Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 13:36:41 (920)

1996-11-07 13:36:41# 121. lþ. 20.95 fundur 78#B Sjávarútvegsskóli Sameinuðu þjóðanna# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[13:36]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Mikið af því sem hv. ræðumaður kom inn á snertir uppbyggingu Háskólans á Akureyri annars vegar og Háskóla Íslands. Ég ætla út af fyrir sig ekki að blanda mér í það en legg á það áherslu að háskóli Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið ákveðið að verði staðsettur hér á landi er þróunarmál. Það er málefni sem snertir þróunarhjálp Íslendinga við aðrar þjóðir. Okkur ber að sjálfsögðu skylda til við undirbúning á slíku máli að bjóða fram allt það besta sem við höfum á þessu sviði.

Í júní sl. var skipaður starfshópur til að gera úttekt á námsleiðum sem hægt væri að bjóða upp á til að nýta nám sem við eigum fyrir á framhaldsstigi innan vébanda hugsanlegs Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Það komu ýmis ráðuneyti að þessu máli og það var haft samráð við þær stofnanir sem mestu skipta í þessu sambandi, m.a. Háskólann á Akureyri. Hvort það hefur verið fullnægjandi eða ekki skal ég ekki leggja dóm á en það kemur glögglega fram í skýrslunni á bls. 3 að það hafi verið haft samráð við fulltrúa Háskólans á Akureyri við gerð hennar. Síðan segir enn fremur á bls. 8 að skólinn muni starfa í nánu sambandi við Háskólann á Akureyri. Það eru ítarlegar upplýsingar í skýrslunni um starfsemi Háskólans á Akureyri, umfang hans og einkanlega sjávarútvegsdeildina og rekstrardeildina. Sent var formlegt boð til háskóla Sameinuðu þjóðana um að stofna téðan skóla hér á landi og í framhaldi af því skipaði rektor háskóla Sameinuðu þjóðanna alþjóðlega matsnefnd til að fara yfir tillögur Íslendinga. Nefndarmenn störfuðu hér á landi í mars sl. og heimsóttu m.a. Háskólann á Akureyri og nokkur sjávarútvegsfyrirtæki þar. Síðan skilaði alþjóðlega matsnefndin skýrslu í apríl sl. og hún er í helstu efnisatriðum samhljóða skýrslu íslensku nefndarinnar. Í maí sl. barst bréf frá rektor háskóla Sameinuðu þjóðanna þar sem hann upplýsti að háskóli Sameinuðu þjóðanna hefði samþykkt að stofna sjávarútvegsháskólaskóla á Íslandi í samræmi við þessar tillögur.

Við undirbúning að stofnun sjávarútvegsskólans voru fagleg sjónarmið fyrst og fremst höfð til hliðsjónar. Það var haft samráð við allar þær stofnanir sem hér eiga hlut að máli og ríkisstjórn hefur fyrir sitt leyti lýst því yfir og vill stuðla að því að sem mest af þessari starfsemi og þessu námi geti farið fram á Akureyri. En það eru allir sammála um það sem hafa komið að málinu að nauðsynlegt sé að skóli þessi verði undir umsjón og forustu Hafrannsóknastofnunarinnar. Hafrannsóknastofnun er staðsett fyrst og fremst hér í Reykjavík og er jafnframt með útibú á Akureyri. Það var því ákveðið að ferðakostnaður stæði ekki í vegi fyrir því að hægt væri að flytja bæði kennara og nemendur á milli. Til nánari skýringar er gert ráð fyrir því að á árinu 1998 verði átta nemendur við þennan skóla en síðan fjölgi þeim í 16 árið eftir. En skólinn mun ekki taka til starfa fyrr en þá. Ríkisstjórnin lýsti því jafnframt yfir á fundi sínum nú nýlega, eins og hv. þm. vitnaði til, að nauðsynlegt væri að styrkja starfsemi Hafrannsóknastofnunar á Akureyri til að gera háskólanum þar betur kleift að standa undir þeim væntingum sem til hans eru gerðar.

Ég held að það væri afar óheppilegt ef þessi mikilvæga stofnun, háskóli Sameinuðu þjóðanna, sem er mjög gott framlag Íslands til þróunarhjálpar í heiminum verði bitbein stofnana hér á landi. Það er fullur vilji fyrir því að sem mest af þessu námi geti farið fram á Akureyri og ég tel að þær samþykktir sem gerðar hafa verið muni tryggja það. Ég vænti þess að menn nýti það tækifæri til að efla Háskólann á Akureyri og gera honum kleift að takast á við þetta mikilvæga verkefni. En að öðru leyti ætla ég ekki að blanda mér í þær hugsanlegu deilur sem kunna að vera á milli Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands sem þingmaðurinn gerði að umtalsefni. Það er mjög óheppilegt ef þessar stofnanir geta ekki starfað saman í góðri sátt að því að efla sem mest hag sjávarútvegsins í landinu.