Móttöku- og hlustunarskilyrði Ríkisútvarpsins á Vesturlandi

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:15:24 (1792)

1996-12-04 14:15:24# 121. lþ. 34.5 fundur 169. mál: #A móttöku- og hlustunarskilyrði Ríkisútvarpsins á Vesturlandi# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:15]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Samkvæmt upplýsingum sem aflað hefur verið hjá Ríkisútvarpinu hefur heildarúttekt á móttöku- og hlustunarskilyrðum Ríkisútvarpsins, Rásar 1 og 2, og sjónvarpsins ekki verið gerð nýverið fyrir allt Vesturland. Nokkuð ber á að kvartað sé til tæknideildar Ríkisútvarpsins og hafa ástæður kvartana verið kannaðar af tæknimönnum þess og telja þeir sig hafa yfirsýn yfir ástand dreifikerfisins í þeim landshluta. Kvartanir hafa aðallega borist frá vestanverðu Snæfellsnesi vegna sjónvarps og útvarps, Borgarness og nágrennis vegna útvarps og frá nokkrum sveitabæjum, t.d. efst í Kolbeinsstaðahreppi og nokkrum dölum Dalasýslu vegna sjónvarps.

Hlustunarskilyrði Rásar 1 og Rásar 2 eru sambærileg hvað varðar FM nema í Borgarnesi og nágrenni, þar sem sendir Rásar 1 er í Gyrðisholti en sendir Rásar 2 er í Þjóðólfsholti. Þetta veldur þeim mismun sem kvartað er undan á þessu svæði. FM-dreifikerfið var í upphafi hannað með það fyrir augum að ná til heimila fólks. Ekki voru gerðar sérstakar ráðstafanir til að ná þjóðvegum samfellt og hafa eyður í dreifingu ætíð verið fyrir hendi. Langbylgjudreifing hefur séð fyrir nauðsynlegri holufyllingu dreifikerfisins en endurnýjun langbylgjustöðvanna mun ljúka á fyrri hluta næsta árs.

Að því er varðar dreifikerfi sjónvarpsins þá hefur á utanverðu Snæfellsnesi verið kvartað undan ótryggri dreifingu á svæðinu kringum Hellissand og jafnframt undan því að þörf sé óvenjustórra loftneta sem erfitt sé að halda við í þeim vetrarveðrum sem þar eru. Nýlega var ákveðið að setja upp endurvarpa fyrir Hellissand til að bæta úr ástandinu þar. Vonast er til að hann verði settur upp um eða eftir áramótin. Þá eru nokkrir sveitabæir á Vesturlandi sem búa við slæm eða ónothæf móttökuskilyrði. Engar endurbætur eru fyrirhugaðar fyrir þessa bæi á árinu, en móttöku- og hlustunarskilyrði Ríkisútvarpsins eru í sífelldri athugun hjá tæknideild stofnunarinnar og nýlegar ábendingar íbúa á svæðinu verða til athugunar hjá Ríkisútvarpinu á næstunni.