Innlend metangasframleiðsla

Miðvikudaginn 04. mars 1998, kl. 15:06:44 (4334)

1998-03-04 15:06:44# 122. lþ. 79.2 fundur 357. mál: #A innlend metangasframleiðsla# þál., Flm. KPál
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 122. lþ.

[15:06]

Flm. (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni og Hjálmari Árnasyni fyrir mjög jákvæðar undirtektir við tillöguna. Það gott til þess að vita að mál sem þessi eru til umræðu á mörgum stöðum. Ég hef kynnst störfum þeirra beggja. Við þekkjum störf þau sem unnin hafa verið á Hvolsvelli við að nýta seyru til þess að ná metangasi og aðra möguleika sem eru tengdir þessu sérstaka máli og teknir sérstaklega til í tillögunni. Seyra er gríðarlega mikill orkugjafi. Þar var sannarlega unnið mikið brautryðjendastarf sem hefur orðið öðrum til eftirbreytni og er það alltaf mjög vel og því ber að minnast á það sérstaklega.

Ég tek undir með hv. þm. Hjálmari Árnasyni að við eigum að skoða fordómalaust allar leiðir sem er mögulega hægt að fara í þessum efnum hér á landi. Þar skiptir öllu máli að allt sé sett í púkkið þannig að ekki sé hver að bauka út af fyrir sig. Gleymum því ekki að betur sjá augu en auga. Ég fagna því að ákveðin nefnd á vegum iðnrn. er að skoða þessi mál sérstaklega og ég hef heyrt af þeirri nefnd og þeim störfum sem hv. þm. Hjálmar Árnason hefur verið að sinna varðandi þau mál og þá sérstaklega vetnið.

Svo við tölum lítillega meira um metangasið þá er það rétt eins og hv. þm. sagði að afleidd áhrif af notkun metangass eru mjög mikil og mun meiri en Kyoto-ráðstefnan hafi samþykkt. Það er viðurkennt af Sameinuðu þjóðunum að metangasið er t.d. talið vera ellefu sinnum meira mengandi en venjulegt CO2 en þó viðurkennt að þegar afleidd áhrif þess eru skoðuð eru áhrifin tuttugu og tvisvar sinnum meiri en af CO2. Þetta er því alveg feikilega sterk gastegund, sem mjög nauðsynlegt er að virkja. Menn hafa reynt á ýmsan hátt að draga fram einhverjar einkennilegar formúlur til að nýta þetta úr dýrum og öðru slíku en ég ætla ekki að fara út í slíka sálma, þetta er grafalvarleg umræða.

Ég minni enn og aftur á að umhverfisvernd kostar peninga. Mér finnst að við Íslendingar höfum aldrei viljað viðurkenna að það kostar peninga að draga úr mengun, það er dýrt að finna leiðir. Stjórnvöld þurfa að beita sér í slíkum málum af alvöru og gera ráð fyrir því á fjárlögum hvert sinn að sá málaflokkur sem lýtur að fyrirbyggjandi ráðstöfunum, leiðum til að draga úr mengun, að fjármunir verði ekki af skornum skammti. Það mun koma í hausinn á okkur með margföldum krafti síðar að vanrækja umhverfismálin.