Rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar

Mánudaginn 02. febrúar 1998, kl. 17:23:59 (3291)

1998-02-02 17:23:59# 122. lþ. 56.3 fundur 92. mál: #A rannsókn á störfum fíkniefnadeildar lögreglunnar# beiðni um skýrslu frá dómsmrh., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur

[17:23]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ber stöðu saklausra, grunaðra lögreglumanna fyrir brjósti og vil á engan hátt leggja einhvern stein í þann poka sem á þá hefur verið hengdur með rannsókn málsins. En ég minni á hvers vegna við erum að ræða þetta. Við erum að ræða leiðir okkar til að sporna við eiturlyfjavandanum. Við erum að ræða þetta vegna þess að við viljum að það sé tekið hart á þeim sem brjóta af sér í innflutningi og dreifingu. Ef það er svo að allshn. á möguleika á því að fá upplýsingar úr skýrslu sem hefur upplýsingagildi í máli sem rannsókn er lokið í tel ég að það sé gott mál. Ég fer þess á leit, virðulegi forseti, að forseti taki það upp í forsætisnefnd að fá upplýsingar um það hvort þingnefndir á Norðurlöndunum geti leitað eftir slíkum upplýsingum þar. Ég held að við þurfum að læra eins og unnt er af öðrum um framvindu mála hjá okkur.