Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum

Fimmtudaginn 19. mars 1998, kl. 17:08:17 (4960)

1998-03-19 17:08:17# 122. lþ. 91.3 fundur 8. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum# frv., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 122. lþ.

[17:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þingmenn Alþb. eru andvígir Atlantshafsbandalaginu, andvígir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og andvígir tilveru þess. Þar er um grundvallarágreining að ræða. Ég er sannfærður um að tilvist Atlantshafsbandalagsins hefur skapað þá stöðu sem er í Evrópu í dag og orðið til þess að kommúnisminn er fallinn. Ég er sannfærður um að kommúnisminn mundi lifa mjög góðu lífi í dag ef Atlantshafsbandalagið hefði aldrei orðið til.

Það liggur alveg fyrir að kjarnavopnabúnaður bandalagsins er enn þá grundvallarþáttur í varnarviðbúnaði og fælingarstefnu Atlantshafsbandalagsins og það liggur alveg skýrt fyrir að fullgildir aðilar að þessu bandalagi gangast undir og styðja sameiginlega varnarstefnu bandalagsins. Hitt er jafnljóst að Íslendingar eru andvígir því að hér á landi séu staðsett kjarnorkuvopn og hér hafa ekki verið staðsett kjarnorkuvopn og við munum ekki leyfa staðsetningu kjarnavopna hér á landi. Það liggur alveg ljóst fyrir og það er jafnljóst að ef einhvern tímann til þess kemur að eitthvað slíkt verði gert, sem við skulum vona að guð lofi að aldrei gerist, þá verður ekkert slíkt gert án samþykkis Íslendinga og að því leytinu til er Ísland friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum nú þegar og hefur verið síðan að þau tortímingartól voru fundin upp.