Húsnæðismál

Mánudaginn 09. mars 1998, kl. 15:40:49 (4454)

1998-03-09 15:40:49# 122. lþ. 82.16 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 122. lþ.

[15:40]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Í umræðunum á föstudaginn var komu fram nokkur atriði sem þarf að leiðrétta. Ég geri mér nú engar gyllivonir um að það beri árangur en það er rétt að gera tilraun, því að sumir telja allt alvont sem frá ríkisstjórninni kemur.

Því hefur verið haldið fram að hér sé um stefnu Sjálfstfl. að ræða. Það er rangt. Hér er um að ræða stefnumörkun sem sjálfstæðismenn hafa fallist á. Ég er að vísu ekki vel lesinn í landsfundarsamþykktum sjálfstæðismanna en þeir hafa verið að tala um einkavæðingu. Hér er ekki um einkavæðingu húsnæðiskerfisins að ræða. Þeir hafa verið að tala um að afnema ríkisábyrgð á húsbréfum og það er ekki heldur gert. Ríkisábyrgðin er áfram á húsbréfum og Íbúðalánasjóður er hvorki háeffaður né einkavæddur og verður það ekki meðan ég er í félmrn.

Hv. 13. þm. Reykv. talaði mikið um markaðsvæðingu. Markaðsvæðingin fór náttúrlega fram þegar húsbréfakerfið var tekið upp. Það var markaðsvæðing. Hér er einungis um viðbót við húsbréfakerfið að ræða og það tiltölulega lítið viðbótarskref.

Hv. 13. þm. Reykv. sagði að húsbréfakerfið hefði verið tekið upp í andstöðu við okkur framsóknarmenn. Ég veit ekki betur en við höfum átt aðild að þeirri ríkisstjórn sem tók upp húsbréfakerfið og ég man ekki betur en að ég hafi greitt því atkvæði hér við þrjár umræður á Alþingi og við framsóknarmenn.

Menn hafa verið að gagnrýna tilurð þessa frv. Ég tel að það hafi verið mjög vandlega og eðlilega unnið að frumvarpsgerðinni. Hún er byggð á starfi marga nefnda og fjöldi manna hefur komið að þessu nefndarstarfi frá stjórnarflokkum, frá ráðuneytum og frá sveitarfélögum, t.d. formaður húsnæðisnefndar Reykjavíkur, forstjóri Húsnæðisstofnunar, Sigurður E. Guðmundsson, stjórnarformaður Húsnæðisstofnunar, Hákon Hákonarson og varaformaður Húsnæðisstofnunar Gunnar S. Björnsson. Verkalýðshreyfingin hefur komið að málinu. Kristján Gunnarsson í Keflavík vann að undirbúningi málsins. Og svo eru menn að tala um að ekkert samráð hafi verið haft við verkalýðshreyfinguna.

Ég vil benda á að samþykkt sambandsstjórnar ASÍ um félagslega húsnæðiskerfið frá 20. nóv. 1996 er beinlínis lögð til grundvallar þessu frv. Og ég ætla, herra forseti, að fá að lesa hérna áherslupunktana í samþykkt sambandsstjórnar ASÍ:

,,Sambandsstjórnarfundur leggur til eftirfarandi breytingar á félagslegum íbúðalánum:

Veitt verði sérstök lán til þeirra sem uppfylla skilyrði Byggingasjóðs verkamanna um lán úr sjóðnum.`` Þetta er akkúrat verið að gera.

,,Lánin verði með jöfnum afborgunum eða jafngreiðslu til allt að fjörutíu og þriggja ára.`` Hér er að vísu miðað við 40 ár en ekki 43 ár og það er pínulítill mismunur en ég skil nú ekki í að það geti verið stórmál.

,,Lánin verði að hámarki 90% af kaupverði.`` Þetta er nákvæmlega það sem við erum að gera.

,,Að vextir hækki og lækki eftir tekjum en verði að öðru leyti svipaðir og verið hefur.`` Hér er farin örlítið önnur leið vegna þess að vaxtabæturnar eru látnar taka á móti sveiflunum.

[15:45]

,,Lántaki velji sér íbúð sem uppfyllir lágmarksskilyrði lánveitanda um gæði íbúðar.`` Þetta er í frv.

,,Ekki verði gert út um kaup nema lánveitandi samþykki veðhæfi.`` Þetta er í frv.

