Stytting vinnutíma án lækkunar launa

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 15:48:51 (1332)

1996-11-18 15:48:51# 121. lþ. 26.13 fundur 4. mál: #A stytting vinnutíma án lækkunar launa# þál., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:48]

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Við þingmenn Alþb. og óháðra flytjum undir forustu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur þáltill. á þskj. 4 um styttingu vinnutíma án lækkunar launa. Þessi tillaga er fyrsta málið sem við lögðum fram á þessu þingi og er hluti af fjölda mála sem þingflokkurinn flytur og lagði fram strax á fyrstu dögum þingsins og snerta fjölskylduna, lífskjörin og kjarabaráttuna. Við teljum að hér sé um að ræða mál sem skiptir sköpum um afkomu, möguleika og getu fjölskyldunnar til að lifa sæmilegu lífi í okkar landi. Þess vegna ákváðum við að flytja þetta mál inn í þingið sem er reyndar óvenjulegt vegna þess að margir eru þeirrar skoðunar að mál af þessum toga eigi að vera í höndum aðila vinnumarkaðarins einvörðungu. En við erum þeirrar skoðunar að um sé að ræða þýðingarmikið mál sem rétt sé að Alþingi hafi skoðun á með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um, en það gerist í tillögunni, með leyfi forseta, á þessa leið:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að gera tillögu að áætlun til þriggja ára um raunverulega styttingu vinnutímans og við það miðað að í lok áætlunartímabilsins verði vinnutími hér á landi ekki lengri en er að jafnaði í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við, t.d. í Danmörku eða annars staðar á Norðurlöndum.

Jafnframt verði tekið til athugunar að skipta vinnu milli fólks sem lið í að draga úr atvinnuleysi og stytta vinnutíma.

Til samstarfs um þetta verkefni verði kallaðir aðilar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Vinnumálasambandinu og Vinnuveitendasambandi Íslands. Áætlunin verði unnin undir forustu forsætisráðuneytisins.

Í áætluninni verði við það miðað að launatekjur lækki ekki þrátt fyrir styttri vinnutíma.

Nefndin skili niðurstöðum sínum fyrir lok ársins 1997.``

Virðulegi forseti. Þingflokkur Alþýðubandalags og óháðra bað á síðasta þingi um skýrslu frá forsætisráðherra um muninn á lífskjörum á Íslandi og í Danmörku. Urðu umræður um þá skýrslu skömmu fyrir þinglok sl. vor að frumkvæði og undir forustu formanns okkar, hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Einstök atriði þessarar skýrslu voru rædd ítarlega í þessum sal við það tækifæri. Þau hafa verið tekin fyrir í blaðagreinum og þingflokkur Alþb. og óháðra flytur hér þegar í upphafi þings og hefur gert grein fyrir, fjölmörg þingmál sem tengjast skýrslunni beint eða óbeint. Niðurstaða skýrslunnar sýndi svo að ekki verður um villst að verulegur munur er á launum og lífsjörum hér á landi og í Danmörku okkur í óhag. Dæmi eru um hátt í 100% mun á ráðstöfunartekjum fyrir dagvinnu, t.d. hjá iðnaðarmönnum.

Munurinn hjá fiskverkafólki er einnig sláandi. Fyrir dagvinnu var munurinn 33% Dönum í hag ef miðað er við það sem var til ráðstöfunar. Miðað við kaupmáttarjöfnuð var munurinn 26%. Hjá bifreiðastjórum var munurinn jafnvel enn meiri, 53% fyrir dagvinnu, 45% ef miðað er við kaupmáttarjöfnuð. Munur á heildarlaunagreiðslum og heildarráðstöfunartekjum er þó ekki svona mikill. Það kemur til af því að Íslendingar vinna gífurlega mikla yfirvinnu í samanburði við Dani til þess fyrst og fremst að ná launatekjum sínum upp. Hér er nær útilokað fyrir launafólk að lifa eingöngu af dagvinnutekjum sínum eins og kunnugt er og stærsti hluti þess fólks sem er á almenna vinnumarkaðinum og hjá ríki og sveitarfélögum getur ekki lifað af þeim tekjum sem það hefur fyrir dagvinnu eingöngu.

