Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 16:39:46 (1740)

1996-12-03 16:39:46# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[16:39]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. óskaði opinberum starfsmönnum til hamingju með þennan samning og þá væntanlega vegna þess að þeir áttu í baráttu við illskeyttan hæstv. fjmrh. og ég skil ekkert í hæstv. fjmrh. að hafa bara ekki látið þá fá hálfa milljón á mánuði í lífeyri alla saman. Hvers vegna er það ekki hægt? Vegna þess að einhver þarf að borga. (ÖJ: Milljón eins og sumir hafa.) Já, eða milljón eins og sumir hafa. Það er ekki hægt vegna þess að aðrir þurfa að borga, hv. þm. Og það eru skattgreiðendur sem þurfa að borga. Það er alltaf önnur hlið á medalíunni og ég er alltaf að reyna að minna menn á þetta. Menn óska ekki opinberum starfsmönnum til hamingju með einhvern samning af því að það er einhver sem þarf að borga.

Hv. þm. gat þess einnig að við fráfall einstæðrar móður fengi barn hennar eingöngu 10 þús. kr. á mánuði og það væri mjög óréttlátt. Ég vil endilega leiðrétta þetta. Málið er það að lífeyrissjóðir tryggja menn gegn örorku, dauða fyrir aldur fram og gegn elli. Þeir sem ekki lenda í þessum óhöppum fá ekki neitt, enda er þetta trygging. Maður sem keyrir bíl í 20 ár og lendir aldrei í tjóni verður ekki fyrir neinum skaða þó hann sé búinn að borga iðgjald í 20 ár og fái ekkert fyrir það. Þessi einstæða móðir sem féll frá var tryggð gegn örorku, ef hún hefur orðið öryrki áður, hún var tryggð gegn fráfalli og barnið hennar fékk barnalífeyri og hún var líka tryggð gegn elli. Ef hún hefði orðið 107 ára og tekið ellilífeyri í 37 ár, þá hefði það verið tryggt.