Stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar

Miðvikudaginn 18. mars 1998, kl. 15:40:52 (4874)

1998-03-18 15:40:52# 122. lþ. 90.92 fundur 263#B stjórnsýsluákvarðanir við lagningu Borgarfjarðarbrautar# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 122. lþ.

[15:40]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni hið ótrúlegasta mál sem auðvitað ætti hvorki að vera á dagskrá þessa þings né utan dagskrár. Engu að síður hlaut að reka að því fyrr en síðar að það kæmi hér til umræðu eins og málið hefur þróast.

Til að byggja upp Borgarfjarðarbraut og bæta samgöngur í Reykholtsdal frá Flóku að Kleppjárnsreykjum drógu vegagerðarhönnuðir upp veglínu um blómlega byggð. Þeir gættu þess ekki að þar var fyrir fólk með bú sín og vilja til þess að efla landbúnaðinn með öflugri uppbyggingu á jörðum sínum. Meiri hluti sveitarstjórnar Reykholtsdals, sem lögum samkvæmt fer með skipulagsmál í sveitarfélaginu, gat ekki fallist á áform Vegagerðarinnar. Í ljósi þess beittum við þingmenn kjördæmisins okkur fyrir því, í ársbyrjun 1996, að hæstv. samgrh. Halldór Blöndal fengi ótengdan aðila til að skoða þetta mál. Virtur lögfræðingur benti á að meðalhófsreglu stjórnsýslulaga væri ekki gætt með því að velja þessa veglínu því um aðra jafngóða leið væri að ræða og hæpið að leggja veg um tún og engi og kljúfa jarðir. Því varð úr að leita annarra kosta.

Óháður hönnuður þekktrar verkfræðistofu lagði til svokallaða sáttaleið. Þá leið hefur hreppsnefnd samþykkt og einnig Vegagerðin, skipulagsstjórn ríkisins og þingmenn kjördæmisins, a.m.k. meiri hluti þeirra. Með sérstakri afgreiðslu í lok síðasta árs samþykkti skipulagsstjórn ríkisins skipulagið með sáttaleiðina sem lausn. En þá gerist það, sem við þekkjum, að hæstv. umhvrh. fellir úr gildi skipulag sem gerir ráð fyrir umræddri sáttaleið.

Í mínum huga er einungis ein leið til lausnar í þessu máli. Að hæstv. umhvrh. staðfesti það skipulag með svokallaðri sáttaleið sem löglega kjörin sveitarstjórn hefur samþykkt og er tilbúin að afgreiða með flýtimeðferð á grundvelli 3. liðar bráðabirgðaákvæða í skipulagslögum.

Ég treysti því að hæstv. umhvrh. og samgrh. leiti leiða á grundvelli þeirrar tillögu sem umhvrn. hefur sjálft gert um þessa flýtimeðferð og komi í veg fyrir áframhaldandi ófrið. Sveitirnar þurfa ekki á honum að halda.