Samanburðarskýrslan sem við báðum um sagði að að meðaltali væru lífskjörin á Íslandi væru nokkuð góð. Það segir okkur að bilið milli þeirra sem hafa mest fyrir sína vinnu og þeirra sem hafa minnst er býsna breitt hér á landi. En það segir okkur einnig að hér sé um óhóflega yfirvinnu að ræða og hafa ýmsir orðið til að benda okkur á að þessi skýrsla sé samanburður á lífskjörum og vinnutíma þar sem atvinnulífið hafi verið í kreppu og því ekki rétt að tala um þennan mun sem staðreynd í dag eftir að góðærið mikla hélt innreið sína. Það væri gott ef satt væri. En frásagnir fólks sem flutti héðan t.d. 1994 vegna lélegra kjara og langs vinnutíma eru í engu frábrugðnar frásögnum fólks sem leitað hefur annað eftir vinnu á þessu ári. Launin eru hærri en það sem meira er og seint verður í fjárhæðum talið, er að vinnutíminn er styttri, samverutími fjölskyldunnar eru mun meiri.

Þá hafa heyrst fullyrðingar þess efnis eins og eðlilegt er að ekki sé rétt að miða við eitt land og þá síst Danmörku. Samanburðurinn verði að ná til fleiri landa eigi hann að vera raunhæfur og það er út af fyrir sig rétt. En þó að skýrslan sem þingflokkur Alþb. og óháðra fór fram á, væri miðuð við lífskjör í Danmörku einni, eru til aðrar skýrslur, annar samanburður þar sem tekið er mið af lífskjörum og lengd vinnutíma hjá öðrum þjóðum. Samanburður við löndin í vestanveðri Evrópu sýnir að laun fyrir dagvinnu, hverja vinnuviku eru víðast hvar mun hærri en hér á landi. Við getum líklega helst sest á bekk með Ítalíu, Spáni og Frakklandi hvað þetta varðar.

Við eigum ekki samleið með frændþjóðum okkar í þessum efnum. Í Noregi og Danmörku eru launin mun hærri en hér á landi. Meðalvinnuvika í fullu starfi, þ.e. dagvinna og eftirvinna, er í Evrópusambandslöndunum rúmlega 38 stundir í samaburði við 47 stundir hér á landi samkvæmt könnun Hagstofu Íslands. Þarna erum við á bekk með Grikkjum, Portúgölum og Spánverjum sem eru með hvað lengsta vinnuviku innan Evrópusambandslandanna. Í Grikklandi er meðalvinnuvikan 44 tímar, en Grikkir eru næstir okkur í röðinni samkvæmt þessari úttekt. Flest lönd innan Evrópusambandsins hafa lögbundnar takmarkanir á vinnutíma fólks og 23. nóvember nk. er gert ráð fyrir því að svokölluð tilskipun Evrópusambandsins um hámarksvinnutíma gildi á Evrópska efnahagssvæðinu.

Ýmsir hafa, hæstv. forseti, haft uppi um það efasemdir hvort það sé hlutverk löggjafarvaldsins að skipta sér af lengd vinnutíma eins og hér er að nokkru leyti lagt til, og telja að aðilar vinnumarkaðarins eigi að semja um slíkt og um það erum við sammála. Við erum þeirrar skoðunar að það eigi að semja um slíkt. Við teljum hins vegar að það sé sjálfsagður hlutur að þjóðþingið ræði mál af þessu tagi. Það leggjum við áherslu á með þessari þáltill. en það gerum við líka með sérstakri beiðni um skýrslu þar sem farið er fram á að gerð verði úttekt af áhrifunum af löngum vinnutíma hér á landi, bæði á almennt líf launamannanna og ekki síst á líf fjölskyldnanna.

Við erum þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að ef það á að tala um raunverulega og skipulega styttingu vinnuvikunnar, jafnvel þó það gerist á mörgum árum eins og hér er gerð tillaga um, þá sé fásinna að tala um slíkt ef laun fyrir dagvinnu eiga að vera eins og þau eru núna. Þess vegna verður að fylgja þessu átaki ákvæði um kaupið sjálft og kaupmáttinn og einnig að því er varðar hin einstöku fyrirtæki og líka hina almennu stöðu þeirra. Þess vegna teljum við að það sé mjög nauðsynlegt að við köllum inn í þessa mynd fulltrúa atvinnurekendasamtakanna eins og við gerum tillögur um í þáltill. okkar.

