Úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 14:00:20 (3313)

1998-02-03 14:00:20# 122. lþ. 57.91 fundur 190#B úrskurður umboðsmanns um ólögmæta hótelstyrki# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[14:00]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Á undanförnum dögum hafa eftirlitsstofnanir Alþingis, umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun, kveðið upp mjög ákveðna úrskurði yfir þremur ráðherrum Sjálfstfl. Þar er í öllum tilvikum um að ræða mjög alvarleg mál. Spurningin snýst ekki aðeins um stöðu einstakra ráðherra heldur um virðingu Alþingis. Tekur Alþingi mark á sínum eigin eftirlitsstofnunum?

Hvaða mál er ég að tala um? Ég er í fyrsta lagi að tala um þá niðurstöðu umboðsmanns Alþingis að sá dráttur sem varð í fjmrn. á að staðfesta tiltekna reglugerð lífeyrissjóðs væri í raun fráleitur.

Ég er í öðru lagi að tala um þá niðurstöðu Ríkisendurskoðunar að vinnubrögð fjmrh. og dómsmrh. í svokölluðu ÞÞÞ-máli væru fyrir neðan allar hellur. Það mál verður rætt hér á mánudaginn kemur. Samið hafði verið um það á milli þingflokkanna að málið kæmi til umræðu væntanlega á morgun og stæði sú umræða í klukkustund. Niðurstaða ráðherranna varð sú að þeir þyrftu svo mikið að tala sér til málsbóta að ekki væri hægt að láta umræðuna standa aðeins í eina klukkustund, þess vegna þyrfti hún miklu lengri tíma. Umræðan fer því fram á mánudaginn kemur.

Í þriðja lagi er það málið um úthlutun rekstrarstyrkja til hótela sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hóf í dag. Greinilegt er með öðrum orðum, herra forseti, að hér er um að ræða mjög alvarlega hluti í embættisfærslu þriggja ráðherra Sjálfstfl. og málið snýst ekki um neitt annað núna en virðingu Alþingis. Hvernig ætlar Alþingi að taka á þessum ráðherrum og vinnubrögðum þeirra? Ætlar Alþingi Íslendinga að taka mark á sínum eigin stofnunum þegar þær kveða upp jafneindreginn áfellisdóm yfir vinnubrögðum ráðherra og hér liggur fyrir?