Fjöldatakmarkanir við læknadeild Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:33:53 (3402)

1998-02-04 14:33:53# 122. lþ. 58.5 fundur 381. mál: #A fjöldatakmarkanir við læknadeild Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:33]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil í tilefni af orðum hv. þm. vitna hér orðrétt í bréf forseta læknadeildar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,1992 hætti bráðastarfsemi á Landakotsspítala fyrirvaralítið og féll þar úr einn af þremur meginkennsluspítölum læknadeildar. Vegna hinnar minnkuðu kennslugetu neyddist læknadeild til að fækka í hverjum árgangi niður í 30 á ári að undangenginni kennslugetukönnun. Enda þótt aukið álag, þröngar fjárveitingar á kennsluspítölum læknadeildar og breytt starfsemi hafi í raun dregið úr getu kennsluspítalanna til klínískrar kennslu, var fjöldinn í hverjum árgangi aukinn aftur upp í 36 á ári 1996.``

Þetta er afstaða læknadeildarinnar og eins og fram kom í svari mínu þá gerir læknadeildin tillögu um þetta reglum og lögum samkvæmt til háskólaráðs. Háskólaráð tekur síðan ákvarðanir í þessu efni. Þarna er skýringin og ég tel ástæðulaust að gera því skóna að á bak við þetta búi eitthvað annað en þarna segir. Árið 1992 urðu breytingar en síðan hafa menn lagað sig að þeim og aftur lagt til að fjöldinn yrði aukinn og nú er hann 36 á ári eins og fyrir þetta fall árið 1992.