Slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands

Fimmtudaginn 12. mars 1998, kl. 15:09:39 (4668)

1998-03-12 15:09:39# 122. lþ. 86.14 fundur 438. mál: #A slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands# frv., Flm. EOK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 122. lþ.

[15:09]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson):

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir og ég mæli fyrir er eins og annað frv. sem ég mælti fyrir á síðasta þingi, um slit á Eignarhaldsfélaginu Brunabótafélag Íslands. Greinargerðin sem fylgir þessu frv. er nokkurn veginn líka sú sama og fylgdi frv. á fyrra þingi. Í henni er vitnað til niðurstöðu á lögfræðilegu áliti sem gert var áður en núverandi lög um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands tóku gildi.

Herra forseti. Rétt er að fara nokkrum orðum um þetta, rifja aðeins upp, þó ekki sé í löngu máli. Ég vil gera grein fyrir því sem hér er um að ræða og hvernig á þessum málflutningi stendur.

Lögin um Brunabótafélag Íslands, fyrstu lögin, eru allt frá 1907. Þeim hefur oft verið breytt síðan, 1915, 1932, 1936, 1942 og 1955. Lögin frá 1955 voru reyndar í gildi lengst af með smábreytingum 1988, þar til lögunum var breytt með lögum nr. 68/1994.

Í niðurstöðu þeirrar lögfræðilegu skoðunar sem fór fram áður en Brunabótafélagi Íslands var breytt í Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, kemur skýrt fram að í öllum þeim lagagreinum sem gilt höfðu þann tíma sem Brunabótafélag Íslands starfaði hafi ávallt verið gert ráð fyrir því að Brunabótafélagið væri gagnkvæmt ábyrgðarfélag vátryggjenda, gagnkvæmt tryggingafélag. Í öllum þessum lögum er jafnframt gert ráð fyrir því að félagsmenn í Brunabótafélagi Íslands séu eigendur þeirra fasteigna sem þar eru tryggðar á hverjum tíma. Alla öldina er gengið út frá þessu grundvallaratriði í þeim lögum sem sett eru um félagið.

Álit þeirra lögfræðinga sem hér hafa um fjallað og ég veit að út frá því er undantekningarlaust gengið í allri löggjöf Vestur-Evrópu, að sú regla gildi um gagnkvæm tryggingafélög, eins og Brunabótafélag Íslands sannarlega var, er að komi til þess að félagið hætti störfum eða ákveðið sé að slíta félaginu af öðrum ástæðum, þá beri að skipta eigum þess milli félagsmanna, eigendanna. Um þetta eru engar deilur, hvorki á Íslandi né í öðrum löndum. Menn ganga út frá þessu, vita það og hafa alltaf vitað að svona beri að gera. Tryggingatakarnir eru félagsmennirnir. Þeir eru eigendur gagnkvæmra tryggingafélaga.

Það er vitað að áður en til þess kom að Brunabótafélaginu væri breytt í eignarhaldsfélag árið 1994 voru nokkrar meiningar um hver ætti það. Sá vitnisburður liggur fyrir frá fjmrn. og ríkisstjórn að hún taldi sig hafa ástæðu til þess að seilast í þær eignir. Eins liggur fyrir að fjmrh. hefði helst viljað að ríkið eignaðist Brunabótafélag Íslands. Einnig voru meiningar um að sveitarfélögin ættu að fá þessar eignir.

Niðurstaða þeirra lögmannanna sem fengnir voru til þess að semja um það greinargerð, var ótvíræð: Ríkið á ekki Brunabótafélag Íslands. Það er ekki eign ríkisins. Ríkið getur þannig ekki, í krafti eignarréttar, gert kröfu í eignir félagsins við slit þess. Hvorki sveitarfélögin í heild né þau sveitarfélög sem gert hafa samning við Brunabótafélag Íslands um brunatryggingar fasteigna í viðkomandi sveitarfélögum, teljast eigendur Brunabótafélagsins.