,,Lántaki beri sömu ábyrgð og skyldur og sá sem er á almennum markaði.`` Nákvæmlega í frv.

,,Eins og lántaki velur sér íbúð velur hann sér kaupanda þegar hann selur fasteignina, enda ekki kaupskylda sveitarfélags.`` Allt saman í frv.

,,Lántaki flytji lán sitt á aðra viðurkennda íbúð eða greiði það upp við sölu fasteignar.`` Þetta er nákvæmlega það sem sambandsstjórn ASÍ lagði til.

Hver einasti stafkrókur af því sem sambandsstjórn ASÍ ályktaði um og samþykkti er í þessu frv. með einu fráviki. Sambandsstjórn ASÍ miðaði við 43 ára lánstíma. Hér er miðað við 40 ára lánstíma en mér finnst það ekki stórmál.

Að sjálfsögðu lögðum við samþykkt ASÍ til grundvallar þessari vinnu. Hún var grundvallarplagg undir vinnunni. Ég hef óskað eftir að fá athugasemdir ASÍ og mun skoða þær vandlega og við munum fara vandlega yfir þær athugasemdir sem ASÍ kemur til með að gera við þetta mál í félmrn.

Það má svo bæta því við að fyrrv. hagfræðingur ASÍ og helsti húsnæðismálasérfræðingur, Guðmundur Gylfi Guðmundsson, fór yfir frv. og gerði athugasemdir sem teknar voru til greina. Einnig Einar Jónsson, yfirlögfræðingur Húsnæðisstofnunar.

Það er náttúrlega spurning hvar eðlilegt er að verkalýðshreyfing komi að húsnæðismálum. Ég vitna til þess að hv. 13. þm. Reykv. tók fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar út úr stjórn Húsnæðisstofnunar með lögum sem voru lögð fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi og það var út af fyrir sig eðlilegt vegna þess að hlutverk verkalýðshreyfingarinnar við uppbyggingu húsnæðiskerfisins hefur breyst verulega.

Ég hef reynt að halda góðum friði við Húsnæðisstofnun. Ég hef ekki alltaf verið samþykkur öllu sem þar hefur verið gert en ég hef ekki verið með neinn hávaða eða árásir á Húsnæðisstofnun og ég hef ekki tekið hv. 13. þm. Reykv. til fyrirmyndar að liggja í endalausum illindum við Húsnæðisstofnun eins og aðrar stofnanir sem undir hana heyrðu á hennar ráðherraferli. Ég er hérna með úrklippur frá þeirri tíð, úr Tímanum 6. maí 1993: ,,Svarar Húsnæðisstofnun ekki bréfum frá Jóhönnu?`` Svo er önnur úrklippa úr Morgunblaðinu frá 1993: ,,Samstarfsörðugleikar félagsmálaráðherra og Húsnæðisstofnunar.`` Og verkalýðshreyfingin krafðist afturköllunar á vaxtahækkuninni sem hæstv. þáv. félmrh. stóð fyrir, og nóg um það.

Þá er komið að þætti sveitarfélaganna. Frumvarpið er unnið í nánu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga og húsnæðisnefnd Reykjavíkur en formaður hennar, Páll R. Magnússon, hefur tekið þátt í þessu starfi frá upphafi til enda. Þátttaka sveitarfélaganna breytist talsvert með nýjum lögum. Kaupskyldan fellur niður á íbúðum sem keyptar eru eða byggðar eftir 1. janúar 1999 og kaupskylda sveitarfélaganna á íbúðum í félagslega eignaríbúðakerfinu fellur niður við fyrstu sölu eftir gildistöku laganna. Nú eru innleystar um 10% félagslegra íbúða árlega þannig að gera má ráð fyrir að eftir tíu ár verði lítið eftir að félagslegum eignaríbúðum með kaupskyldu. Núverandi íbúar félagslega kerfisins halda þeim réttindum að geta skilað íbúðum ef þeir kjósa og það verður að gera ráð fyrir að margir velji þann kost vegna þess að nýja íbúðalánakerfið er hagstæðara. Því má búast við að innlausnaríbúðum fjölgi mjög. Sveitarfélögum er auðveldað að gera þær að leiguíbúðum með því að veita lán á 1% vöxtum til 50 ára, enda greiði þau upp lánin við Byggingarsjóð verkamanna. Það kann að vera að einhvers staðar verði offramboð á innlausnaríbúðunum og þess vegna var opnaður sá möguleiki fyrir húsnæðisnefndir sveitarfélaga að beina tímabundið tilteknum hluta árlegra viðbótarlána til að mæta endursölu innleystra íbúða, enda taki söluverð slíkra íbúða mið af markaðsverði íbúða á viðkomandi svæði. Þetta geta menn séð á bls. 16 í bráðabirgðaákvæði III. Og vilji viðkomandi kaupandi ekki una því að fara í íbúð sem innleyst hefur verið getur hann skotið máli sínu til faglegrar kærunefndar. Það hefur ekki unnist tími til að ganga frá endanlegu samkomulagi við sveitarfélögin varðandi framtíðarfyrirkomulag á lánum til leiguíbúða. Því á að vera lokið fyrir árslok árið 2000. Þess vegna eru teknar frá 75 millj. árlega í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu til að mæta niðurgreiðslum vegna innlausnaríbúðanna. Síðan er það Alþingis að ákveða við fjárlagagerð, eins og verið hefur, hvað menn telja sér fært að verja til niðurgreiðslu vaxta vegna kaupa eða byggingar nýrra leiguíbúða.

