Þátttaka ríkisins í náttúrustofum í kjördæmum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 14:55:19 (1462)

1996-11-20 14:55:19# 121. lþ. 29.4 fundur 125. mál: #A þátttaka ríkisins í náttúrustofum í kjördæmum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka skilmerkileg svör hæstv. ráðherra. Ég ítreka það að ég er mjög ánægður með þann gang mála sem hefur verið í þessu, hversu mörg kjördæmi hafa hagnýtt sér lagaákvæðin um þessi efni og að bæði núv. og fyrrv. hæstv. umhvrh. hafa veitt þá heimild sem þarna er í lögum. Þetta tel ég allt mjög til bóta og hafa gengið fyllilega að vonum að koma þessu á. Ég vænti talsvert mikils af þessari starfsemi. Ég er líka sammála því sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að eðlilegt sé að þau kjördæmi, sem njóta þess að hafa setur Náttúrufræðistofnunar Íslands, mæti frekar afgangi eða komi þá síðar en rekstur náttúrustofa með ríkisstuðningi.

En varðandi deiluefnið þá er ég ekki alveg viss um að við séum hundrað prósent sammála, við hæstv. ráðherra. Ég legg nefnilega mikið upp úr því að heimaaðilar finni að þeim ber skylda til þess, ef þeir gera kröfu til framlags af ríkisins hálfu, að setja niður deilur sínar og komast að skynsamlegri niðurstöðu og málamiðlun án íhlutunar ríkisins eða umhvrn. í þessu tilviki. Og sem einn af höfundum þessara laga á undirbúningsstigi taldi ég að þannig væri um hnútana búið að þessi svokallaða gulrót, þessi hvatning ætti að nægja til þess að menn kæmu sér saman með eðlilegum hætti og svo þetta ákvæði um að hægt væri að koma svona starfsemi á víðar en á einum stað í kjördæminu ef svo bæri undir að menn vildu deila upp rekstrinum. En ríkisstuðningurinn er bara einn og tilgreindur í lögum að hámarki eða reyndar lögbundið hver hann skuli vera. Vonandi leysast þessi mál og ekki ætla ég út af fyrir sig að leggjast neitt á móti því að hæstv. ráðherra og hans ráðuneyti leggi sig fram um að þarna náist ásættanleg niðurstaða. Hitt hefði ég talið betra að doka við og segja: Þið verðið að koma ykkur saman, þá skal ég nota heimildina.