Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 18:51:11 (1765)

1996-12-03 18:51:11# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[18:51]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil benda á varðandi sveitarfélögin að eins og kom fram í minni framsöguræðu í dag er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin fái greiðslur frá ríkinu í gegnum breytingar á tekjuskatti og útsvari til þess að standa undir auknum samtímagreiðslum til sjóðsins. Það á að vera trygging fyrir því að kennarar njóti þeirra réttinda sem um var samið og lög bjóða. Reyndar tel ég að kennarar hafi í mörgum greinum fengið meiri réttindi heldur en aðrir opinberir starfsmenn af ýmsum ástæðum.

Þegar ég er að tala um sparnað hjá almannatryggingakerfinu er ég eingöngu að minnast á það að eftir því sem fólk hefur hærri tekjur, t.d. lífeyristekjur að lokinni vinnuævi, þeim mun minna þarf af fjármunum frá ríkinu á þeim tíma. Vegna skerðingar, sem ég veit að hv. þm. þekkir mjög vel sem er sérfræðingur í almannatryggingakerfinu, þá greiðir ríkið þeim mun minna í gegnum bætur eftir því sem tekjur manna vaxa og sá sem tekjurnar fær er kominn yfir vinnualdur.