Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 17:04:42 (1076)

1996-11-12 17:04:42# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., ÓÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[17:04]

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Sú till. sem hér er til þál. hljóðar svo, með leyfi forseta: ,,Tillaga til þingsályktunar um undirbúning vegna flutnings ríkisstofnana.`` Hér er ekki verið að slá því föstu að stofnanir verði fluttar. Ekki legg ég þann skilning í málið. Heldur hitt að ef þær verði fluttar eigi sér ákveðin vinnurás stað áður. Ég vil taka undir þetta vegna þess að það er hægt að standa þannig að flutningi ríkisstofnana að hreinlega verði komið óorði á það að fara í flutning á ríkisstofnunum, t.d. ef þær eru fluttar á þeim forsendum að ráðherra sem vill beita einhverjum tyftunaraðgerðum til að siða ákveðna stofnun til og stjórnanda hennar tilkynnir að hún verði bara flutt. Og það er eins og ég hugsi örlítið til fyrrv. umhvrh. þegar ég leiði hugann að þessu. Flutningur ríkisstofnana á ekki að fara eftir því hvort einhver þingmaður eða einhver ráðherra hefur áhuga á því að færa sig um set og fara í framboð annars staðar og flytja með sér heila stofnun í forgjöf inn á það svæði. Auðvitað verða að vera einhverjar vitsmunalegar reglur í þessum efnum og ég tel að það sem hér er sett fram sé allt til bóta í þeim efnum. En ég vil bæta því við, af því menn tala svo mikið um stækkun sveitarfélaganna og að hún sé lausnin á þessum vanda öllum --- ég kalla það vanda ef íslensk þjóð þjappast svo mikið saman búsetulega séð að aðeins lítill hluti landsins verði byggður --- þá finnst mér að við séum að gera efnahagslega vitleysu. Ég tel að róleg umræða um þetta þurfi að fara fram sem skiptir þjóðinni ekki í tvo flokka eftir því hvort menn búi úti á landi eða í Reykjavík. Það er ekki sakarefni að búa í Reykjavík og það er ekki sakarefni að búa úti á landi. Það er algjörlega út í hött að setja það þannig upp. Það sem við þurfum að átta okkur á er m.a. hvort við viljum hafa aðeins eina borg í landinu sem yrði þá eina borg landsins og vissulega yrði hún fjölmennari fyrst í stað en sú borg sem nú höfuðborg landsins. En þegar frá liði er hætt við því að afleiðingin af því tiltæki yrði sú að með því að þurrka út upplandið sem hverri höfuðborg er nauðsyn ef hún á að eflast, landið á bak við hana, þá biði hennar þau örlög að tapa sjálfstæði sínu og landið mundi að sjálfsögðu tapa sjálfstæði sínu um leið. Það eru hin almennu örlög borgríkja. Og því miður stefnir í það hjá okkur mjög ört að við lendum í þessari stöðu.

Ég tel þess vegna að menn þurfi að átta sig á því og gera það upp við sig, hvar sem þeir búa í þessu landi, hvort vegur Reykjavíkur er meiri að vera höfuðborg landsins eða vera eina borg landsins. Þar skilur á milli í mínum skoðunum og margra annarra. Ég tel að það sé meiri vegur fyrir Reykjavík, horft til framtíðar, að hún verði höfuðborg landsins. Þess vegna má ég ekki til þess hugsa að hún lendi í þeirri stöðu að upplandið sem í dag styrkir hana með aðflutningi margra mætra þegna verði af henni tekið og gert að eyðibyggðum. Menn geta sagt sem svo: Það er nóg að sameina sveitarfélögin og stækka þau. Ef þetta er svona mikil lausn hvers vegna eru menn þá ekki búnir að sameina Seltjarnarnes og Reykjavík? Er það ekki nærtækast? Eru einhver landfræðileg mörk sem mæla gegn því að það sé gert? Ég er aldrei viss þegar ég er á ferðalagi um hluta þessa svæðis hvort ég er í Reykjavík eða á Seltjarnarnesi ef ég fer Ægissíðumegin út á nesið. Ég er aldrei viss. Auðvitað er erfitt að játa slíka vanþekkingu. Spurningin er aftur á móti: Yrði það lýðræðisleg framför að segja þeim á Seltjarnarnesi að þeir ættu að vera hluti af Reykjavík? Ég segi nei. Það væri ekki lýðræðisleg framför. Það væri lýðræðisleg afturför vegna þess að þá værum við að flytja hina kjörnu fulltrúa burt frá fólkinu. Alveg eins hefði ég talið mjög æskilegt að Reykjavík þróaðist stjórnsýslulega eins og London t.d., þ.e. að hin ákveðnu svæði fengju sína yfirstjórn en svo yrði auðvitað miðstýrt vald yfir höfuðborgarsvæðinu sem heild. Þannig hef ég hugsað mér þriðja stjórnsýslustigið á þessu höfuðborgarsvæði. Það mundi ná yfir Seltjarnarnes, Kópavog, Hafnarfjörð allt að Straumi og upp í Hvalfjörð. Ég held að það yrði stjórnsýsluleg framför ef þetta væri gert. Þá mætti m.a. treysta því að vegir pössuðu saman á milli sveitarfélaga sem manni virðist stundum að hafi verið ágreiningur um á þessu svæði.

En alveg eins og við værum í lýðræðislegri afturför á höfuðborgarsvæðinu gæti okkur farið lýðræðislega aftur úti á landi ef við stækkum sveitarfélögin það mikið landfræðilega að hinn almenni maður á vissum svæðum finnst raunverulega að hann tilheyri ekki þessu svæði. Honum finnst raunverulega ekki skipta máli hvort hann tekur þátt í sveitarstjórnarkosningum eða ekki. Ég tala nú ekki um að firringin sé jafnmikil og þegar kosið er til Evrópuþingsins í Evrópu sem er vissulega áhyggjuefni fyrir lýðræðið, enda má segja að þeir séu komnir með ráðinn forseta. Hann er ekki kosinn. Framkvæmdastjóri Evrópusambandsins er ráðinn til starfa.

Það var skorað á mig að flytja ræðu um þriðja stjórnsýslustigið en sá sem skoraði á mig er horfinn úr salnum. Ég er eiginlega sannfærður um að þó ég flytti nú ræðu hér í trássi við öll þingsköp í svona tvo tíma, tækist mér ekki að sannfæra viðkomandi þingmann vegna þess að leiðin til þekkingarinnar liggur ekki í gegnum einhvern ræðuflutning frá ákveðnum aðila til annars (Forseti hringir.) heldur það að sá sem hefur áhuga á að kynna sér viðkomandi verkefni reyni að afla sér upplýsinga, t.d um það hvers vegna Norðurlandaþjóðirnar skyldu vera að álpast með þetta þriðja stjórnsýslustig. Af hverju eru þessar greindu (Forseti hringir.) og vel menntuðu þjóðir ekki búnar að leggja það niður og spara sér kostnað?