Lögbinding lágmarkslauna

Miðvikudaginn 28. janúar 1998, kl. 14:09:54 (3132)

1998-01-28 14:09:54# 122. lþ. 54.92 fundur 181#B lögbinding lágmarkslauna# (aths. um störf þingsins), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur

[14:09]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Gísla S. Einarssonar um þetta mál. Það er alveg rétt sem hann bendir á og óskar eftir að mál sem hann flutti í fyrra verði tekið eins fljótt og unnt er og fái sérstaka flýtimeðferð á hinu háa Alþingi í ljósi þeirra upplýsinga sem hann hefur aflað sér um málið.

Frv. snýst um lögbindingu lágmarkslauna. Við vitum að efnislega er þetta mjög mikilvægur þáttur í samfélagi okkar gagnvart almenningi í landinu, tengist löngum vinnudegi og mörgu fleiru. Það er sú efnisumræða sem við eigum eftir að fara í en það er ekki það sem er til umræðu heldur fyrst og fremst að þetta mál er það brýnt að taka þarf afstöðu til þess á hinu háa Alþingi. Það kemur ekki einungis inn á kjarasamninga heldur á lífskjör almennings í landinu. Dregið hefur verið fram af fræðimönnum, prófessorum við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum, einni virtustu fræðistofnun í vestrænum heimi, nýjar sannanir, upplýsingar og aðkoma um þetta efni. Við skulum ekki fullyrða um áhrif þess en full ástæða er til þess að gefa þessum málum gaum.

Ég vil einnig benda á að í ræðu Clintons Bandaríkjaforseta í fyrrakvöld eða í nótt var það einmitt þáttur sem hann lagði mikla áherslu á, þ.e. hækkun lágmarkslauna, þannig að það er alveg ljóst að hér eru komin bæði fræðileg rök og stjórnmálaleg rök til að taka málið sérstaklega fljótt til umræðu á hinu háa Alþingi þannig að menn geti sem allra fyrst bæði tekið afstöðu og rætt málið í ljósi nýrra upplýsinga. Þess vegna, herra forseti, styð ég eindregið ósk hv. þm. Gísla S. Einarssonar um að málið verði tekið sem allra fyrst á dagskrá.