Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:13:14 (1063)

1996-11-12 16:13:14# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:13]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Um síðasta atriðið tók ég einmitt dæmi af t.d. barnaverndarmálum sem eru mjög nálægt fólki. Hæstv. heilbrrh. er með tillögur uppi um að sameina stjórnir heilsugæslustöðva og jafnvel að búa til stærri svæði, heilsugæslusvæði, vegna þess að menn sjá fram á að geta náð aukinni hagkvæmni og betri stjórn og betri nýtingu. En stundum er það svo, hv. þm., að nálægðin getur verið til trafala. Það þekkjum við eflaust dæmi um. Sem dæmi má taka félagslega húsnæðiskerfið. (Gripið fram í.) Já, því miður, hv. þm., er fjarlægðin milli fólks ansi mikil í Reykjavík og þekking á aðstæðum hópa og einstaklinga heldur lítil og mætti vera meiri. Ég gæti tíundað dæmi af sjálfri mér þegar ég fór í stjórn verkamannabústaðanna í Reykjavík, ef ég má aðeins syndga upp á náðina, hæstv. forseti. Þá opnaðist fyrir mér algjörlega nýr heimur í Reykjavík sem ég þekkti ekki þó ég sé búin að búa hér í 25 ár eða svo. Stærri bæjum fylgir oft að fjarlægðin milli fólks verður meiri og þekkingin of lítil á aðstæðum fólks. Það er auðvitað ókosturinn við stór sveitarfélög. En rekstur þeirra er sem betur fer hagkvæmari. (HG: Skipta Reykjavík upp í sveitarfélög.)