Við leggjum á það mikla áherslu, hæstv. forseti, að þessi tillaga er hluti af mörgum tillögum sem þingflokkur Alþb. og óháðra flytur núna í upphafi þessa þings. Það eru 20--30 þingmál sem við höfum þegar lagt fram í þessari virðulegu stofnun og ýmist mælt fyrir eða sem bíða umræðu, sem snerta fjölskylduna, lífskjörin og kjarabaráttuna. Við lítum þannig á að þessi frv. séu innlegg í hina almennu kjaramálaumræðu sem núna er að hefjast í landinu, m.a. með hliðsjón af því að kjarasamningar eru að losna, viðræðuáætlanir hafa verið gerðar og í undirbúningi eru almennir kjarasamningar og kjarabarátta almennt.

Þau mál sem ég er hér með í huga, hæstv. forseti, eru fyrir utan þessa tillögu sem er á þskj. 4, skýrslubeiðni á þskj. 5 um afleiðingar langs vinnutíma hér á landi. Það er beiðni til hæstv. félmrh. um að hann gefi skýrslu um það mál. Hann getur kannski frætt okkur á því hér á eftir --- ég tek eftir að hann hefur beðið um orðið eða andsvar --- hvernig þeirri vinnu miðar. Á þskj. 6 er tillaga um að fella niður þjónustugjöld í heilsugæslu. Við teljum að það sé einnig mikilvægt fjölskyldumál. Á þskj. 7 er frv. til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna sem snertir samtímagreiðslur og eftirágreiðslur námslána og endurgreiðslur námslána. Síðan er á þskj. 9 frv. um almannatryggingar, sálfræðiþjónustu, sem hv. þm. Ingibjörg Sigmundsdóttir mun mæla fyrir á eftir Sömuleiðis er frv. um félagslega aðstoð, umönnunarbætur, sem hv. þm. Ingibjörg Sigmundsdóttir mun einnig mæla fyrir á eftir. Við erum með frv. um tekjuskatt og eignarskatt sem gengur út á það að tekið verði á jaðarskattavandamálunum sem eru að fara mjög illa með lífskjör fjölskyldnanna, ekki síst barnafjölskyldnanna, og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur þegar mælt fyrir. Við erum með þingmál sem snertir fæðingarorlof feðra og rétt til launa í veikindaforföllum og fjöldamörg önnur slík mál sem beinlínis snerta lífskjörin sjálf, eins og fyrirspurnir t.d. um skerðingu bóta almannatrygginga sem hafa verið viðkvæðið undanfarin ár þegar menn hafa verið að fjalla um frumvörp um svokallaðar ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Fyrir utan þetta höfum við lagt fram nokkur frv. sem snerta hina almennu efnahagslegu undirstöðu í landinu, þ.e. hvernig á að tryggja þessi lífskjör fjölskyldnanna og einstaklinganna. Þar bendi ég t.d. á frv. um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð og ég bendi líka á frumvörp um jarðhitaréttindi og orku fallvatna sem skiptir verulegu máli í þessu sambandi. Og ég bendi líka á þingmál eins og beiðni um skýrslu um stöðu og þróun bolfiskfrystingar í landi sem er gríðarlega stórt lífskjaramál á verulega stórum hlutum landsins. Hér er sem sagt um að ræða samþættan málapakka sem við teljum að verðskuldi athygli. Þetta er eins og ég sagði áðan liður í því að reyna að ýta undir umræðu í kjölfar kjarasamninga, hjálpa til í aðdraganda kjarasamninga við að skapa umræður, þátttöku og skilning á stöðunni í landinu og er þannig séð almennt pólitískt framlag okkar til þeirrar umræðu.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að að umræðunni lokinni verði þessu máli vísað til síðari umr. og það fari til meðferðar í hv. félmn.