkenna ekki staðreyndir og segja: Gott og vel, við þurfum að lækka hér tollana. Nei, það á að ríghalda í þetta kerfi. Það liggur fyrir að stuðningur okkar er fjórði hæsti í heiminum, það eru einungis Sviss, Japan og Noregur sem eru fyrir ofan okkur. Þá er yppt öxlum og sagt: Ja, alþjóðlegur samanburður, hann er nú svona og svona. Þetta er ekki verjandi vegna þess að það eru neytendurnir landinu sem eru að borga.

Ég rakti hér skilmerkilega að skuldir hafa hækkað upp á 1.300 milljónir (Gripið fram í.) og ég get sagt hæstv. viðskrh. að þessi útreikningur er frá mars í fyrra til október í ár, sveifla innan sumarsins skiptir þar ekki neinu máli. Hér er réttur reikningur á ferðinni. Vitaskuld hafa sveiflur áhrif og endapunktarnir áhrif á niðurstöðu. Það vita allir og hæstv. ráðherra líka. Það er alveg augljóst að um verulega skattlagningu á þegna þessa lands með útfærslu GATT-samningsins er að ræða. Og hv. þm. Guðni Ágústsson kemur hér upp og (Forseti hringir.) gagnrýnir Alþýðusambandið fyrir útreikninga. Mér finnst þetta forkastanleg vinnubrögð eða ummæli að þegar samtök launafólks koma fram á sjónarsviðið, eru með rétta útreikninga og eru að verja hagsmuni umbjóðenda sinna, (Forseti hringir.) þá skuli vera ráðist á þá með þeim hætti eins og hv. þm. gerði. Mér finnst þetta forkastanlegt hvað þeir eru fastir í þessu ónýta kerfi sem kostar skattborgara landsins milljarða á ári hverju og (Forseti hringir.) það skuli ekki opnast nein glufa til að breyta þessu kerfi.