[15:15]

Þetta var niðurstaðan. Þessi tvö stjórnsýslustig, ríkið og sveitarfélögin, gátu ekki gert kröfur til þess að eignast þetta félag. Niðurstaða manna sem um hafa fjallað er eigi að síður að líta megi þannig á að eignarréttur félagsmanna í Brunabótafélaginu hafi í reynd verið það óvirkur og ekki væri hægt að telja það til brota á stjórnarskránni þótt menn settu lögin nr. 68/1994, um eignarhaldsfélagið. Ég vil taka það fram, herra forseti, að ég eða aðrir flm. þessa frv. ætlum ekki að efast neitt um það. Við teljum ekki að nein lög hafi verið brotin á félagsmönnum með því. Við erum ekki að fjalla um þau lög hér og nú. Við skulum líta svo á, ég held að það sé niðurstaða allflestra, að þar hafi löglega verið að farið. Það var ekkert því til fyrirstöðu að fara þessa leið.

Það sem hefur gerst og um er að ræða er einfaldlega eitt. Ég er alveg viss um að þetta gagnkvæma tryggingafélag hefur unnið ákaflega gott og þarft starf eins og viðskiptalífi Íslands var háttað fram eftir þessari öld. Eins vanþroska og margur markaðurinn var lengi vel svo ég tali nú ekki um tryggingamarkaðinn. Þeir sem samkvæmt lögum fóru með völd í þessu ágæta félagi ákváðu að hætta að starfa sem tryggingafélag. Ég ætla ekki, herra forseti, að segja neitt um hvort ákvörðun þeirra hafi verið röng eða rétt, heimskuleg eða viturleg. Þeir gerðu þetta og sú ákvörðun þeirra stendur. Þeir lögðu fyrst niður Brunabótafélagið, í fyrstu mynd sinni, og hófu samstarf við annað gagnkvæmt tryggingafélag, Samvinnutryggingar Íslands. Það samstarf gekk mjög vel.

Á síðasta ári gerðist það síðan, herra forseti, að þeir sem voru handhafar eignarhaldsfélagsins ákváðu að stíga skrefið til fulls, selja hlut sinn í Vátryggingafélagi Íslands, breyta félagi sínu í almennt fjármálafélag og hefja almenna fjármálastarfsemi. Þannig gerðist þetta. Þeir hættu að starfa og eru ekki lengur gagnkvæmt tryggingafélag, heldur eru þeir á markaði með almenna fjármálastarfsemi.

Þetta, herra forseti, höfum við flm. þessa frv. fyrst og fremst litið á. Við teljum að þar sem hið gagnkvæma tryggingafélag hefur hætt starfsemi þá beri að slíta því. Það er megininntak frv. Í núgildandi lögum um Eignarhaldsfélagið Brunabótafélags Íslands, lögum nr. 68/1994, er skýrt kveðið á um hvernig með skuli fara þegar eignarhaldsfélaginu er slitið. Í II. kaflanum, 4. og 5.gr., er nákvæmlega kveðið á um hverjir séu tryggingatakarnir og hverjir séu félagsmennirnir og til hverra skuli skipta. Í 5. gr. segir:

,,Sameigendur félagsins eru:`` --- og síðan eru þeir taldir upp. Skráin yfir þessa sameiningu liggur fyrir hjá Vátryggingaeftirliti Íslands. Þeir færa það á hverju ári og fara nákvæmlega yfir það. Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands heldur einnig skrá yfir það og ekki að ástæðulausu. Í III. kaflanum um sameignarsjóðinn og fulltrúaráðið í IV. kaflanum segir nákvæmlega til um það hvernig sameignarsjóðurinn eigi að lifa. Hann lifir þannig að ef einhver af sameigendum félagsins deyr, einhver lögaðili hættir starfsemi eða verður gjaldþrota, gerist það sjálfkrafa að sameignarsjóðurinn eignast eign hans. Nákvæmlega er um þetta sagt í lögunum þannig að þetta ætti að ganga alveg nákvæmlega eftir. Sameignarsjóðurinn erfir eigendurna.

Ég veit ekki nákvæmlega, herra forseti, hvernig staðan er í dag en mig minnir að á sl. vori hafi hlutdeild sameignarsjóðsins í Brunabótafélaginu verið í kringum 20%. Það hlýtur að hafa vaxið eitthvað síðan, vegna þess að menn eru jú alltaf að deyja.

