Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 11:05:44 (3437)

1998-02-05 11:05:44# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[11:05]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Fyrir Alþingi liggja ein níu þingmál sem varða eitt og sama málið, skoðað frá ýmsum hliðum, þ.e. eignarhald á landi og landgæðum, ákvarðanir um stjórnsýslu á hálendinu, ákvarðanir um nýtingu landgæða og ákvæði um umhverfisvernd. Öll þessi þingmál fjalla um sama málefnið sem er eitt það stærsta sem hefur komið til umræðu og afgreiðslu á Alþingi um langan aldur.

Þessi frv. eru það frv. sem hér er rætt, stjfrv. um þjóðlendur, en meginefni þess er í fyrsta lagi að skilgreina hugtök um eignarrétt á landi og landgæðum, eins og fram kemur í 1. gr. frv. Í öðru lagi að einskismannsland skuli lýst alþjóðareign og nefnt þjóðlendur. Í þriðja lagi hvernig fara eigi að því að draga mörk eignarlanda og þjóðlendna og er þá farið eftir fyrirmyndum frá Noregi en þar voru þessi mörk dregin áður en umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir hófust þar til að koma í veg fyrir deilur og ágreining milli aðila. Í fjórða lagi er meginefni frv. að fjalla um hver skuli fara með stjórnsýslumál á hálendinu.

Í frv. félmrh., um breytingu á sveitarstjórnarlögum, sem hæstv. félmrh. hefur þegar dregið inn í umræðuna, er gert ráð fyrir þeirri stjórnsýslu á hálendinu að því verði öllu upp á miðja jökla, um 40% alls Íslands, skipt upp í eins konar ræmur á milli 40 tiltölulega lítilla sveitarfélaga þar sem um 4% landsmanna búa, og að stjórn þess svæðis verði að verulegu leyti í höndum þessara sveitarfélaga en þó undir yfirstjórn forsrh. Þessi skipan mála mun hafa í för með sér margvíslega erfiðleika, t.d. þá að erfiðara verður eftir en áður að taka ákvarðanir, marka framtíðarstefnu um nýtingu þessa lands og þessara landgæða þegar búið er að skipta hálendinu í örsmáar ræmur sem 40 sveitarfélög hafa meiri og minni stjórnsýslu yfir.

Þá verða allar framkvæmdir á þessu svæði, t.d. virkjunarframkvæmdir, miklu erfiðari en ella þyrfti að vera því að þá þarf að ná samkomulagi við fjölmarga sveitarstjórnaraðila um nýtingu lands. Þannig háttar til ef menn líta á hugsanlega tekjuöflun sveitarfélaga af nýtingu slíks lands að t.d. ef um virkjunarmannvirki er að ræða fær það sveitarfélag tekjur í fasteignagjöldum þar sem stöðvarhúsið rís. Þess vegna getur verið að virkjun taki yfir svæði margra sveitarfélaga, með öðrum orðum að það þurfi að ná samkomulagi um byggingu háspennulínu sem liggur t.d. í landi sveitarfélaga a, b, c og d. Það þurfi að ná samkomulagi um virkjanalón sem liggur t.d. á svæði allra þessara sveitarfélaga og auk þess sveitarfélags e, f og g. En stöðvarhúsið, eina mannvirkið sem sveitarfélag hefur tekjur af, standi t.d. í umdæmi sveitarfélags h sem þarf ekki að taka á sig neinar aðrar umhverfiskvaðir en eru vegna byggingar stöðvarhússins. Það eitt fær þá tekjurnar en ná þarf samkomulagi við öll hin sveitarfélögin, þar sem virkjunarlón og háspennulínur liggja um, að þau heimili framkvæmdirnar. Þarf engum getum að því að leiða hvílíkir erfiðleikar yrðu á slíkum framkvæmdum.

