Málefni Þróunarsjóðs og fiskvinnslufyrirtækja

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 16:05:49 (1642)

1996-12-02 16:05:49# 121. lþ. 32.96 fundur 113#B málefni Þróunarsjóðs og fiskvinnslufyrirtækja# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:05]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Fyrst vil ég taka fram að það er ekki hlutverk Þróunarsjóðsins að hlutast til um rekstur einstakra sjávarútvegsfyrirtækja eða áform þeirra um samstarf eða sameiningu. Lögum samkvæmt ber sjóðnum að bjóða þau hlutabréf sem hann á til sölu einu sinni á ári a.m.k. þangað til þau eru öll seld. Í því tilviki sem hér um ræðir bárust tilboð frá Ísfélaginu í Vestmannaeyjum í tvö fyrirtæki. Lögum samkvæmt var eignaraðilum og starfsmönnum boðinn forkaupsréttur. Formaður stjórnar annars fyrirtækisins, Búlandstinds, óskaði eftir því að stjórnarmenn yrðu skoðaðir sem starfsmenn í skilningi laganna. Starfsmenn Þróunarsjóðs segja mér að þeir hafi komist að þeirri niðurstöðu þó að lögin séu ekki skýr í þessu efni að rétt væri að láta stjórnarmennina njóta vafans í því og þess vegna ákváðu þeir að láta forkaupsréttinn ná til stjórnarmanna. Þegar það kom til vitundar stjórnar Þróunarsjóðsins taldi hún að hér væri um lagalega óvissu að ræða og vildi ekki að málið gengi frekar fram fyrr en fyrir lægi lögfræðiálit óháðs aðila. Það liggur nú fyrir og er á þann veg að það samrýmist ekki túlkun á lögunum um Þróunarsjóðinn að stjórnarmenn séu taldir starfsmenn í skilningi þeirra laga. Fyrir þá sök ákvað sjóðurinn að draga til baka tilboð til þeirra sem það höfðu fengið um að neyta forkaupsréttar á þeim grundvelli að þeir hefðu verið stjórnarmenn. Þetta hefur ekki valdið neinni óvissu eða röskun gagnvart öðrum. Allir aðrir sem forkaupsrétt áttu fengu tilskilinn frest og eðlilegan tíma til þess að taka um það ákvörðun og kusu margir hverjir að neyta ekki forkaupsréttarins. Aðrir sem forkaupsréttinn áttu kusu að neyta hans og þá standa þau tilboð. Ég geri ráð fyrir að málinu verði lokið á þeim grundvelli nema einhverjar aðrar aðstæður komi upp sem ég þekki ekki til.

Það er ekki rétt að þessi mistök hafi valdið neinum óróa eða misskilningi eða raskað stöðu annarra sem áttu forkaupsrétt. Þeir fengu sinn tíma til þess að taka afstöðu og tóku hana hver fyrir sig þó sumir hafi kosið að neyta réttarins ekki en aðrir hafi kosið að neyta forkaupsréttarins.