Það að afhenda réttum eigendum gagnkvæms tryggingafélags eignir sínar, þegar hið gagnkvæma tryggingafélag er hætt störfum, ætti því ekki að vera mjög flókið eða vefjast mjög fyrir mönnum. Hér er einfaldlega um prinsippmál að ræða, það grundvallarmál að eignarréttur einstaklinganna sé í þessu sem öðru virtur að öllu leyti.

Í fyrra þegar við fjölluðum um þetta mál voru efasemdir um það hvort frv., sem kvæði á um slík slit, gæti staðist. Þegar málið kom til efh.- og viðskn. þingsins fór nefndin fram á það við hæstv. viðskrh. að hann léti gera lögfræðilega úttekt á því hvort svo væri eða ekki. Þessi lögfræðilega úttekt liggur fyrir, veit ég. Ég hef loforð viðskrh. fyrir því að strax og efh.- og viðskn. hefur fengið þetta mál til umfjöllunar að nýju muni hann afhenda nefndinni álitsgerðina. Hún getur þá strax farið yfir það hvort einhver áhöld séu um að þau slit sem frv. gerir ráð fyrir fái staðist. Það mál verður því skjótt afgreitt þegar það kemur til umsagnar efh.- og viðskn.

Því er ekki að leyna, herra forseti, að síðan frv. var lagt fram að nýju hafa ýmsir orðið til þess að tala gegn því áður en tími gafst til þess á Alþingi að mæla fyrir því. Tveir aðilar hafa sent hv. Alþingi mótmæli gegn þessu frv. Annar aðilinn er Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands sem mótmælir þessu mjög harðlega. Hitt er Samband íslenskra sveitarfélaga. Mótmælin eru bæði með sömu dagsetningu og hafa raunverulega sama efnisinnihald. Í báðum þessum mótmælum er litið svo á að framkoma þessa frv. sé hið versta mál. Frv. er talið furðufrumvarp. Því er haldið fram í bréfi Sambands íslenskra sveitarfélaga að ráðist sé á sveitarfélögin í landinu með flutningi þessa máls. Stjórn sambandsins skorar á þingmenn að fella það.

Að því er vikið í þessum fréttatilkynningum að eignarhaldsfélagið sé hinn þarfasti þjónn sveitarfélaganna enda hafi það nú ákveðið sér það hlutskipti að lána sveitarfélögunum til hinna þörfustu hluta. Eins er sagt frá því að nú á útmánuðum hafi þeir tekið þá ákvörðun að greiða sveitarfélögunum, í fyrsta skipti í sögu félagsins, arð eða eignarágóðahlut sem nemur 3% af höfuðstól félagsins eftir síðasta ár, um 110 millj. Við sölu Brunabótafélagsins á hlut sínum í VÍS var hlutur þess metinn á 3,4 milljarða kr. Af því má sjá að hér er um verulega fjármuni að ræða, umtalsverða fjármuni.

Herra forseti. Ég ætla að fara nokkrum orðum um þessi mótmæli. Fulltrúaráð Brunabótafélagsins, eignarhaldsfélagsins, telur að það sé hin mesta svívirða að fara fram á að slit á félaginu. Þeir gefa til kynna að þeir séu hinir bestu og nýtustu menn og þeir hafi hinar frómustu ætlanir á prjónum sínum. Þeir ætli að styrkja brunavarnir, þeir ætli að gera sitthvað sem öllum ætti að vera ljóst að er mjög þarft. Þessu er til að svara, herra forseti, að ég starfaði á annan áratug í sveitarstjórnum á sínum tíma og mér er kunnugt um að íslenskir sveitarstjórnarmenn eru hinir ágætustu menn. Ég hef aldrei efast um það. Ég hef heldur aldrei efast um að fulltrúaráðið sem sveitarstjórnirnar kjósa og mynda Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands sé eingöngu skipað hinum ágætustu mönnum. Ég hef aldrei efast um það. Ég hef heldur ekki efast um að þeir hafa á prjónunum hinar þörfustu aðgerðir og vilja eflaust láta gott af sér leiða. Ég hef aldrei efast um það. En hví efast stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, um að það fólk sem þeir eru fulltrúar fyrir, þ.e. íbúarnir í þeim sveitarfélögum sem tryggðu hjá Brunabótafélagi Íslands, séu ekki ágætis fólk líka? Efast þeir um það? Ætla menn ekki að fólkið sem byggir þessi sveitarfélög sé ekki fullkomlega ábyrgt til að fara vel með peningana sína, ef það fær þá í hendurnar? Ættu peningarnir að týnast við það? Menn hafa m.a. haldið fram þeirri skrýtnu stærðfræði að með því að skipta stórri upphæð, eins og þremur og hálfum milljarði króna, í marga hluta, þ.e. til réttra eigenda, mundi þessi upphæð verða nánast að engu.

