Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 18:19:37 (981)

1996-11-07 18:19:37# 121. lþ. 20.2 fundur 119. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 1997# (breyting ýmissa laga) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[18:19]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi umræða snýst náttúrlega ekki um verkefnin sem slík, sem ég efast ekki um að eru stór og mikil, og það getur vel verið að hæstv. ráðherra hafi einhverja allt aðra skoðun á þessu máli heldur en t.d. formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar. Ég skal ekkert um það segja. Málið snýst í raun og veru ekki um það.

Málið snýst um þann veruleika að það hefur komið fram í þessari umræðu og í grein í Morgunblaðinu í dag að Framkvæmdasjóður fatlaðra er skorinn meira niður en nokkru sinni fyrr.

Hæstv. félmrh. reynir að skýla sér á bak við Alþfl. í þessu máli en það er út af fyrir sig engin vörn fyrir ráðherrann því að ráðherrann ber einn ábyrgð á fjárlagatillögum ársins 1997. Og þau undur hafa nú gerst að hann viðurkennir að þetta sé rétt, að um meiri niðurskurð sé að ræða en nokkru sinni fyrr. Hann segir að vísu að hlutirnir snúi fyrst og fremst bara þannig að þeir séu núna kallaðir sínum réttu nöfnum. En hann viðurkennir að það sé minna fé í framkvæmdir á vegum framkvæmdasjóðsins en nokkru sinni fyrr. Og hvað þýðir það? Það þýðir minni þjónustu mjög fljótlega fyrir fatlaða í landinu, minni þjónustu en ella væri um að ræða. Það er alvarlegur hlutur að ráðast til atlögu við þennan hóp með þeim hætti sem þarna er gert og þess vegna skora ég á hæstv. félmrh., sem ég veit að er sanngjarn maður, að fylgja játningum sínum áðan eftir með því að leiðrétta þessi ákvæði frv. þegar þau koma til meðferðar í hv. efh.- og viðskn.