Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 17. mars 1998, kl. 16:54:44 (4744)

1998-03-17 16:54:44# 122. lþ. 89.2 fundur 524. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtabætur) frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 122. lþ.

[16:54]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra staðfesti það sem ég hélt fram og kemur raunar fram í athugasemdum með þessu frv. að ekki er ætlunin að ríkissjóður leggi til fé til hins nýja Íbúðalánasjóðs. Hæstv. ráðherra gat um að þetta yrði sterkur sjóður með eigið fé upp á 26 milljarða kr. Ég minni á að annar sjóðurinn, Byggingarsjóður verkamanna, er gerður upp með þó nokkru eigin fé um þessar mundir, nokkrum milljörðum króna. (Gripið fram í: Það gengur hægt á það.) En ef sjóðurinn hefði verið gerður upp um næstsíðustu áramót hefði vantað 6.000 millj. kr. til að endar næðu saman. Í því ljósi verður að skoða töluna 26 milljarða að eftir á að ganga á það eigið fé sem nemur vaxtamun á lánum sjóðanna, líftíma lánanna. Ég tel því að hér hafi komið fram að ætlun ríkisstjórnarinnar sé að láta ganga á eigið fé sjóðanna sem þessu nemur í stað þess að greiða úr ríkissjóði fyrir þessum vaxtamun eins og samið var um árið 1993.

Í öðru lagi vil ég segja að þó að sjálfsagt sé að skoða hvort unnt sé að hagræða í vaxtaútgjöldum sjóðanna með því að greiða upp lán og taka önnur, þá hef ég ekki trú á að þar sé mikið fé að spara.

Í þriðja lagi. Það má líka vera að minni umsvif sjóðsins og lægri rekstrarkostnaður létti undir en ég minni á að megnið af rekstrarkostnaði Húsnæðisstofnunar ríkisins greiða viðskiptavinir stofnunarinnar í gegnum vexti og þjónustugjöld. Það sem þar sparast gengur því til þeirra en ekki til að styrkja sjóðinn.

Ég vil segja að lokum, herra forseti, að greinilegt er að mikill ágreiningur er uppi í ríkisstjórninni um hvort eigi að afnema ríkisábyrgð á lánum sjóðsins.