Frákast á afla fiskiskipa

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 13:50:48 (1782)

1996-12-04 13:50:48# 121. lþ. 34.3 fundur 167. mál: #A frákast á afla fiskiskipa# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[13:50]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa varpað þessu umræðuefni fram og tek undir með honum að hér er um að ræða mjög alvarlegt mál sem mikilvægt er að stjórnvöld og þeir sem ábyrgð bera á fiskveiðunum taki höndum saman um að leysa. Sem betur fer er það svo að á undanförnum árum hefur mjög margt verið gert, bæði af hálfu stjórnvalda og þeirra sem í sjávarútvegi starfa til þess að tryggja góða umgengni um fiskimiðin og væri sérstök ástæða til þess að gera heildaryfirlit yfir það og þann árangur sem það hefur skilað. En því miður er enn of mikið um það að fiski er hent.

Sem svar við spurningum hv. fyrirspyrjanda má segja að sjútvrn. sem slíkt hefur ekki sjálft staðið fyrir könnun á umfangi útkasts af fiski. Aftur á móti hafa tvær nefndir, sem ég hef skipað á undanförnum árum, gert tilraun til að leggja mat á umfang útkasts og enn fremur hefur Hafrannsóknastofnun staðið fyrir slíku verkefni sem nú er í gangi. Rannsóknir sem þessar geta ekki gert meira en að lýsa ástandinu eins og það er á hverjum tíma. Það er því ekki rétt að framreikna tölur um útkast m.a. vegna þess að viðhorf manna til þessara hluta breytast og aðstæður eru misjafnar frá einu ári til annars. T.d. má nefna að í júní sl. voru samþykkt lög um umgengni um nytjastofna sjávar sem hljóta að hafa áhrif á afstöðu manna til að kasta fyrir borð og önnur atriði er varða umgengni um auðlindir sjávar svo sem lokun veiðisvæða og þróun veiðarfæra.

Árið 1992 var gerð úttekt á vegum nefndar sem þá starfaði um bætta umgengni. Sú úttekt miðaði að því að meta hversu miklu væri fleygt af fiski og gerð grein fyrir niðurstöðum í skýrslu samráðshóps um bætta umgengni um auðlindir sjávar. Niðurstöðunum var skilað í janúar 1993. Í fyrsta lagi var reynt að leggja mat á útkast frá netabátum en ekki var unnt að sýna fram á að fiski væri hent í verulegum mæli frá netabátunum í þeirri könnun sem þarna fór fram. Í öðru lagi var reynt að meta útkast frá togurum og helstu niðurstöður voru að rúmum 4% af heildarafla væri kastað fyrir borð. Af fiski innan kvóta var hlutfallið 2,4%. Ef litið var á einstakar tegundir var niðurstaðan sú að 0,4% af þorskafla væri hent en verst var ástandið í karfaveiðunum þar sem 13% var fleygt. Fyrir aðrar kvótabundnar tegundir var hlutfallið 1--2,5%. Það er rétt að minna á að þessar niðurstöður voru birtar í janúar 1993 við allt aðrar aðstæður en við búum við í dag.

Í maí 1994 var svo skipuð nefnd til að fjalla um umgengni um auðlindir sjávar. Það var samstarfsnefnd sjómanna og útvegsmanna og Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu. Sú nefnd sendi 1.000 sjómönnum spurningalista þar sem m.a. var spurt um atriði er varða útkast. Því miður var svörunin ekki nema 27% þannig að ekki reyndist unnt að vinna úr þessum spurningum eins og vonir stóðu til. Nefndinni bárust eigi að síður margar góðar athugasemdir og merkilegar upplýsingar sem nýttust henni í starfinu við umfjöllun og undirbúning að lagafrv. um umgengni um nytjastofna sjávar sem var samþykkt, eins og kunnugt er, á sl. vori.

Varðandi útkast er helst að nefna niðurstöðu spurningar um það hvort breytingar hafi orðið á útkasti á fiskveiðiárinu 1993--1994 miðað við fiskveiðiárið þar á undan. Það er athygli vert að niðurstaðan var á þann veg að þeir sem töldu að útkastið hefði aukist voru jafnmargir og þeir sem töldu að það hefði minnkað. Hafrannsóknastofnun hefur svo jafnframt í samvinnu við trúnaðarmenn verið að vinna að slíkri könnun og hún hefur verið unnin í trúnaði við sjómenn um borð í fiskiskipum. Það er mat Hafrannsóknastofnunar að áhrifin á fiskveiðiráðgjöfina komi fyrst og fremst fram í því hvort verulegar breytingar verða frá einu ári til annars vegna þess að fiskveiðiráðgjöfin byggist á hlutfallslegum breytingum á milli ára og stærð fiskstofna og þess vegna eru áhrifin fyrst og fremst í því fólgin ef breytingar verða á milli ára.