Það er fráleitt að tala um það að heildarfjölgun leigu\-íbúða verði einungis 50 á næstu tveimur árum. Það svarar engan veginn þörfinni. Reykjavíkurborg áformar t.d. að kaupa eða byggja 100 litlar leiguíbúðar strax til þess að svara þörf félagsbústaða fyrir þess háttar leiguíbúðir. Og nú eru húsaleigubætur komnar á allt leiguhúsnæði og í öllum sveitarfélögum þannig að leigumarkaðurinn á að vera meira aðlaðandi fyrir tekjulága en hann hefur verið.

Það er engin breyting fyrirhuguð á aðgengi Öryrkjabandalagsins eða námsmannasamtaka að lánsfé til byggingar leiguíbúða og það er opnað fyrir fleiri aðila, til að mynda leiguíbúðafélög.

Sveitarstjórnirnar kjósa húsnæðisnefndir, og í gildandi lögum er talað um að fulltrúar stærstu samtaka launamanna eigi að eiga sæti í húsnæðisnefndunum. Það er ekki skilgreint í lögunum við hverja er átt. Það þótti óþarfi að halda þessu ákvæði í lögunum enda má gera ráð fyrir að sveitarstjórnir kjósi í húsnæðisnefndir þannig að þar eigi sjónarmið launamanna aðgang. Ég vitna til frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem hæstv. þáv. félmrh. og núv. 5. þm. Reykn., Rannveig Guðmundsdóttir, bar fram á 118. löggjafarþingi. Gert var ráð fyrir því í frv. að verkalýðsfélög ættu ekki sérmerkta fulltrúa í húsnæðisnefnd, og 4. gr. frv. hljóðaði svo, herra forseti:

,,Í sveitarfélögum með 400 íbúa eða fleiri skal sveitarstjórn skipa húsnæðisnefnd að afloknum hverjum sveitarstjórnarkosningum. Nefndarmenn skulu vera þrír, fimm eða sjö eftir ákvörðun sveitarstjórnar og jafnmargir til vara.

Nefndin fer með stjórn og samræmingu félagslegs húsnæðis á vegum sveitarfélagsins í umboði sveitarstjórnar og veitir almennar upplýsingar og ráðgjöf varðandi húsnæðismál.

Nefndin skiptir sjálf með sér verkum.``

Svo hljóðaði 4. gr. frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, borin fram á 118. löggjafarþingi af þáv. félmrh., Rannveigu Guðmundsdóttur.

