Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 19:06:35 (1591)

1996-11-21 19:06:35# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[19:06]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. þm. Árna M. Mathiesen hvort þær breytingar sem núna er verið að gera á stöðu fyrirtækisins, verði þetta frv. að lögum, hafi einhver áhrif á þau áform sem fram koma í áliti þeirrar nefndar sem ég skipaði til þess að fara yfir skipulag orkumálanna þá er það svo að ég tel að þær breytingar sem þarna er verið að gera, þar sem leitast er við að færa fyrirtækið meira að því eins og hlutafélög starfa þá falli það mjög vel að þeim hugmyndum sem uppi eru um að leiða inn samkeppni í orkugeirann í áföngum. En það er, eins og ég hef sagt hér áður, meginniðurstaða þessarar nefndar og ég tek undir þau sjónarmið sem þar eru. Það skiptir þó hins vegar meginmáli hversu hratt menn fara í þetta. Það skiptir ekki bara Landsvirkjun máli, það skiptir líka mjög miklu máli fyrir öll önnur orkufyrirtæki eins og Orkubú Vestfjarða, Rarik, Hitaveitu Suðurnesja, Hitaveitu Reykjavíkur, Rafmagnsveitu Reykjavíkur og önnur þau fyrirtæki sem eru að framleiða orku og eru að vinna orku í dag. Það skiptir máli að menn innleiði samkeppnina í áföngum þannig að allir þessir aðilar hafi bæði tíma og ráðrúm til að aðlaga sig að þeim breyttu aðstæðum sem taka við á tilsettum tíma. Ég tel að þær breytingar, og til að ítreka það, sem við erum nú að gera á Landsvirkjun, falli mjög vel að þeim hugmyndum sem uppi eru um breytt fyrirkomulag á skipulagi orkumálanna en það er mál sem síðar mun koma til kasta Alþingis að fjalla um en er ekki núna til umfjöllunar. Bara til að staðfesta það þá fellur þetta, að mínu viti, nákvæmlega að þeim hugmyndum sem þar eru uppi.