Tekjuviðmiðun lífeyrisþega

Miðvikudaginn 04. desember 1996, kl. 14:45:21 (1808)

1996-12-04 14:45:21# 121. lþ. 34.2 fundur 154. mál: #A tekjuviðmiðun lífeyrisþega# (eingreiðsla skaðabóta) fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur

[14:45]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og leyfi mér að fullyrða að þessi fyrirspurn hafi kannski þegar þjónað tilgangi sínum ef hún hefur orðið til þess að ýta aðeins við þeim í heilbrigðisráðuneytinu. Ég fagna því að þessi reglugerð skuli nú loksins vera í bígerð og verða sett innan skamms.

Að mínu mati er það ekki aðalatriði málsins hversu margir koma til með að njóta hennar í einhverjum umtalsverðum mæli heldur hitt að það væri óumdeilanlega fráleit útkoma úr þessum skattalagabreytingum að menn yrðu fyrir skerðingu í tvígang vegna sömu fjármunanna. Það liggur algjörlega í hlutarins eðli þannig að jafnvel þó svo að hér væri fyrst og fremst um fræðilegt mál að ræða, þá stendur það eftir sem áður upp á menn að sjá til þess að slíkt sé ekki í gangi í skattkerfinu eða í samspili skattkerfisins og almannatryggingakerfisins. Og þó svo að menn hafi ekki sótt enn þá í miklum mæli um þessa leiðréttingu, enda kannski málið ekki verið mjög ítarlega kynnt, þá breytir það ekki hinu að þetta þarf að lagfæra.

Ég held einnig að sú óvissa sem hefur ríkt í málinu frá því að lögin voru sett sl. vor, svo ég ekki tali um frá því að fjármagnstekjuviðmiðunin tók gildi 1. sept., hafi haft sín áhrif á það. Ég hef orðið þess var a.m.k. og það var reyndar tilefni þessarar fyrirspurnar í og með að menn höfðu samband við mig sem spurðu hvar þetta mál væri á vegi statt. Menn hafa væntanlega að einhverju leyti verið að bíða átekta með það hvort þeir hefðu tilefni til að sækja um undanþáguna þangað til þeir sáu reglugerðina og þá útfærslu á tekjuviðmiðuninni sem þar yrði lögð til grundvallar. Fyrr gátu menn að sjálfsögðu ekki áttað sig á rétti sínum í þessu sambandi þannig að eftir stendur að það er ámælisvert að þetta skyldi dragast fram yfir gildistöku laganna 1. sept., en betra er seint en aldrei og ég þakka ráðherra fyrir svörin.