Störf tölvunefndar

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:55:28 (3409)

1998-02-04 14:55:28# 122. lþ. 58.7 fundur 417. mál: #A störf tölvunefndar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:55]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það er að sönnu rétt að það er nauðsynlegt að Alþingi tryggi vernd á persónulegum upplýsingum sem koma fram í rannsóknastofnunum í þessu landi. Eins og kemur fram hjá hæstv. dómsmrh. þá er ekki hægt að sjá annað en að sú vernd sé tryggð með lögum og eins kom það fram hjá hv. fyrirspyrjanda.

Ástæða þessarar fyrirspurnar og tilurð vekur mann dálítið til umhugsunar. Það hefur ekkert farið leynt að hv. fyrirspyrjandi hefur haft sérstaka löngun til þess að koma höggi á ákveðið fyrirtæki í landinu, Íslenska erfðagreiningu, og það skyggir dálítið á umræðu eins og hér fer fram. Ekkert hefur komið fram um það að hjá þessu fyrirtæki hafi nokkur óeðlileg starfsemi farið fram og ég veit ekki betur en að þeir sem þar starfa hafi lagt sig alla fram um það að upplýsa og jafnvel boðist til þess að kosta sérstakan starfsmann hjá tölvunefnd.