Herra forseti. Sveitarstjórnir Íslands og það stjórnsýslusvið þarf að fjalla um mýmörg mál. Það liggur líka fyrir að sveitarstjórnirnar hafa til sinna verka skattlagningarvald. Alveg eins og ríkisvaldið hafa sveitastjórnir skattlagningarvald. Þær taka skatta af borgurunum til að sinna því sem gera þarf á hverjum tíma. Sveitarstjórnirnar, alveg eins og ríkið, hafa ekki fleiri möguleika til að afla sér tekna. Sveitarstjórnirnar geta ekki frekar en ríkið tekið eignir borgaranna. Þótt þær hafi uppi meiningar um að fara vel með það fé og verja því til hinna bestu hluta, hvort sem það eru brunavarnir eða margt annað ágætt sem sveitarstjórnirnar þurfa sannarlega að sinna, þá skiptir öllu máli að rétt sé farið með eignarréttinn. Hvaða trygging er fyrir því að sá, sem ekki fer rétt með eignarréttinn í dag, geri það á morgun? Fyrir því er engin trygging. Þess vegna verða menn að vanda sig þegar kemur að prinsippmálum.

Þarfir sveitarfélaganna eru miklar og knýja á um að bæta ýmis félagsleg mál. Þau hafa skattlagningarvald, kannski að sumra dómi ríflegt. Þau verða að taka skatta til að standa undir útgjöldum eða taka til þess lán, þ.e. taka peninga sem þau ætla að skattleggja menn fyrir seinna. Þau taka ekki eignir borgaranna með nokkrum öðrum hætti í sína þjónustu. Borgararnir eru líka fullkomlega færir um að fara með sína peninga. Sé peningunum, þremur og hálfum milljarði eða hvaða peningaupphæð það er, dreift meðal þeirra, þá munu þeir peningar ekkert týnast. Þeir verða til staðar í samfélagin eftir sem áður.

[15:30]

Hins vegar er það líka rétt sem við skulum athuga um þennan sameignarsjóð eignarhaldsfélagsins og tryggingar sem sveitarfélögin sannarlega stóðu í við Brunabótafélagið, þá er það ljóst að sveitarfélögin í landinu, sem í gegnum tíðina hafa tryggt hjá Brunabótafélagi Íslands munu verða mjög stór eignaraðili. Í þeirra hlut mun koma mjög stór hluti af eignum eignarhaldsfélagsins þegar því verður skipt upp. Ég held því, herra forseti, að í þeim ágripum sem okkur þingmönnum hefur verið sent felist hið mesta öfugmæli.

Það liggur fyrir að félagið er hætt starfsemi. Það liggur fyrir að sveitarfélögin munu við skiptingu eignarhaldsfélagsins fá gríðarlega stóran hluta af eignum þess til sinna þarfa og það liggur fyrir að aðrir hlutir fara til íbúa þessara sömu sveitarfélaga. Þeir munu eignast þá og það er til þeirra sem þeir eiga að fara. Það er þess vegna, herra forseti, sem þetta frv. er flutt. Það er til að tryggja að menn gleymi ekki því sem er grundvallaratriði í okkar stjórnarskrá að við virðum eignarrétt manna.