Þessu máli hæstv. félmrh. tengist síðan mjög umdeilt svæðisskipulag á hálendinu þar sem m.a. hefur komið fram að í því svæðisskipulagi sem nú liggur fyrir hafa menn verið að geta sér til um virkjunarmöguleika sem enginn mér vitandi hefur haft í frammi heldur eru einvörðungu tilbúningur þeirra aðila sem svæðisskipulagið unnu og auk þess gengið út frá ýmsum breytingum á mannvirkjum sem þegar hafa verið heimilaðar án nokkurs samráðs eða vitundar þeirra sem verkið eiga að vinna. Þá hefur ekki heldur, áður en svæðisskipulagið var gert, nein stefna verið mótuð af þeim sem á að hafa forræði yfir þjóðlendunum, þ.e. ríkinu, um nýtingu lands eða landgæða á þessum svæðum, en forsenda t.d. fyrir skipulagi sveitarfélaga er, samkvæmt lögum þar um, að skipulagið sé í samræmi við landnýtingaráætlanir sveitarfélagsins sem þurfa að liggja fyrir áður en frá skipulaginu er gengið. Engin slík stefnumótun hefur hins vegar farið fram um þetta svæði af hálfu ríkisins, þ.e. ríkisstjórnar né Alþingis, þannig að það svæðisskipulag sem byggt hefur verið upp á þeim grunni er verulega gallað því að öll sú stefnumótun um nýtingu lands og landgæða sem verður að fara fram áður en frá skipulagi af þessu tagi er gengið hefur ekki átt sér stað.

Þá er um að ræða frv. til laga um eignarhald og nýtingu auðlinda í jörðu frá hæstv. iðnrh. en meginefni þess frv., sem er á dagskrá í dag en hefur enn ekki verið rætt, er að allar auðlindir á einkalandi skuli teljast einkaeign hvort sem um er að ræða auðlindir sem eru nýttar í dag eða auðlindir sem eru ekki nýtanlegar af einum einstaklingi heldur aðeins fyrir sameiginlegt átak þjóðarinnar eða með fjársterkum framkvæmdaaðila. Þetta er að mínu mati einhver mesta eignatilfærsla sem orðið hefur á auðlindum, sem eru í vitund þjóðarinnar sameign okkar allra, að því skuli slegið föstu í eitt skipti fyrir öll í slíku frv. að slíkar auðlindir, finnist þær á landi í einkaeign, skuli framvegis teljast einkaeign viðkomandi landeiganda.

Í frv. hæstv. iðnrh. er umhverfismat mjög vanrækt og eftirliti mjög ábótavant vegna þess að bókstaflega er gert ráð fyrir því í frv. að einkalandeigandi sem hyggst nýta sér einkaeign sína á auðlindum í landi sínu þurfi nánast engin umsvif að hafa áður en hann hefst handa, hvorki að láta framkvæmdir fara í umhverfismat né leita eftir leyfum.

Þá eru tvö frv. 14 þingmanna jafnaðarmanna, Kvennalistans og Kristínar Ástgeirsdóttur um virkjunarrétt fallvatna og um auðlindir í jörðu og gjald fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda.

[11:15]

Þetta frv. greinir verulega á við þjóðlendufrumvarp forsrh., að maður tali ekki um frv. iðnrh. sem ég minntist á áðan, því að þau frumvörp gera ráð fyrir því að ef tekið er gjald fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda, þá verði því öllu ráðstafað til þess að sjá um umbætur og aðgerðir á því svæði þar sem auðlindin er numin. Það er ekki gert ráð fyrir því að til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar renni ein króna af þeirri gjaldtöku sem heimiluð er í frumvörpum um þjóðlendur og í frv. hæstv. iðnrh. og er þetta auðvitað í algjörri og hróplegri andstöðu við frv. okkar 14 þingmanna sem gerir ráð fyrir því að mótuð verði sameiginleg auðlindastefna um sameiginlegar auðlindir til lands og sjávar og tekin upp sú sjálfsagða krafa að þjóðarheildin fái hlutdeild í arði af nýtingu þessara auðlinda, hvort sem það eru orkulindir í jörðu eða fiskurinn í sjónum, með greiðslu auðlindagjalds til þjóðarinnar af þeirra hálfu sem þessar auðlindir nýta.

