Staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 15:19:09 (4942)

1998-03-19 15:19:09# 122. lþ. 91.1 fundur 568. mál: #A staðfesting viðbótarsamninga við Norður-Atlantshafssamninginn# þál., JónK
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[15:19]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég átti þess ekki kost að hlusta á upphaf þessarar umræðu en vildi eigi að síður bæta örfáum orðum við hana. Ég geri það vegna þess að mér finnst um ákaflega merkilegt mál að ræða og merkilegan áfanga í sögu öryggismála Evrópu á þessari öld. Það er kannski vegna þess að ég hef átt þess kost að fylgjast með þingmannasamstarfi NATO-ríkjanna um nokkurt árabil og hef upplifað á þeim vettvangi miklar breytingar og mér finnst sú tillaga sem hér er til umræðu og afgreiðslu marka viss þáttaskil varðandi það starf sem verið hefur í þeim samtökum.

Eins og ég kom að er meginhlutverk þingsins að efla samstöðu þjóðþinga NATO-ríkjanna. Ég kom þar fyrst inn og var þar í tvö ár árið 1985 þegar kalda stríðið setti mjög mark sitt á starf samtakanna. En árið 1987 var farið að gera veikburða tilraunir til að mynda samtök með þingmönnum frá Austur-Evrópuríkjunum. Síðan kom ég aftur að þessum málum upp úr 1990 og þá var allt gjörbreytt. Þá voru flestar Austur-Evrópuþjóðirnar komnar með aukaaðild að samtökunum, þar á meðal Rússar og flestir stjórnmálaflokkar í þessum ríkjum sendu þangað fulltrúa. Af einhverjum ástæðum hefur Alþb. ekki treyst sér til að taka þátt í þessu starfi og það eru mjög fáir stjórnmálaflokkar í Evrópu sem hafa ekki sent fulltrúa í þetta samstarf. Ég hafði tækifæri á þessum vettvangi til að hlýða á skoðanir þingmanna frá Austur-Evrópuríkjunum og hlusta á sjónarmið þeirra og fylgjast með áralangri baráttu þeirra fyrir aðild að Atlantshafsbandalaginu. Öryggismál voru mikil alvara hjá þessum þingmönnum og öryggismál voru þar fyrst og fremst í fyrirrúmi, en vissulega kom einnig í ljós að hluti af þessu máli var að skipta um stíl, skipta um takt og tilheyra öðru samfélagi, tilheyra vestrænu samfélagi. Aðild að samtökum vestrænna ríkja var tákn um það.

Nú eru viss þáttaskil í þessari baráttu og ákveðið hefur verið að þrjú lönd Mið-Evrópu fái aðild að bandalaginu. Þetta hefur auðvitað ekki gerst baráttulaust. Búið er að leggja mikla vinnu í þetta mál og m.a. hefur verið unnið að því að þessi stækkun bandalagsins geti átt sér stað án þess að valda truflun í öryggismálum álfunnar eða einangra Rússa eins og hv. 4. þm. Austurl. nefndi það áðan. Tekið var upp samstarf við Austur-Evrópuríkin fyrir nokkrum árum sem var verkefni Partnership for Peace eða Samstarfs í þágu friðar. Það samstarf er á fjölmörgum sviðum og hefur haft gífurlega þýðingu. Það er ljóst að fjölþjóðaliðið á Balkanskaga og allar þjóðir sem í því taka þátt njóta góðs af því samstarfi sem þar var tekið upp. Í þessum anda þarf að vinna áfram.

Umræðan hér á landi hefur hnigið að því að óvinurinn sé horfinn og vissulega get ég tekið undir það að ástandið hefur gjörbreyst. Heimsmynd kalda stríðsins er hrunin. En það er ekki þar með sagt að kominn sé á friður og öryggi í Evrópu þrátt fyrir það. Hættan sem nú steðjar að Evrópu er m.a. vegna pólitísks óstöðugleika og þar á meðal í því stóra ríki Rússlandi og þeim lýðveldum sem einu sinni mynduðu Sovétríkin. Hún stafar af átökum milli minnihlutahópa og þeirra sem ráða og er kynt undir með mismunandi trúarbrögðum. Þetta kannast allir hv. þm. við af fréttum og þeirri umræðu sem hefur verið um öryggismál um árabil. Það er því langt í frá að kominn sé á friður og öryggi og full þörf er á að leggja í það mikla vinnu og fjármuni að byggja upp öryggiskerfi. Hins vegar hefur sú stefna verið tekin hjá NATO að feta sig áfram smátt og smátt með aðild nýrra þjóða þannig að þær geti komið inn með fullum styrkleika og þeirra innri mál séu í jafnvægi. Eins og fram hefur komið áður er verið að byggja upp öryggiskerfi á vegum ÖSE og fleiri aðila. Ég minntist á þingmannasamtökin í upphafi og kannast því vel við umræðurnar um allsherjaröryggiskerfi í Evrópu. Rússnesku fulltrúarnir í þingmannasamtökunum hafa haldið þessu á lofti og talið sig vera reiðubúna til að taka þátt í því að byggja upp slíkt kerfi. En niðurstaðan hefur verið sú að innri mál þar séu ekki enn þá slík að þetta sé mögulegt. En vonandi þróast mál á þann veg í framtíðinni.

Ég vonast til að þróunin í átt til friðar og öryggis verði hraðfara í Evrópu. Því miður eru mörg hættumerki á þeirri leið. Víða er órói, m.a. á Balkanskaga þar sem mjög hættuleg staða er uppi núna, eins og í Kosovo, sem getur leitt til mikilla átaka ef illa fer. En það er von okkar að þróunin verði á annan veg og að Atlantshafsbandalagið í breyttri mynd eftir stækkunina geti lagt sitt lóð á vogarskálina til að svo verði.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því að rifja upp söguna. Lengi mætti tala um liðin ár í þessu sambandi. Sú var tíð að aðildin að NATO skipti þjóðinni í fylkingar og vissulega lá þar lína í gegnum flokkinn minn. Hins vegar held ég að þróunin hafi sýnt svo ekki verður um villst og ég hef sannfærst um það með tímanum, að stofnun þessara samtaka og tilvera þeirra hefur tryggt aðildarþjóðunum öryggi um langt skeið. Ég vona að framhald verði á stækkun þessara samtaka og þau í heild myndi það öryggiskerfi sem við stefnum að. Friður og öryggi eru grundvallaratriði þess að efnahagsmál geti þróast farsællega. Ég geri allra síst lítið úr umhverfismálum í því efni en ég tel að grundvallarþáttur þess að almenningur geti búið við sæmilegan efnahag, og fólk hvar sem vera skal, sé að friður og öryggi ríki og að hægt sé að komast hjá ófriði. Það er að mínum dómi takmark þessara samtaka sem hér um ræðir.