Alþingi breytti þessum áformum fyrirrennara míns og fulltrúar launamanna voru teknir inn í nefndirnar aftur. En þetta var skoðun hv. 5. þm. Reykn. þá. Framsfl. hefur reyndar valið menn úr verkalýðsarmi flokksins til þess að sitja í stjórn Húsnæðisstofnunar. Hákon Hákonarson er formaður stjórnar Húsnæðisstofnununar. Hann er líka formaður Félags járniðnaðarmanna og Guðmundur Gylfi Guðmundsson, sem til skamms tíma hefur verið hagfræðingur ASÍ, er hinn fulltrúi Framsfl. Samkvæmt þessum nýju lögum geta verkalýðsfélögin sjálf eða t.d. lífeyrissjóðir byggt leiguhúsnæði ef þeir telja þörf á og notið 50 ára lána á 1% vöxtum. Stjórn Íbúðalánasjóðs skal sjá til þess að leiguhúsnæði sem lánað er út á uppfylli kröfur um gæði. Það er því miður ávani núv. stjórnarandstöðu að telja stjórnarsinna alla með tölu ,,bandítta`` og þó sérstaklega ríkisstjórnina. Þessu verður maður náttúrlega að venjast og gera ráð fyrir að öllum málum, hversu góð sem þau eru, sé tekið með ókvæðum af núv. stjórnarandstöðu --- eða reyndar flestum í núv. stjórnarandstöðu. Þeir eiga nú ekki alveg allir óskilið mál. En ég tel að það sé of hátt reitt til höggs ef stjórnarandstæðingar telja sveitarstjórnarmenn upp til hópa ,,bandítta`` sem vilja níðast á tekjulágum. Sveitarfélögin hafa áfram mjög ríkar skyldur í húsnæðismálum þrátt fyrir að kaupskyldunni sé af þeim létt. Um skyldu sveitarfélaganna er kveðið á í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga í 45. gr. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.``

Það vill nú svo til að lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga eru til endurskoðunar einmitt þessa mánuðina og ef mönnum sýnist svo, þá er hægt að styrkja þessa 45. gr. og leggja enn ríkari skyldur á sveitarfélögin. Kærunefndin mun enn fremur að sjálfsögðu taka til meðferðar kvartanir íbúa sveitarfélaga sem telja sitt sveitarfélag ekki sinna húsnæðismálum sem skyldi og ég mun ekki hlífa mér við að minna sveitarfélögin á skyldur sínar í þessu efni og félmrh. hefur náttúrlega ef allt um þrýtur alltaf möguleika á að þrýsta á sveitarfélögin varðandi greiðslur úr jöfnunarsjóði.

Það hefur verið nokkuð fjallað um það hvaða áhrif ný lög mundu hafa á húsnæðisverð. Mönnum ber ekki fullkomlega saman í því efni. Sumir telja að margar íbúðir sem komi til innlausnar komi til með að lækka markaðsverð á viðkomandi svæði. Aðrir telja að aukin eftirspurn eftir frjálsu félagslegu húsnæði komi til með að hækka fasteignaverðið tímabundið en öllum ber þó saman um að áhrifin vari ekki lengi og jafnvægi komist fljótlega á.

Sveitarfélögin hafa auðvitað í hendi sér, eins og þau hafa í dag, hve mörg viðbótarlán verða veitt í sveitarfélaginu því það verður ekki gert nema þau reiði fram í varasjóð 5% af upphæð viðbótarlánsins. Þetta er engin breyting. Það hefur ekki ein einasta félagsleg íbúð verið byggð eða keypt nema samkvæmt ósk viðkomandi sveitarfélags og þau hafa orðið að reiða fram fjármuni vegna hvers íbúðarláns úr Byggingarsjóði verkamanna.

[16:00]

Sú staðhæfing hefur gengið hér ljósum logum að sama greiðslumat eigi að vera á félagslegu lánþegunum og þeim sem eru í almenna kerfinu. Þetta eru algerlega tilhæfulausar staðhæfingar. Greiðslumatið í almenna kerfinu er miðað við 25 ára endurgreiðslutíma. Í félagslega íbúðalánakerfinu er miðað við 40 ára endurgreiðslutíma og greiðslumatið verður miðað við það þannig að árleg greiðslubyrði verður hlutfallslega léttari. Greiðslumatið bíður endurskoðunar. Nefnd hefur skilað áliti. Hún leggur til að nýtt greiðslumat taki mið af tekjum, eignum, skuldum og framfærsluþörf og reglur um nýtt greiðslumat hafa ekki verið settar, enda er það samkvæmt þessu frv. verkefni stjórnar nýs Íbúðalánasjóðs.

Greiðslumatið hefur verið óáreiðanlegt, því miður, og óvandað og nauðsyn að gera það raunhæfara og það er engum greiði gerður með því að freista hans til að reisa sér hurðarás um öxl eða freista fátæks fólks til að taka á sig skuldbindingar sem viðkomandi fær ekki risið undir. Ég hef heyrt hinar lygilegustu sögur um það hvernig menn hafi komist í gegnum greiðslumat eða verið aðstoðaðir við að komast í gegnum greiðslumat þannig að greiðslumatið hefur verið tóm markleysa.

