Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 17:47:23 (1752)

1996-12-03 17:47:23# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[17:47]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Lífeyrissjóðir í landinu eru ekki ýkja gamlir. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er hins vegar kominn til ára sinna. Hann var stofnaður árið 1919 og það er langt síðan lífeyrisréttindin þar á bæ voru orðin nokkuð traust.

Þegar fram liðu stundir smíðuðu menn sér sæmilegt almannatryggingakerfi til að tryggja fólki framfærslu. En svo er búið um hnútana að fengju menn framfærslu frá öðrum sjóðum eða öðrum aðilum, þá skertist rétturinn til töku eða til framfærslulífeyris frá almannatryggingakerfinu. Ég er ekki með nákvæmar tölur þar að lútandi en ég fullyrði að með þessu hafi sparast tugir milljarða í almannatryggingakerfinu. Með traustum lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna er þessu þannig farið án þess að ég hafi um það neinar nákvæmar tölur.

Hvað varðar ríkisábyrgðina þá er hún afnumin. Ríkis\-ábyrgðin sem slík er afnumin. Hins vegar er launagreiðandanum, hvort sem launagreiðandinn heitir ríkið, sjúkrahús eða þingflokkur jafnaðarmanna eða BSRB eða sveitarfélögin eða hvaða aðili sem það er, gerður ábyrgur. Í núverandi kerfi hins vegar er ríkissjóður endanlega ábyrgur gagnvart öllum þeim sem aðild eiga að sjóðnum, sveitarfélögum, þingflokki jafnaðarmanna og hverjum sem er, öllum. Þetta er afnumið, þessu er breytt.

Varðandi stöðu þeirra barna sem missa báða foreldra sína og annar hafi átt aðild að sjóðnum, þá er það alveg rétt að staða þess barns er lakari en hinna og ég tek undir það með hv. þm. að á það þarf að líta, en ég tel að það sé fremur viðfangsefni almannatryggingakerfisins þó að mér finnist koma mjög vel til álita að skoða þau mál þegar fram líða stundir.