Þá er einnig gert ráð fyrir því í frv. okkar fjórtánmenninganna að allar auðlindir í jörðu og á, sem í huga þjóðarinnar eru sameign okkar allra, verði lýstar sameign þjóðarinnar en ekki, eins og gert er ráð fyrir í frumvörpum ríkisstjórnarinnar, að tekin séu af tvímæli í þá átt að allar auðlindir, allt niður fyrir möttul jarðar, sem fyrirfinnast í landi einstaklings, hvort sem hann hefur nokkur færi um að nýta þær sjálfur eða ekki, verði lýstar einkaeign, þ.e. að Ísland verði einkavætt að þessu leyti eins og framast eru föng á.

Í þessum frumvörpum okkar eru líka miklu skýrari ákvæði en í frv. ríkisstjórnarinnar um umhverfisvernd, þar sem gert er ráð fyrir því að allt frá því að veitt sé leitarleyfi fyrir auðlindum, rannsóknarleyfi fyrir auðlindum og nýtingarleyfi fyrir auðlindum, skuli umhverfismat fara fram án tillits til þess hvort sú nýting, þær rannsóknir eða sú leit eigi sér stað á landi einstaklings í einkaeigu eða á landi í sameign þjóðarinnar.

Auk þessara frumvarpa sem ég hef nefnt liggja önnur frumvörp fyrir Alþingi um sömu efni. Það er frumvarp til laga sem er á dagskrá þessa þingfundar, um breyting á stjórnarská frá Ragnari Arnalds, um sameign þjóðarinnar á auðlindum og það eru frumvörp sem Alþb. hefur flutt undir forustu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um orku fallvatna og um jarðhitaréttindi.

Öll þessi nýju þingmál snerta sama stóra málið og verða ekki afgreidd nema í samhengi. Þess vegna legg ég til, virðulegi forseti, að þessum málum öllum verði vísað í sérnefnd sem samkvæmt ákvæðum þingskapa er heimilt að kjósa. Þannig að í stað þess að félmn. fjalli um bráðabirgðaákvæði um stjórnsýslu á hálendinu, allshn. fjalli um sama mál og þjóðlendufrumvarp forsrh. og iðnn. fjalli um málefni er varða nýtingu auðlinda í jörðu, þar á meðal á þessu sama hálendi, verði því ákvæði þingskapa beitt að kjörin verði sérstök þingnefnd til þess að taka öll þessi mál til skoðunar því að þau varða eitt og sama stóra málið og að hv. félmn., sem þegar hefur fengið frv. hæstv. félmrh. til umræðu og afgreiðslu, fallist á að vísa bráðabirgðaákvæðinu í því frv. sem hæstv. ráðherra var að kynna nýjar tillögur um, til þessarar sömu sérnefndar til afgreiðslu. Ég held að þetta sé miklu skynsamlegra fyrirkomulag, virðulegi forseti, heldur en að skipta þessum málum sem varða einn og sama stóra hlutinn, upp í þrjár eða jafnvel fjórar nefndir Alþingis eins og ég lít svo á að gera verði þegar t.d. stjórnarskrárfrv. hv. þm. Ragnars Arnalds verður vísað til nefndar því þá er eðlilegt að það fari til sérnefndar. Og ef sá háttur yrði á hafður væru fjórar nefndir á Alþingi að fjalla um sama málið. Ég ítreka því þá tillögu mína, virðulegi forseti, sem ég held að sé skynsamleg gersamlega án tillits til þess hvaða afstöðu þingmenn hafa í þeim umdeildu málum sem hér koma til afgreiðslu, að þessum málum öllum verði vísað til einnar og sömu nefndarinnar. Ég fer þess líka á leit, virðulegi forseti, að þau frumvörp sem kynnt voru á þingfundi í dag, frá 14 þingmönnum í þingflokki jafnaðarmanna, þingflokki Kvennalista og frv. sem Kristín Ástgeirsdóttir stendur að, verði tekin sem allra fyrst á dagskrá til þess að þau geti orðið samferða afgreiðslu þessara mála til einnar og sömu nefndar, sérnefndar sem kosin yrði samkvæmt þingsköpum.