Talað hefur verið um aukakostnað sem afleiðingu af nýju kerfi. Þetta er náttúrlega mjög orðum aukið. Sölulaun á almennum markaði eru á bilinu 1 til 2%, algengast mun vera 1,5%. Lántökugjald í húsbréfakerfinu er nú 1% af lánsfjárhæðinni og stimpilgjald er 1,5% af lánsfjárhæð. Það er rétt að benda á í þessu sambandi að lántökukostnaður, þar með talinn árlegur og tímabundinn fastakostnaður, þóknanir, stimpilgjöld og þinglýsingarkostnaður myndar stofn til vaxtabóta.

Ef við lítum á félagslegar íbúðir í núgildandi kerfi, þá þarf eigandi íbúðar að greiða 0,5% af kaupverði til húsnæðisnefndar við kaup og 0,5% við sölu eða samtals 1%. Lántökugjaldið er hálft prósent af lánsfjárhæðinni. Tæknideild Húsnæðisstofnunar tekur gjald vegna tæknilegra umsagna, kostnaðareftirlits og lokaúttekta á félagslegum íbúðabyggingum sem nemur 0,75% af byggingarkostnaði og sveitarfélögunum er heimilt að leggja 2--6% þóknun fyrir umsýslu ofan á byggingarkostnað eða kaupverð hverrar félagslegrar íbúðar. Í nýja fyrirkomulaginu verður ekki tekið stimpilgjald af viðbótarlánunum og þóknun til tæknideildar fellur niður og þörf sveitarfélaga fyrir umsýslugjald kemur til með að minnka stórlega. Þá má benda á að fyrningarregla eldra kerfis rýrir eignina sjálfvirkt um 1% á hverju einasta ári ef húsnæði er byggt eftir 1980 en um 0,5% á íbúðum sem voru byggðar fyrir 1980. Íbúar nýja kerfisins sleppa við þessar reikningskúnstir og fá raunverð fyrir íbúð sína kjósi þeir að selja hana.

Hér hafa menn talað eins og ríkið ætli að hætta að leggja fé til félagslegrar aðstoðar í húsnæðismálum. Þetta er fjarstæða. Nýtt húsnæðiskerfi sparar í sjálfu sér hvorki ríkissjóði né sveitarfélögum peninga. Fjárhagsaðstoð ríkisins er færð öll í vaxtabætur en er ekki lengur fólgin bæði í vaxtabótum og niðurgreiðslu, með undantekningunni á lánunum til leigu\-íbúðanna. Þetta er miklu skynsamlegra og kemur viðkomandi betur að gagni og er ódýrara form á að koma aðstoðinni þiggjandanum til hagsbóta. Vaxtabætur verða samtímagreiðslur og koma til skuldajöfnunar áfallinna vaxta og afborgana, en ekki eftirágreiðsla eftir eitt til eitt og hálft ár. Vaxtabæturnar verða betri aðstoð, sérstaklega á fyrri hluta lánstímans og gagnast því sérstaklega ungu og félitlu fólki sem er að byrja búskap. Svo er frágengið að vaxtabætur verða ekki hreyfðar nema á ábyrgð félmrh. og eftir lagabreytingu á Alþingi. Í dag er hægt að hækka vexti í félagslega kerfinu með einni undirskrift félmrh. eins og hv. 13. þm. Reykv. gerði 1993 þegar hún hækkaði vextina úr 1% í 2,5% og í 4,9% og kollvarpaði fjárhagsáætlunum fjölda einstaklinga og svipti þá því hagræði sem þeir töldu sig hafa. Hún gekk nú líka svo gáfulega frá málinu að vextirnir gætu ekki lækkað aftur þótt tekjurnar lækkuðu. Henni þóknaðist heldur ekki að leiðrétta okurvextina af hlutaverðtryggðu lánunum og það var ég sem færði þá niður úr 9,75% niður í 6% en hvorki hún né hv. 5. þm. Reykn. sem báðar höfðu góðan tíma til þess og tækifæri.

