1996-12-21 01:32:29# 121. lþ. 55.98 fundur 153#B Jólakveðjur#, RG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur

[25:32]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka forseta forustu hans í þeirri viðleitni forsætisnefndar og þingflokksformanna að gera það sem unnt er til að bæta störf þingsins. Hann hefur átt gott samstarf við þingflokksformenn og þingmenn alla og reynt að leysa þá hnökra sem hafa komið upp. Þess vegna m.a. hefur okkur tekist að ljúka störfum nú, þótt nokkuð sé liðið á kvöld, á þessu föstudagskvöldi fyrir jól þrátt fyrir að ekki stefndi í þessi þinglok um miðja vikuna.

Ég tek undir það að skipulag þingstarfa hefur verið gott á þessu hausti og starfsáætlun hefur haldið í stórum dráttum. Við höfum verið með nokkra nýbreytni sem full ástæða er til að reyna að þróa áfram vegna þess að við höfum öll vilja til þess að þingstörf verði fagleg og til fyrirmyndar.

Ég þakka forseta hlý orð í garð þingflokksformanna og í garð þingmanna. Ég óska forseta og fjölskyldu hans gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Ég vil jafnframt þakka starfsfólki öllu umburðarlyndi og vinnusemi og jákvæðni og óska því gleðilegra jóla. Ég bið hv. þingmenn að taka undir góðar óskir til forseta okkar og fjölskyldu hans með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]