Mál það sem hér er til umræðu á sér langa sögu á Alþingi eins og m.a. kom fram í máli hæstv. forsrh. Fyrst kom það til kasta Alþingis með fossamálinu svokallaða sem kom inn á borð alþingismanna árið 1919, en síðan má segja að þessi hálendismál í einni eða annarri mynd hafi verið nánast ár hvert á borði þingsins með einum eða öðrum hætti, eins og fyrrv. þingmaður sem hér var í salnum ekki alls fyrir löngu tók gjarnan til orða.

Þingmenn Alþfl. og þingmenn Alþb. hafa um áratuga skeið flutt mál af þessum toga hér í þingsölum. Þingmenn Alþfl. fluttu slíkt mál í fyrsta skipti árið 1970. Stefnan sem mörkuð var í því fyrsta þingmáli sem flutt var af þingmönnum Alþfl. fyrir 28 árum síðan, var eins og segir hér, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að leggja fyrir ríkisstjórnina að hún láti sérfróða menn semja frumvarp eða frumvörp að lögum um eignarráð og eignarréttindi yfir óbyggðum landsins, stöðuvötnum í byggð og óbyggðum, fallvötnum, jarðhita og hvers konar námum og vinnslu verðmæta úr jörðu.

Við samningu frumvarps eða frumvarpa að lagagerð þessari verði m.a. athugað:`` --- Svo kemur töluliður 1 sem ég vitna orðrétt í:

,,Hvort ekki sé rétt að lýsa allt hálendi landsins og óbyggðir alþjóðareign, að svo miklu leyti sem skýlausar eignarheimildir annarra aðila en ríkisins liggja ekki fyrir, og hvernig kveða megi á, svo glöggt sé, um mörk þessarar ríkiseignar.``

Þetta er kjarni þess máls sem flutt er hér í dag. Það má segja að þessi tilvitnaða grein gæti verið greinargerð frv. hæstv. forsrh. um þjóðlendur vegna þess að þetta er nákvæmlega það sem nú er verið að reyna að gera 28 árum eftir að þingmenn Alþfl. hófu að flytja þetta mál á Alþingi. Það er ekki svo að það hafi vantað slíkan málatilbúnað á Alþingi á þessum 28 árum, hvorki af hálfu okkar alþýðuflokksmanna né af hálfu alþýðubandalagsmanna svo dæmi sé tekið. Á hverju einasta ári eftir árið 1970 var sama tillaga flutt af þingmönnum Alþfl. en fékk ekki hljómgrunn á Alþingi vegna andstöðu þeirra þingmanna sem þá börðust fyrir sérhagsmunum á kostnað almannahagsmuna, þ.e. vegna andstöðu þingmanna Sjálfstfl. og Framsfl. Það hefur tekið 28 ár að fá þá til að skipta um skoðun.

Það er mjög eðlilegt að það hafi komið mönnum á Íslandi nokkuð á óvart þegar Hæstiréttur, í tveimur málum um eignarhald á afréttum og hálendi, komst að þeirri niðurstöðu að það sem einstaklingar ekki ættu, þyrfti að taka af öll tvímæli um að ríkið ætti vegna þess að það er sú almenna regla sem gildir á hinum Norðurlöndunum. Það sem einstaklingur ekki á, það á þjóðin sameiginlega. Sá var t.d. skilningur manna, virðulegi forseti, þegar fossamálið og deilan um það hófst hér á Alþingi, þ.e. að ekki væru nein (Forseti hringir.) tvímæli um að það sem einstaklingar ekki ættu, ætti þjóðin sameiginlega. Hæstiréttur komst hins vegar að annarri niðurstöðu, virðulegi (Forseti hringir.) forseti. Þess vegna þarf að flytja það frv. sem hæstv. forsrh. hefur flutt og afgreiða það. Ég hef ýmsar athugasemdir að gera við efni þess en í meginatriðum málsins er ég stuðningsmaður þess frv.