Félagslega aðstoðin felst nú í rétti til viðbótarláns og ábyrgðar á því á kostnað sveitarfélaga og í bættum og samtímagreiddum vaxtabótum í stað vaxtabóta eftir á og niðurgreiðslu vaxta frá ríkinu. Ég fullyrði að opinber aðstoð við íbúa í nýju félagslegu kerfi verður ekki lakari en í núverandi kerfi heldur haldbetri og farsælli. Það er rétt að ekki komast allir inn í nýja kerfið sem komust í það gamla enda hefur reynslan kennt að að því kerfi var of greiður aðgangur. Fólk var ginnt til að undirgangast skuldbindingar sem það réð ekki við og stóð svo uppi stórskuldugt og á götunni. Krafan um 10% eigið fé er sanngjörn og fjölskyldunum fyrir bestu. Þetta nýja kerfi er miklu líklegra til að skapa fjölskyldunum í landinu farsælt líf og viðunandi efnahag en gamla kerfið. Ég er stoltur af því hvað hér er að gerast í húsnæðismálum fjölskyldnanna í landinu.

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur málefnalega ræðu enda þekkir hún til húsnæðismála. Hún sagði að þegar hún var í húsnæðisnefnd Reykjavíkur, þá hafi það verið happdrættisvinningur að fá úthlutun á félagslegri eignaríbúð. Ég vil biðja hv. þm. að hringja nú í einhverja sem hún þekkir og fengu þennan happdrættisvinning og spyrja þá hvað þeim finnist, hver sé reynsla þeirra af happdrættisvinningnum. Ég óttast að hún heyri í jafnmörgum sem ekki hrósa happinu lengur.

Hv. þm. spurði um Íbúðalánasjóðinn. Hann á að vera sjálfbær að öðru leyti en því að það verða tímabundin framlög til niðurgreiðslu vaxta vegna leiguíbúða. Styrkur hins nýja sjóðs felst í miklu eigin fé, 26 milljörðum og hann á því að eiga kost á bestu vaxtakjörum. Þar að auki getur hann skuldbreytt eldri lánum byggingarsjóðanna sem eru sum á háum vöxtum og þar að auki sparast verulegt fé vegna reksturs Húsnæðisstofnunar sem kostar um hálfan milljarð á ári.

Ég ætla ekki að fara að elta ólar við fáryrði hv. 13. þm. Reykv. sem hún viðhafði hér á föstudaginn. Hún hótaði því að standa í ræðustóli fram á sumar til að reyna að tefja afgreiðslu þessa frv. Það er huggulegt að hafa slíka stofuprýði sem hv. 13. þm. Reykv. hér í ræðustóli viðvarandi til frambúðar það sem eftir lifir þings.

Hv. 13. þm. Reykv. taldi að ég væri að taka við fyrirskipunum frá fjmrh. (Gripið fram í.) Ég tek ekki við fyrirskipunum frá fjmrh. en með okkur er gott samstarf og vinátta með frændsemi. Mér þykir engu minna vænt um ríkissjóð en hæstv. fjmrh. og okkur er báðum ljós nauðsyn þess að reka ríkissjóð með afgangi. Góðærið í landinu byggist öðru fremur á því að ríkisfjármál séu í lagi. Ef núv. ríkisstjórn hefði ekki haft siðferðisþrek til að koma ríkisfjármálunum í lag hefðu hagstæð ytri skilyrði ekki nýst þjóðinni til hagsældar. Hefði t.d. hagfræði hv. 13. þm. Reykv. fengið að ráða, að gera alltaf kröfur um botnlausa eyðslu, þá væri ekki 25% kaupmáttaraukning frá 1995--2000. Þá væri hér verðbólga á fullu skriði, þá færu skattar ekki lækkandi, hvað þá vextir. Ávöxtunarkrafa húsbréfa er komin niður fyrir 5% í fyrsta skipti og afföllin eru engin og því er spáð að vextir fari niður undir 4% innan skamms. Í fyrra jukust eignir heimilanna meira en skuldirnar um langt árabil. Þörfin fyrir félagsaðstoð sveitarfélaganna minnkar frá mánuði til mánaðar. Atvinnuleysi minnkar stöðugt og við verðum að flytja inn erlent vinnuafl í stórum stíl. Þetta bætir náttúrlega stórkostlega hag fjölskyldnanna í landinu.

Herra forseti. Ég held ég sé búinn að leiðrétta þau meginatriði sem fram komu í ræðum manna á föstudaginn. Ég veit hins vegar ekki hvort það geri nokkurt gagn eða hvort einhverjir hafa látið sér segjast.