Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 14:54:16 (4099)

1998-02-19 14:54:16# 122. lþ. 72.5 fundur 425. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[14:54]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm., sem rak hér inn höfuðið, sennilega til að greiða atkvæði, hefur ekki alveg náð að lesa út úr 3. mgr. í 3. gr. II. kafla frv. en hún er svohljóðandi, virðulegi forseti:

,,Önnur jarðefni sem kunna að finnast á yfirborði lands eða í jörðu, þar á meðal málmar, málmblendingar, kol önnur en surtarbrandur, jarðolía og jarðgas, eru eign ríkisins`` o.s.frv. Þarna er sagt að allt það sem upp er talið, þar á meðal jarðolía og jarðgas og öll önnur kol en surtarbrandur, skuli teljast eign ríkisins. Hv. þm. leggur þann skilning í málið að auk þess að surtarbrandur sé undantekning frá kolum, þá eigi einnig að fella þar undir jarðolíu og jarðgas. Hv. þm. veit það væntanlega að hvorki jarðolía né jarðgas teljast til kola. Ég skil ekki, virðulegi forseti, hvernig hv. þm. fékk þessa merkingu út úr frv. En það er nú kannski ekkert skrýtið að það sé fyrir ofan eða neðan minn skilning að ná því samhengi.